Fara í efni  

NORA - Norræna Atlantssamstarfið

Norræna Atlantssamstarfið (NORA) eru samtök fjögurra landa og fellur starfsemin undir byggðastefnu Norrænu Ráðherranefndarinnar. 

Starfssvæði NORA nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs (níu norskra strandfylka frá Finnmörku í norðri til Rogalands í suðri svo og Svalbarða). Landfræðileg lega, sameiginleg einkenni, viðfangsefni, saga, stofnanir svo og menningarleg bönd tengja NORA-löndin.

NORA styrkir samstarf á svæðinu með það að markmiði að gera Norðuratlantssvæðið að öflugu norrænu svæði, sem einkennist af sterkri sjálfbærri efnahagsþróun. Það er meðal annars gert með því að styðja samstarf í atvinnulífi og rannsókna- og þróunarstarf  þvert á landamæri.

NORA er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni ásamt framlagi allra fjögurra landanna sem að samstarfinu standa. Í NORA-nefndinni eru tólf fulltrúar, þrír frá hverju landi á NORA-svæðinu. Einn frá hverju landi situr í framkvæmdastjórn NORA.

Skrifstofa NORA er í Þórshöfn í Færeyjum. Í hinum löndunum eru landsskrifstofur þar sem starfa tengiliðir fyrir NORA. Á Íslandi er Byggðastofnun landsskrifstofa NORA og Sigríður K. Þorgrímsdóttir tengiliður.

Miðlun þekkingar
Fréttapistlar sem skrifaðir eru sérstaklega fyrir fréttabréf NORA birtast mánaðarlega á heimasíðu þess. Þar að auki er stöðugt að finna ábendingar um fréttir og atburði á svæðinu á fésbókarsíðu NORA.

Verkefnastyrkir
NORA styrkir fjármögnun samstarfsverkefna, ef þau falla undir þau markmið sem lýst er í skipulagsáætluninni. Hægt er að sækja um styrki tvisvar á ári, í mars og október og er það auglýst á heimasíðu Byggðastofnunar, sem og heimasíðu NORA og í dagblöðum.

Í umsóknunum skal taka mið af samstarfsáætlun NORA 2021-2024, sjá hér.

Þau svið sem helst eru styrkt eru eftirfarandi: 

Lífhagkerfi. Nýsköpunarverkefni skulu stuðla að verðmætaaukningu með þróun vannýtts hráefnis, nýrrar verðmætasköpunar og sjálfbærrar matvælaframleiðslu. 

Sjálfbær ferðaþjónusta. Ferðaþjónustan á að leggja sitt af mörkum til að auka fjölbreytni í viðkvæmum hagkerfum á svæðinu um leið og sjálfbærni innan greinarinnar eykst. Forgang hafa verkefni með áherslu á þróun ferðaþjónustunnar í framtíðinni.

Hringrásarhagkerfi með nýtingu náttúruauðlinda og fullnýtingu afurða að leiðarljósi. Áhersla er lögð á verkefni sem eru í víðtæku samstarfi, t.d. samstarfi sveitarfélaga.

Samgöngur og flutningar. Samstarf um bættar og grænar lausnir í samgöngum og flutningum sem tengir byggðir þéttar saman. Í forgangi eru verkefni sem miða að umhverfisvænum lausnum með endurnýjanlegum orkugjöfum í flutningum á hafinu.

Orkumál. Áhersla á að þróa endurnýjanlegar og rafrænar lausnir fyrir strjálar byggðir á svæðinu. Ekki síst er lögð áhersla á orkulausnir sem taka mið af aðstæðum þar sem ekki er aðgangur að meginorkukerfinu.

Samfélag heima fyrir. Áhersla sé lögð á að fólki líði vel í sinni heimabyggð. Það sé ekki síst gert með því að virkja ungt fólk til þátttöku í sínu byggðarlagi.

Auk þessa hefur NORA áhuga á að efla samstarf við nágranna til vesturs, með því að styrkja verkefni þar sem um samstarf NORA-landanna við Kanada og skosku eyjarnar er að ræða. Þátttakendur frá þessum löndum geta þó ekki notið fjárstuðnings NORA. Aðalskrifstofan veitir aðstoð við að finna samstarfsaðila frá Kanada og skosku eyjunum.

Skilyrði fyrir verkefnastyrk frá NORA er að a.mk. tvö af NORA-löndunum fjórum (Grænlandi, Íslandi, Færeyjum og strandsvæðum Noregs) séu þátttakendur. NORA veitir aðstoð við að finna samstarfsaðila. Þá aðstoð má fá gegnum aðalskrifstofu NORA í Færeyjum og landskrifstofur á Grænlandi, Íslandi og Noregi.

Umfang verkefnastuðnings
Hámark NORA-styrkja: 

  • 50% af heildarkostnaði verkefnis
  • 500.000 danskar krónur árlega í að hámarki þrjú ár

Sækja þarf um árlega, þó svo verkefni séu til þriggja ára.

Umsóknir
Umsóknarfrestir NORA eru tvisvar á ári. Sá fyrri er auglýstur um eða eftir miðjan janúar með umsóknarfrest í byrjun mars, en sá síðari er auglýstur um eða eftir miðjan ágúst með umsóknarfrest í byrjun október. Dagsetningar umsóknarfresta er að finna á heimasíðu NORA,

Umsóknir skal senda rafrænt til noraprojekt@nora.fo.

Umsóknareyðublöð og leiðbeiningar varðandi umsóknir má finna á heimasíðu NORA.

Tengiliður á Íslandi
Hanna Dóra Björnsdóttir, sími 455 5454, netfang: hannadora@byggdastofnun.is

Tengiliðir veita ráðgjöf og upplýsingar og aðstoða við að finna samstarfsaðila í hinum NORA-löndunum. Einnig má leita nánari upplýsinga hjá skrifstofu NORA í Þórshöfn, sími +298 306990

Yfirlit NORA-verkefna með íslenskri þátttöku frá árinu 2018 má finna hér.

Yfirlit yfir verkefni frá 2017 og eldri. 

Uppfært 2.2.2024

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389