Aðferðafræði
Aðferðafræði
1. Grunnur
Fyrsta skrefið er að greina hættuna og kanna viðleitni til aðlögunar hjá sveitarfélaginu. Gott er að kanna hvaða upplýsingar eru til hjá sveitarfélaginu og/eða viðeigandi stofnunum. Hægt er að styrkja gögnin með almennum upplýsingum um stöðu svæðisins gagnvart loftslagsbreytingum, í framtíðinni verður hægt að gera það með loftslagsatlas Veðurstofu Íslands. Einnig ætti að athuga hvernig pólitíkin horfir á vandann og skoða stefnur og áætlanir sveitarfélagsins.
2. Hagaðilar
Næsta skref er að skilgreina hagaðila, verkefnin geta verið stór og flókin og innan þeirra getur verið talsverð óvissa. Því er mikilvægt að fá breiðan hóp hagaðila að borðinu strax í upphafi verkefnisins. Það er æskilegt að eiga mikið samtal og samstarf við marga aðila þegar kemur að vinnu við aðlögunaraðgerðir. Hér að neðan er mynd sem sýnir helstu hópa hagaðila sem þurfa að koma að gerð aðlögunaráætlunar.
3. Samstarf við hagaðila
Það eru til ýmsar leiðir til að eiga gott samtal og virkja hagaðila hópinn. Í verkefninu Aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga hefur reynst vel að boða hagaðila á vinnustofur. Þar deilir fólk þekkingu sinni með hvert öðru sem er svo safnað saman og nýtt í áframhaldandi vinnu. Þessi staðarþekking er lykil viðbót fyrir gagnavinnu verkefnisins og mjög mikilvægt skref í átt að farsælli aðlögunarstefnu með breiðri sátt í sveitarfélaginu. Aðrar leiðir til að sækja slíka þekkingu gæti t.d. verið með könnun innan sveitarfélagsins eða boða til opins fundar.
4. RAST tólið
Þegar þessi staðarþekking er komin þá er hægt að byrja fylla inn í RAST tólið (Regional Adaptation Support Tool) til að greina betur stöðu sveitarfélagsins gagnvart loftslagstengdum náttúruvám. Tólið tekur mið af ákveðnum atriðum hjá sveitarfélaginu m.t.t. þeirra náttúruvár sem er verið að skoða. Hér fyrir neðan er sýnidæmi úr slíku mati frá Höfn í Hornafirði þar sem voru skoðuð áhrif á líf og heilsu (þáttur) íbúa (viðtakendur) m.t.t. vatnsflóða (náttúruvá). Útbúin voru viðmið fyrir tjónnæmi og aðlögunargetu og sveitarfélagið mat sína stöðu út frá þeim upplýsingum sem hafði verið safnað úr vinnustofunum. Mat fyrir tjónnæmi og aðlögunargetu er svo tekið saman til að fá út viðkvæmnimat. Í þessu dæmi kemur í ljós að gildi fyrir tjónnæmi hjá Hornafirði er 3 og gildi fyrir aðlögunargetu er 2, Hornafjörður fær því einkunina 4 í viðkvæmni gagnvart vánni og talið að mestu leyti varnarlaust og útsett gagnvart vánni (sjá sýnidæmi að neðan).
5. Aðgerðabanki og aðlögunaráætlun sveitarfélags
Þegar niðurstaðan úr viðkvæmnimatinu er orðin ljós og það er komin góð hugmynd um á hvaða sviðum er hægt að bæta stöðuna, þá ætti að byrja á að skoða aðgerðabanka verkefnisins og sjá hvort að einhverjar aðgerðir þar passi við áskoranirnar sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir. Mælt er með að taka saman 5-10 aðgerðir fyrir hvern þátt sem sveitarfélagið er að skoða. Þegar búið er að greina aðgerðir ætti að fara yfir þær með hagaðilum og fá þá til að sammælast um aðgerð til að vinna nánar. Hagaðilar skilgreina aðgerðina gróflega með því t.d. að skrifa upp markmið, nauðsynleg skref og grófa tímaáætlun fyrir aðgerðina. Ábyrgðaraðilar hjá sveitarfélaginu sjá svo um að fínpússa atriði aðgerðarinnar og geta fengið aðstoð við það frá sérfræðingum verkefnisins. Þegar aðgerðin er tilbúin fer hún fyrir sveitastjórn þar sem hún er annað hvort samþykkt og verður þá hluti af aðlögunaráætlun sveitarfélagsins eða henni er hafnað og fer þá í endurskoðunarferli.