Atvinnuráðgjöf
Í lögum um Byggðastofnun er kveðið á um að stofnunin skipuleggi og vinni að ráðgjöf við atvinnuvegi á landsbyggðinni í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin skal gera samninga við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði. Í því skyni hefur Byggðastofnun gert samninga við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga sem öll tengjast atvinnuþróunarfélögum þó rekstur þeirra og starfsemi sé mismunandi:
Alþingi ákveður á fjárlögum ákveðið fjármagn til styrktar rekstri atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Byggðastofnun skiptir fjármagninu milli félaganna og greiðir það samkvæmt samningi við hvert félag, þar sem tilgreind eru þau verkefni, sem félagið tekur að sér. Meðal helstu verkefna má nefna atvinnu- og byggðaþróun, sem felur í sér mótun samræmdrar stefnu varðandi atvinnu- og byggðaþróun á starfssvæði félagsins í samvinnu við sveitarfélög, fulltrúa atvinnulífsins og aðra hagsmunaaðila.
Landshlutasamtökin veita ráðgjöf við stofnun og rekstur fyrirtækja á starfssvæðinu, svo sem markaðssókn, vöruþróun, fjármögnun, kynningu, endurskipulagningu, erlend samskipti o.fl. Áhersla skal að jafnaði lögð á nýstofnuð fyrirtæki, fyrirtæki í nýjum atvinnugreinum og fyrirtæki sem hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf lítilla byggðarlaga. Félögin veita upplýsingar um mögulega fyrirgreiðslu og aðstoð annarra aðila og leita samstarfs við stofnanir í stoðkerfi atvinnulífs, fyrirtæki og aðra aðila sem vinna ráðgjafar- og leiðbeiningarstarf í atvinnumálum. Landshlutasamtökin vinna í samstarfi við sveitarfélög, opinbera aðila og félagasamtök að eflingu búsetuþátta, sem m.a. snúa að samgöngum, verslun og þjónustu, húsnæðismálum, félagslegu umhverfi, menntunar- og menningarmálum.