Dalabyggð
Dala Auður
Dalabyggð hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir á fyrri hluta árs 2022 undir heitinu DalaAuður. Áætlað er að verkefnið vari til loka árs 2025 hvað aðkomu Byggðastofnunar varðar.
Um byggðarlagið:
Sveitarfélagið Dalabyggð nær frá botni Álftafjarðar að Gilsfjarðarbotni. Í Dalabyggð búa um 660 manns (mars 2022). Um er að ræða stórt og dreifbýlt sveitarfélag þar sem helstu atvinnuvegir eru landbúnaður, ferðaþjónusta, úrvinnsla landbúnaðarafurða og tengd þjónusta ásamt stoðþjónustu við íbúa.
Búðardalur er eini þéttbýliskjarninn í Dalabyggð og þar búa um 40% íbúanna, en um 60% í dreifbýli.
Um er að ræða mikið sögusvæði allt frá landnámi, um Sturlungaöld og til dagsins í dag. Mörg þekkt skáld eiga sterk tengsl við héraðið, má þar nefna: Jóhannes úr Kötlum, Stefán frá Hvítadal, Jón frá Ljárskógum, Theodóru Thoroddsen, Stein Steinarr, að ógleymdum Sturlu Þórðarsyni, sem skráði mörg eldri bókmenntaverk Íslandssögunnar.
Í Dalabyggð er sauðfjárrækt helsta landbúnaðargreinin. Árið 2021 voru rúmlega 24.000 kindur í sveitarfélaginu. Rúmlega 40 bú hafa fleiri en 200 kindur og í sveitarfélaginu eru nokkur af stærstu fjárbúum landsins.
Stærstu vinnuveitendur í Dalabyggð eru Auðarskóli (sameinaður grunn-, leik- og tónlistarskóli), dvalarheimilin Silfurtún og Fellsendi, Mjólkursamsalan í Búðardal og sveitarfélagið sjálft.
Opinber þjónusta er mikilvæg uppspretta atvinnu, má þar nefna Vegagerðina, RARIK, Heilsugæsluna í Búðardal og Póstinn sem öll eru mikilvæg forsenda þjónustustigs í Dalabyggð. Óhætt er að segja að lítil fyrirtæki og einyrkjar séu það form atvinnurekstrar sem er ráðandi meðal fyrirtækja í einkaeigu, flest á sviði landbúnaðar, en ferðaþjónusta kemur þar fast á eftir, oft rekin í samfloti við landbúnaðarstarfsemi. Nokkur verktakafyrirtæki og þjónustufyrirtæki eru í sveitarfélaginu, öll með minna en 10 starfsmenn.
Verkefnisstjóri: Linda Guðmundsdóttir (linda@ssv.is)
Í verkefnisstjórn eru: Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri, fulltrúi Dalabyggðar, Páll S. Brynjarsson og Ólafur Sveinsson fulltrúar SSV, Bjarnheiður Jóhannsdóttir og Jón Egill Jóhannsson fulltrúar íbúa og Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir fulltrúar Byggðastofnunar.
Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:
Verkefnisáætlun DalaAuðs uppfærð 2023
Stöðugreining, Dalabyggð, útg. í desember 2022
Heildaryfirlit styrkja - DalaAuður
Verkefnisáætlun DalaAuðs ágúst 2022
Skilaboð íbúaþings í Dalabyggð mars 2022
Mynd: Búðardalur í vetrarbúningi / Kristján Þ. Halldórsson.
Uppfært 3. maí 2024.