Byggðaáætlun 2018-2024
Ráðherra sjávarútvegs, landbúnaðar og byggðamála fól Byggðastofnun með bréfi dags. 9. mars sl. að hefja vinnu við mótun stefnumótandi byggðaáætlunar 2017-2023. Stefnt er að því að ráðherra leggi þingsályktunartillögu fyrir Alþingi síðla árs.
Áætlunin verður unnin samkvæmt nýjum lögum nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Helstu breytingar frá þeim lagaákvæðum sem giltu eru að áætlunin mun ná til sjö ára í stað fjögurra ára áður, hún á að ná til landsins alls og hana á Byggðastofnun að vinna í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Hlutverk stýrihópsins samkvæmt þessum nýju lögum er að efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins í byggðamálum og tryggja um þau mál virkt samráð við sveitarstjórnarstigið. Stýrihópurinn vinnur með sóknaráætlanir landshluta í ljósi áætlana ráðuneyta og í honum sitja fulltrúar allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá er í lögunum áhersla á að byggðaáætlun verði mótuð í samráði við sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra og á samhengi sóknaráætlana landshlutanna og byggðaáætlunar.
Samráðsfundir í ráðuneytum og samráðsvettvöngum landshlutanna hafa staðið á vormánuðum og stefnt er að endurtekningu á haustmánuðum. Þá er ætlunin að rækta samráðið með netsamskiptum hér á heimasíðu Byggðastofnunar. Hér má nálgast gögn sem tengjast mótun byggðaáætlunar, lög, eldri byggðaáætlanir, stöðugreiningar og upplýsingar um mótun nýju áætlunarinnar, starfsnefndir, starfshætti og nátengdar áætlanir ríkisins og sóknaráætlanir landshlutanna. Hér má líka koma á framfæri tillögum í byggðaáætlunina og sjónarmiðum til þeirra sem að henni starfa.
Stefnumótandi Byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 var samþykkt á Alþingi 11. júní 2018 og má nálgast hér.
Ensk útgáfa: Parliamentary Resolution on a strategic regional plan for the period 2018-2024