Starfsreglur stjórnar Byggðarannsóknasjóðs
1. Inngangur
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stofnaði Byggðarannsóknasjóð árið 2014. Endurskoðaðar reglur fyrir sjóðinn voru staðfestar af ráðherra þann 6. nóvember 2020 og var þriggja manna stjórn og þriggja manna varastjórn skipuð í desember sama ár. Byggðastofnun fer með umsýslu sjóðsins.
2. Markmið
Byggðarannsóknasjóður hefur það að markmiði að veita styrki til rannsókna- og þróunarverkefna sem stuðlað geta að jákvæðri byggðaþróun og bætt þekkingargrunn sem nýtist við stefnumótun, áætlanagerð og aðgerðir á sviði byggðamála. Styrkir eru veittir til verkefna sem hafa skírskotun í framangreinda þætti byggðamála. Jafnframt er stjórn sjóðsins heimilt að setja fram sérstakar áherslur hverju sinni til viðbótar við almennt yfirlýst markmið sjóðsins.
3. Auglýsingar
Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum í Byggðarannsóknasjóð einu sinni á ári. Umsækjendur hafa að jafnaði mánuð, frá birtingu auglýsingar, til að skila umsóknum. Í auglýsingu skal meðal annars tilgreina hvaða kröfur eru gerðar til umsókna og viðmið um mat þeirra.
4. Umsóknir
Umsóknum skal skilað til Byggðastofnunar á þar til gerðum rafrænum eyðublöðum. Í umsóknum skal koma fram greinargóð lýsing á rannsókninni, markmiðum hennar, ávinningi, nýnæmi og hvernig hún styður við tilgang sjóðsins. Þá skal fylgja verk- og tímaáætlun, fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðra fjármögnun. Staðfesting frá samstarfsaðilum, ef um er að ræða, þurfa að fylgja umsókn. Ef rannsóknin hefur alþjóðlega skírskotun skal það koma fram. Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnanir eða aðrir lögaðilar.
Stjórn sjóðsins er heimilt að kalla eftir nánari upplýsingum og gögnum frá umsækjendum eftir því sem þurfa þykir. Stjórn sjóðsins er jafnframt heimilt að bera umsóknir undir sérfræðinga á því sviði sem sótt er um. Stjórninni er heimilt að hafna öllum umsóknum, ef verkefni sem sótt er um styrk fyrir, falla ekki innan markmiða sjóðsins eða uppfylli að öðru leyti ekki þær kröfur sem gerðar eru til verkefna.
5. Mat umsókna
Við mat á umsóknum er litið til eftirfarandi þátta:
- hvernig rannsóknar- eða þróunarverkefnið styður við markmið sjóðsins og mögulegar sérstakar áherslur sem tilgreindar eru í auglýsingu hverju sinni,
- vísindalegs gildis,
- hagnýts gildis,
- rannsóknavirkni og hæfni þeirra sem sækja um og aðstöðu þeirra til að sinna rannsókninni,
- hversu líklegt er að verkefnið skili mælanlegum árangri og ávinningi,
- samstarfs við aðra, bæði innlenda og erlenda aðila,
- verk- og kostnaðaráætlunar,
- skýrleika umsóknar.
6. Greiðsla styrkja
Byggðastofnun gerir skriflegan samning við hvern styrkþega. Við undirritun er 30% samningsupphæðar greidd út og síðan eftir framvindu verkefna á grundvelli verkáætlunar og áfangaskýrslna. Lokagreiðsla, 20% af heildarstyrknum, er greidd út þegar lokaskýrsla liggur fyrir. Heimilt er að krefjast endurgreiðslu útgreiddra styrkja eða styrkhluta, verði verulegur, óútskýrður dráttur á framvindu- eða lokaskýrslum verkefna.
Nýti styrkþegi ekki úthlutaðan styrk innan árs frá úthlutun, fellur styrkurinn niður. Stjórn hefur heimild til þess að veita frest til greiðslu styrks vegna sérstakra aðstæðna, til næsta árs á eftir úthlutun, enda hafi borist formleg og rökstudd beiðni þess efnis frá styrkþega.
Byggðastofnun fer með eftirlit með framvindu verkefna og skýrsluskilum.
7. Ýmis atriði
Niðurstöður rannsókna sem kostaðar eru með styrkjum úr Byggðarannsóknasjóði skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar, nema um annað sé samið.
Um aðgang aðila að gögnum sjóðsins sem varða mál þeirra gilda eftir því sem við á ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012, með síðari breytingum. Um aðgang að upplýsingum um styrki og önnur gögn úr sjóðnum fer að öðru leyti eftir upplýsingalögum nr. 140/2012, með síðari breytingum.
Fulltrúar í stjórn sjóðsins skulu gæta að hæfisreglum við ákvarðanatöku og víkja sæti ef fyrirliggjandi aðstæður eru til þess fallnar að draga úr trú á óhlutdrægni við val á verkefnum. Ef viðkomandi er vanhæfur, ber honum að víkja af fundi og skráist það í fundargerð. Ekki nægir að viðkomandi sitji hjá við atkvæðagreiðslu um mál sem hann er vanhæfur í. Við mat á vanhæfi skal hafa til hliðsjónar ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Þannig samþykkt af stjórn Byggðarannsóknasjóðs 12. febrúar 2021.