Borgarfjörður eystri
Betri Borgarfjörður
Borgarfjörður eystri hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir árið 2018 undir heitinu Betri Borgarfjörður. Byggðastofnun dró sig í hlé út úr verkefninu í lok árs 2021 en áfram verður unnið að markmiðum þess.
Braghent vísa um Betri Borgarfjörð
Af Byggðastofnun byggð var okkar brothætt talin.
Gerum öðrum byggðum betri
Borgarfjörð á sumri og vetri.
Höf: Philip Vogler
Braghent vísa um framtíðarsýn Borgarfjarðar
Blómlega hér byggð ég sé og börn að leika,
um bundið slitlag bíla aka,
Borgarfjörð þar fuglar kvaka.
Höf: Philip Vogler
Um byggðarlagið:
Borgarfjörður eystri er nyrstur hinna eiginlegu Austfjarða. Þangað er tæplega 70 km. akstur frá Egilsstöðum, um Vatnsskarð og Njarðvíkurskriður. Borgarfjörður eystri er rómaður fyrir náttúrufegurð og þá sérstaklega fyrir sérstæðan fjallahring. Sunnan fjarðar er ljóst líparít allsráðandi eins og í Staðarfjalli, en fyrir botni fjarðarins og norðan hans er blágrýti (basalt) mest áberandi og þá einkum í Dyrfjöllum. Inn af firðinum gengur um 10 km langur dalur, vel gróinn og nokkuð breiður. Eftir honum rennur Fjarðará. Þorpið Bakkagerði stendur við fjarðarbotninn.
Atvinnulíf á Borgarfirði hefur í gegnum árin fyrst og fremst einkennst af sauðfjárbúskap, smábátaútgerð og fiskvinnslu og svo er enn. Alls eru u.þ.b. níu býli í byggð í sveitinni og sauðfé á þriðja þúsund. Fjallalömbum sínum beita Borgfirðingar innanfjarðar og á Víknasvæðið og afréttarland er nóg. Eins og annars staðar á landinu hefur sauðfjárbúskapur dregist saman í Borgarfirði á síðustu áratugum. Þar á líka hlut að máli riðuveikin, sem hefur reynst borgfirskum bændum mjög erfið. Allt fé í hreppnum var skorið niður árið 1987 og fjárlaust var í þrjú ár. Síðan þá hefur riða komið upp á tveimur bæjum og þar hefur verið skorið niður aftur.
Tíu til tólf smábátar af stærðinni 5 til 10 tonn eru gerðir út frá Borgarfirði. Mest er veitt á línu og handfæri og fiskurinn er unninn í salt í einu fiskverkun þorpsins, Fiskverkun Karls Sveinssonar. Þar vinna að jafnaði 8-10 manns, en í aflahrotum allt upp í 18. Nokkur hefð er fyrir harðfisk- og hákarlsverkun á staðnum og ennfremur veiða nokkrir bátar grásleppu í net á vorin. Nokkrir einstaklingar starfa við þjónustu og í iðnaði.
Þjónusta við ferðamenn hefur aukist mikið á síðustu árum en hún er ennþá aðeins bundin við sumarmánuðina. Fjallvegurinn yfir Vatnsskarð er opnaður sex sinnum í viku yfir vetrartímann ef þörf er á og póstbíll fer milli Egilsstaða og Borgarfjarðar fjórum sinnum í viku.
Skólastarf á Borgarfirði er blómlegt. Þar eru allir tíu bekkir grunnskólans, leikskóli og auk þess tónskóli. Grunnskólinn og tónskólinn eru staðsettir hjá félagsheimili Borgfirðinga, Fjarðarborg. Þar er rekin veitingasala og gisting á sumrin, auk þess sem þar eru haldnir líflegar skemmtanir og dansleikir yfir allt sumarið hjá Já Sæll ehf í Fjarðarborg.
Líkt og aðrir smærri staðir á landsbyggðinni stendur Borgarfjörður eystri í harðri baráttu fyrir tilveru sinni í hinum harða heimi nútímans. Við upphaf verkefnisins hafði fólki fækkað allört árin á undan og þá sérstaklega ungu fólki. Nefna mætti margar ástæður fólksfækkunar svo sem breyttar kröfur almennings um þjónustu, samdrátt í landbúnaði og samdrátt í veiðum smábáta. Á lokaspretti verkefnisins ber svo við að íbúum hefur fjölgað á ný og Borgarfjörður eystri er gott dæmi um byggðarlag þar sem heimamönnum hefur tekist að snúa vörn í sókn með samstilltu átaki.
Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki í öllum þátttökubyggðalögum hér. Hér fyrir neðan má skoða yfirlit styrkja í Betri Borgarfjörður í PDF skjali.
Verkefnisstjóri: Alda Marín Kristinsdóttir (aldamarin@austurbru.is)
Í verkefnisstjórn eru: Jón Þórðarson fulltrúi sveitarstjóra, Stefán Bogi Sveinsson hjá SSA, Signý Ormarsdóttir hjá Austurbrú, Elísabet Sveinsdóttir og Óttar Kárason f.h. íbúa og loks Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir frá Byggðastofnun.
Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:
Borgarfjörður eystri - Skilaboð íbúaþings, febrúar 2018
Borgarfjörður eystri - Markmið og framtíðarsýn, október 2018
Betri Borgarfjöður - ársskýrsla 2018
Betri Borgafjörður - ársskýrsla 2019
Betri Borgarfjörður - ársskýrsla 2020
Betri Borgarfjörður - ársskýrsla 2021
Bjartsýni og dugnaður á Borgarfirði eystri - frétt mars 2021
Heildaryfirlit styrkja - Betri Borgarfjörður
Mynd: Frá Borgarfirði eystri, þorpið Bakkagerði og Staðarfjall í bakgrunni / Kristján Þ. Halldórsson.
Uppfært 01.11.2022.
Upplýsingar um Borgarfjörð eystri fengnar á heimasíðu Borgarfjarðar www.borgarfjordureystri.is