Landstólpinn
„Landstólpinn - Samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar“ er árleg viðurkenning sem Byggðastofnun veitir á ársfundi sínum og var það gert í fyrsta sinn á ársfundi 2011. Þá hlaut Jón Jónsson þjóðfræðingur á Ströndum Landstólpann. Það er von að viðurkenning sem þessi gefi jákvæða mynd af landsbyggðinni og af starfi stofnunarinnar. Viðurkenningin er hvatning og einskonar bjartsýnisverðlaun, því hugmynd að baki er að efla skapandi hugsun og bjartsýni.
Nokkur svipuð verkefni eru í gangi og sum hver hafa fastan sess. Flest þeirra einskorðast við ákveðin málaflokk eða þátttakendur. Samfélagsviðurkenningin Landstólpinn er hins vegar þvert á málaflokka sem veita má einstaklingi, fyrirtæki eða hópi/verkefni á vegum fyrirtækis eða einstaklinga.
Um er að ræða eitthvert tiltekið verkefni eða starfsemi, umfjöllun eða annað sem vakið hefur athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.
Við ákvörðun um hver hljóti Landstólpann hverju sinni er m.a. eftirfarandi haft til hliðsjóðnar:
- hvort viðkomandi hafi gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni eða viðkomandi svæði
- hvort viðkomandi hafi aukið virkni íbúa eða fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu
- hvort viðkomandi hafi aukið samstöðu og jákvæðni íbúa
- hvort viðkomandi hafi dregið að gesti með verkefni eða umfjöllun sinni
Ekki er nauðsynlegt að öllum þessum atriðum sé fylgt eftir, heldur séu þau höfð til hliðsjónar.
Viðurkenningunni fylgir skjal og listmunur hannaður af lista- eða handverksfólki.
Landstólpinn hefur verið veittur árlega síðan árið 2011 og er afhentur í tengslum við ársfund stofnunarinnar. Handhafar Landstólpans eru:
2024 | Enskumælandi ráð Mýrdalshrepps |
2023 | Elín S. Sigurðardóttir og Jóhannes Torfason frá Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu |
2022 | María Pálsdóttir, eigandi að Hælinu, setri um sögu berklanna, sem staðsett er að Kristnesi í Eyjafjarðarsveit |
2021 | Hákon Hansson dýralæknir á Breiðdalsvík |
2019 | Blábankinn á Þingeyri |
2018 | Rósa Valtingojer, Una Sigurðardóttir og Vincent Wood í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði |
2017 | Hörður Davíðsson athafnarmaður í Efri-Vík í Skaftárhreppi |
2016 | Sönghópurinn Álftagerðisbræður ásamt stjórnanda sínum Stefáni R. Gíslasyni |
2015 | Vilborg Arnarsdóttir frá Súðavík |
2014 | Fyrirtækið Norðursigling á Húsavík |
2013 | Þórður Tómasson safnvörður á Skógum |
2012 | Örlygur Kristfinnsson frumkvöðull á Siglufirði |
2011 | Jón Jónsson þjóðfræðingur og menningarfulltrúi á Ströndum |
Uppfært 18.04.2024