Þingeyri
Öll vötn til Dýrafjarðar
Þingeyri og nærsveitir við Dýrafjörð hófu göngu sína í Brothættum byggðum á árinu 2018. Verkefnið hlaut heitið Öll vötn til Dýrafjarðar. Áætlað var að verkefninu lyki um áramót 2021 samkvæmt samningi. Beiðni barst frá Ísafjarðarbæ um framlengingu á verkefninu út árið 2022 og ákvað stjórn Byggðastofnunar að verða við þeirri ósk. Lokaíbúafundur var haldinn á Þingeyri í maí 2023, en þá dró Byggðastofnun sig í hlé úr verkefninu.
Um byggðarlagið:
Þingeyri stendur við Dýrafjörð og eru íbúar ásamt sveitinni í kring um 400 talsins. Nafnið Þingeyri mun vera dregið af Dýrafjarðarþingi sem þar var háð til forna. Þingeyri er gamall verslunarstaður og þar stendur meðal annars pakkhús eða vörugeymsla frá fyrri hluta 18. aldar. Pakkhúsið var byggt árið 1734 en það er talið vera eitt af elstu húsum landsins. Á Þingeyri var bækistöð bandarískra lúðuveiðimanna seint á 19. öld og franskir duggarar voru þar tíðir gestir. Aðalatvinna Þingeyringa tengist sjávarútvegi, en þó er að finna aðra starfsemi tengda ferðaþjónustu og handverki. Aðstaða til íþróttaiðkunar er mjög góð hvort sem hún er stunduð inni eða úti. Ný íþróttamiðstöð með sundlaug og íþróttahúsi var tekin í notkun í janúar 1997. Golfvöllur er rétt fyrir utan Þingeyri og áhugaverðar gönguleiðir eru um slóðir Gísla Súrssonar í Haukadal. Eitt elsta bridgefélag landsins, Bridgefélagið Gosi, starfar með miklum sóma og handverkshópurinn Koltra býr til og selur ýmsan varning. Með tilkomu brúar yfir Dýrafjörð og jarðganga undir Breiðadalsheiði hafa samgöngur batnað til muna og gert það að verkum að auðvelt er að komast á menningarviðburði í nágrannabyggðum eða að fá gesti á samkomur á Þingeyri. Elsta starfandi vélsmiðja landsins er á Þingeyri. Smiðjan sem er nánast í upprunalegu ástandi ber nafn Guðmundar J. Sigurðssonar og tók til starfa árið 1913. Til hennar leituðu innlend og erlend skip eftir þjónustu sem var annáluð jafnt innan lands sem utan. Vélsmiðjan er nú rekin af Kristjáni Gunnarssyni sem rekur einnig bílaverkstæðið, Bíla- og vélaþjónusta Kristjáns og sér hann um nánast alla þjónustu tengdum vélum og bílum eins og nafnið gefur til kynna. Göng á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar voru opnuð haustið 2020 og með tilkomu þeirra skapast nýir möguleikar fyrir byggðarlagið.
Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki í öllum þátttökubyggðarlögum hér. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit styrkja í Öll vötn til Dýrafjarðar í PDF skjali.
Verkefnisstjóri: Agnes Arnardóttir (agnes@vestfirdir.is) .
Í verkefnisstjórn eru: Arna Lára Jónsdóttir fulltrúi Ísafjarðabæjar, Aðalsteinn Óskarsson og Sigurður Líndal Þórisson frá Vestfjarðastofu, Erna Höskuldsdóttir, Guðrún Guðmundsdóttir og Guðmundur Ólafsson f.h. íbúa og loks Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir frá Byggðastofnun.
Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:
Öll vötn til Dýrafjarðar - Niðurstöður rýnihópaviðtala sem tekin voru í desember 2021
Öll vötn til Dýrafjarðar - skilaboð íbúaþings mars 2018
Öll vötn til Dýrafjarðar - Markmið og framtíðarsýn, desember 2018
Öll vötn til Dýrafjarðar - ársskýrsla 2018
Öll vötn til Dýrafjarðar - ársskýrsla 2019
Öll vötn til Dýrafjarðar - ársskýrsla 2020
Öll vötn til Dýrafjarðar - ársskýrsla 2021
Öll vötn til Dýrafjarðar - ársskýrsla 2022
Heildaryfirlit styrkja - Öll vötn til Dýrafjarðar
Mynd: Frá Þingeyri / Kristján Þ. Halldórsson
Uppfært 26.07.2023.
Upplýsingar um Þingeyri fengnar á Þingeyrarvefnum www.thingeyri.is