Fara í efni  

Fréttir

Staðsetning þjónustustarfa

Landshlutasamtök sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélög í samstarfi við Byggðastofnun könnuðu staðsetningu ríkisstarfa árið 2013. Könnunin er uppfærsla á annarri könnun sem Byggðastofnun gerði 1994 og var þá liður í undirbúningi fyrir stefnumótandi byggðaáætlun 1994-1997. Uppfærsluna og samanburðinn má sjá á bls. 43-47 í Stöðugreiningu 2013, fylgiriti með stefnumótandi byggðaáætlun 2014-2017, sem sækja má á heimasíðu Byggðastofnunar.  Þessa uppfærslu jók Byggðastofnun við á árinu 2014 þannig að hún nær til allra stofnana ríkisins og hlutafélaga sem ríkið á að meirihluta og til þéttbýlisstaða á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi könnun var einn liður í greiningu á þjónustusvæðum og þjónustustöðum til undirbúnings stefnumótunar fyrir þjónustu ríkisins í byggðaáætlun. Aðrir þættir í þessum undirbúningi eru könnun á staðsetningu þjónustufyrirtækja sem gerð var 2014 í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélög og könnun á staðsetningu þjónustuþátta sveitarfélaga sem gerð var 2015. Byggðastofnun undirbýr á vordögum 2015 viðamikla könnun á því hvert fólk sækir þjónustu og hvaðan. Miðað er við að fyrstu niðurstöður liggi fyrir um áramót 2015 og 2016. Þá kannaði Byggðastofnun fjölda ríkisstarfmanna um áramót 2014 og 2015 og greindi staðsetningu þeirra.  Niðurstöðurnar að hluta hafa verið settar fram á vef Byggðastofnunar.

Niðurstöður kannana á staðsetningu þjónustutengdra starfsþátta ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja eru settar fram á skrám og á kortum. Sérstök skrá og tilheyrandi kort er fyrir ríkisstarfsemina, sértök skrá fyrir þjónustu fyrirtækin og sérstök fyrir þjónustu sveitarfélaga. Á tilheyrandi kortum er hins vegar starfsemi sveitarfélaga og fyrirtækja sett fram saman. Ástæða þess er að sums staðar eru starfsþættir reknir af fyrirtækjum en annars staðar af sveitarfélögum.

Mikilvægt er að undirstrika að þessar kannanir náðu aðeins til staðsetningar starfsþátta, ekki til stærðar stofnana eða fyrirtækja né fjölda þeirra. T.d. eru fleiri en einn prestur í nokkrum þéttbýlisstöðum og margir í sumum og fleiri en einn framhaldsskóli og háskóli. Við sumar stofnanir og starfsþætti starfa margir en fáir við önnur, jafnvel aðeins einn. Ef enginn starfsmaður var á vegum félags eða stofnunar taldist sú stofnun eða það félag ekki með nema ástandið væri tímabundið. Sumar stofnanir á töflunni voru klofnar eftir hefðbundnum verkefnum, s.s. Samgöngustofa í Vegagerðina og Siglingastofnun, og það talið gefa gleggri mynd. Þá voru þéttbýlisstaðir utan höfuðborgarsvæðisins teygðir yfir vinnusóknarsvæði þeirra því starfsemi og starfsfólk blandast inn í bæjarstarfsemina, t.d. starfsemi háskólanna að Bifröst og Hvanneyri í Borgarnes og Hólaskóla í Sauðárkrók.

Sumir starfsþættir sem ríkið hafði áður með höndum eru nú í hlutafélögum sem ríkið á að fullu, s.s. Íslandspóstur og RARIK, eða sem ríkið á að meirihluta s.s. tónlistarhúsið Harpa og Landsbankinn. Aðrir starfsþættir eru reknir samkvæmt þjónustusamningi s.s. Háskólasetur Vestfjarða. Hins vegar heyra rannsóknasetur Háskóla Íslands undir hann. Öll þessi rekstrarform eru talin sem starfsemi ríkisins á töflunni.

Þjónustu veita stofnanir mun víðar en þar sem störfin „eiga heima“ og má t.d. nefna heimsóknir sérfræðinga frá LSH og FSA í heilbrigðisstofnanir um allt land. Þá eru dæmi um að prestar þjóni fleiri en en einum þéttbýlisstað.

Á skránum yfir staðsetningu starfsþátta má greina stóru línurnar, hvaða staðir hafa marga starfsþætti, en stóru línurnar á kortunum eru hvernig þessir starfsþættir dreifast um landið.

Af skránni yfir ríkisstarfsemina sést hve Reykjavík skarar fram úr sem þjónustustaður ríkisins og greina má að Akureyri skorar hátt í samanburði við aðra þéttbýlisstaði en Reykjavík, bæði hvað varðar þjónustu á landshluta- og landsstigi. Þá má einnig greina Ísafjörð, Sauðárkrók, Egilsstaði og Selfoss frá hinum og þá einkum með þjónustu á landshlutastigi. Athyglisvert er að staðsetning ríkisþjónustu dreifist meira á þéttbýlisstaði Vesturlands, Norðurlands vestra og Suðurlands en á þéttbýlisstaði Vestfjarða, Austurlands, Norðurlands eystra og þó sérstaklega höfuðborgarsvæðisins.

Á kortinu yfir staðsetningu ríkisstarfseminnar sést vel hversu rauði liturinn er sterkur í Reykjavík, hve margir starfsþættir ríkisins fyrir landið allt hafa þar aðsetur, og hve fáir eru á austurhluta landsins.

Á skránni yfir starfsemi sveitarfélaga sést að hún er víðtæk og aðsetur hennar er víðast á stærri stöðum sveitarfélaganna en veitt víðar með heimsóknum eða með aðild sveitarfélags að rekstri. Upplýsingar fengust ekki um starfsemi Reykjavíkurborgar.

Á skránni yfir aðsetur þjónustufyrirtækja sést að nokkrir staðir skera sig út með fjölþætta starfsemi slíkra fyrirtækja. Þessi starfsemi virðist eflast með vaxandi íbúafjölda, þéttbýlisstaðir á höfuðborgarsvæðinu eru aðsetur fjölþættrar þjónustu, Seltjarnarnes, Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður og Garðabær og Keflavík/Njarðvík á Suðurnesjum. Þar bregður öðru vísi við því fáir starfsþættir ríkisins hafa þar aðsetur. Á Vesturlandi skera Akranes og Borgarnes sig úr en fjölþætt starfsemi þjónustufyrirtækja er þó líka á Hellissandi/Ólafsvík. Ísafjörður sker sig úr á Vestfjörðum þó Patreksfjörður búi líka yfir nokkuð fjölbreyttum þjónustufyrirtækjum. Á norðurlandi vestra hefur Sauðárkrókur fjölbreyttast þjónustuframboð en það er líka fjölbreytt á Hvammstanga. Á norðurlandi eystra sker Akureyri sig alveg úr en Húsavík er líka aðsetur fjölþættrar þjónustu fyrirtækja. Egilsstaðir skora hæst á Austurlandi og fjölbreytt starfsemi þjónustufyrirtækja er líka á Neskaupstað og Reyðarfirði. Á Suðurlandi er Selfoss aðsetur fyrir fjölbreyttasta flóru þjónustufyrirtækja og Höfn og Vestmannaeyjar eru líka aðsetur fjölbreyttrar þjónustu.

Aðsetur starfsþátta sveitarfélaga og þjónustufyrirtækja er sett fram saman á 5 kortum. Upplýsingarnar eru margar og því kunna kortin að virðast flókin.

Kort 1 Heilbrigði og líkamsrækt sýnir hvar starfsemi á þessum sviðum hefur aðsetur. Fjölbreytni á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum kemur glöggt fram. Þá má sjá að eftir því sem íbúafjöldi þéttbýlisstaða vex fjölbreytnin og blálituðum starfsþáttum fjölgar og þeir sýna rekstur á vegum fyrirtækja en rauðleitir eru fleiri á fámennari stöðum og sýna að sú starfsemi er rekin af sveitarfélagi. Ítrekað skal að upplýsingar fengust ekki um Reykjavíkurborg.

Kort 2 Félags- og skólaþjónusta sýnir starfsemi sem er alveg á vegum sveitarfélaga og reitirnir rauðir. Dökkgulir reitir sýna aðild sveitarfélaga að rekstri og ljósir sýna að þjónusta er veitt með heimsókn. Vel kemur fram að þjónusta á þessum sviðum er fjölbreytt mun víðar en t.d. á sviði heilbrigðis og líkamsræktar. Ítrekað skal að upplýsingar fengust ekki um Reykjavíkurborg.

Kort 3 Verslun og einstaklingsþjónusta sýnir að þetta er svið fyrirtækja og að fjölbreytni starfsþátta vex með vaxandi í búafjölda. Þannig sést glöggt hve stutt er á milli hinna ýmsu þátta á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum í samanburði við norðaustur- og suðausturhluta landsins.

Kort 4 Menningar- og ferðaþjónusta sýnir dreifðari fjölbreytni en kort 3 og víðtæka aðild sveitarfélaga að rekstri. Hún er þó mjög tengd söfnum og ferðaþjónustu sem fyrst og fremst er fyrir íbúa frekar en ferðamenn. Sveitarfélög reka víða tjaldsvæði og eiga aðild að rekstri íþrótta- og afþreyingarsvæða. Sums staðar tengjast þau rekstri gistiheimila en fyrirtæki standa víðast að rekstri hótela og veitingahúsa. Ítrekað skal að upplýsingar fengust ekki um Reykjavíkurborg.

Kort 5 Byggingar-, fjármála- og rekstrarþjónusta er svið fyrirtækja sem glöggt sést af bláum lit reitanna. Fjölbreytni starfseminnar á þessu sviði helst mjög í hendur við íbúafjölda og þar með fyrirtækjaflóru á öðrum sviðum og virkni staðbundins atvinnulífs.

Þessi kort eru upplýsingakort sem nýst geta við greiningu á þjónustustöðum og við áætlanagerð á lands- og landshlutavísu.

Nánari upplýsingar veita Árni Ragnarsson, sérfræðingur á þróunarsviði og Snorri Björn Sigurðsson forstöðumaður þróunarsviðs.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389