Árneshreppur
Áfram Árneshreppur!
Árneshreppur hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir árið 2017 undir heitinu Áfram Árneshreppur. Áætlað var að verkefninu lyki á árinu 2021 en að tillögu ríkisstjórnar var það framlengt til loka árs 2022. Stjórn Byggðastofnunar ákvað undir lok árs 2022 að framlengja verkefnið enn um eitt ár, til loka árs 2023, með það fyrir augum að aðstoða íbúa við að nýta sem best tækifæri sem bættir innviðir ættu að hafa í för með sér.
Um byggðarlagið:
Árneshreppur á Ströndum er afskekkt og víðfeðmt sveitarfélag. Þar hefur um aldir fólk lifað af fjölbreyttum landkostum og hlunnindum lands og sjávar. Árneshreppur er fámennasta sveitarfélagið á Íslandi. Sauðfjárrækt hefur alla tíð verið helsti atvinnuvegur í Árneshreppi enda hentar svæðið mjög vel til sauðfjárbúskapar. Landslagið á svæðinu er stórfenglegt og hefur mikið aðdráttarafl. Fólkið, menningin og sögurnar sem svæðið hefur að geyma hafa einnig mikið aðdráttarafl. Svæðið hefur að geyma margar sögur líkt og Íslendingasögur, galdrasögur, sögur fólksins af svæðinu og stóran hluta síldveiðisögunnar við Ísland. Vegna mikillar uppbyggingar í tengslum við ferðamenn þá hefur menning og saga Árneshrepps fengið að blómstra í sögusýningum, söfnum, kaffihúsum og hinum ýmsu menningarviðburðum.
Á sumrin er lífleg ferðaþjónusta rekin víðsvegar á svæðinu og svæðið vinsælt meðal ferðalanga sem eru á leið til Hornstranda. Hornstrandafriðland nær yfir nyrsta hluta Vestfjarðakjálkans. Auk hinna eiginlegu Hornstranda nær friðlandið yfir Aðalvík og norðurhluta Jökulfjarða. Á Hornströndum er stórbrotin og einstök náttúrufegurð. Meðfram ströndinni eru snarbrött fjöll og á milli þeirra eru firðir, víkur og dalir. Landið hefur mótast af ágangi sjávar og jöklum ísaldar sem hafa skilið eftir ófáar hvilftir og skörð. Jarðsöguna má lesa úr landslagi og eru víða minjar um gróðurfar og veðurfar fyrir milljónum ára. Gróðurfar er einstakt. Gróður hefur aðlagast aðstæðum á svæðinu, stuttum og björtum sumrum og snjóþungum vetrum og er furðu gróskumikill. Þá hefur landið lengi haft frið fyrir ágangi manna og búfjár. Víða er fallega gróið land í víkum og fjörðum og á síðustu áratugum ber meira á nokkrum tegundum plantna sem áður voru nánast horfnar vegna beitar. Fuglalíf er auðugt á svæðinu enda fæðuskilyrði góð í hafinu og enginn hörgull á hentugum varpstöðvum. Á sumrin er mest um fugla sem halda til á sjó og setjast eingöngu upp til að verpa. Einnig verpir fjöldi fugla, vatna- og votlendisfugla af ýmsum tegundum við sjóinn.
Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki í öllum þátttökubyggðarlögunum hér, Hér fyrir neðan má skoða yfirlit styrkja í Áfram Árneshreppur í PDF skjali.
Verkefnisstjóri: Skúli Gautason (skuli@vestfirdir.is)
Í verkefnisstjórn eru: Eva Sigurbjörnsdóttir sveitarstjóri, Aðalsteinn Óskarsson og Magnea Garðarsdóttir frá Vestfjarðastofu, Arinbjörn Bernharðsson, Kristmundur Kristmundsson og Davíð Már Bjarnason f.h. íbúa og loks Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir frá Byggðastofnun.
Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:
Árneshreppur - Skilaboð íbúaþings, júní 2017
Áfram Árneshreppur - Markmið og framtíðarsýn
Áfram Árneshreppur - ársskýrsla 2018
Áfram Árneshreppur - ársskýrsla 2019
Áfram Árneshreppur - ársskýrsla 2020
Áfram Árneshreppur - ársskýrsla 2021
Áfram Árneshreppur - ársskýrsla 2022
Áfram Árneshreppur - ársskýrsla 2023
Greinargerð verkefnisstjórnar Áfram Árneshreppur 2021
Heildaryfirlit styrkja - Áfram Árneshreppur
Mynd: Krossnes og Finnbogastaðafjall í bakgrunni / Kristján Þ. Halldórsson.
Uppfært 20. febrúar 2024
Upplýsingar um Árneshrepp sóttar á heimasíðu Árneshrepps www.arneshreppur.is og Markaðsstofu Vestfjarða www.westfjords.is