Fara í efni  

Olíuvörur

Byggðastofnun sér um úthlutun styrkja vegna jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara til söluaðila sem starfrækja sölustaði á svæðum sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra og lýðfræðilegra aðstæðna, skv. ákvæðum laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011.

Byggðastofnun skal auglýsa fyrirhugaða styrkveitingu í upphafi árs og fyrirhugaða heildarfjárhæð styrkveitingar. Umsóknum um styrk vegna jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara skal skila til Byggðastofnunar fyrir 31. mars ár hvert vegna næsta almanaksárs á undan. Um lögbundinn frest er að ræða og ekki hægt að taka við umsóknum sem að berast seinna. Umsóknir berist á netfangið kristofer[hja]byggdastofnun.is.

Styrkir eru veittir vegna olíuvara, ásamt tilheyrandi íblöndunarefnum, sem skiptast í eftirfarandi flokka:

Flokkur 1, bensín: Olíuvörur sem eru ætlaðar til notkunar sem eldsneyti fyrir vélknúin ökutæki.
Flokkur 2, gasolía: Gasolía sem er ætluð til notkunar fyrir vélknúin ökutæki, iðnað, til húshitunar og þess háttar.
Flokkur 3, gasolíutegundir fyrir skip og báta: Gasolíutegundir sem eru ætlaðar fyrir skip og báta.

Þrátt fyrir að eftirfarandi olíuvörur kunni að falla í ofangreinda flokka, eru þær ekki styrkhæfar:

  1. Olíuvörur sem eru ætlaðar til útflutnings, svo sem til millilandasiglinga og erlendra skipa.
  2. Olíuvörur sem ætlaðar eru flugvélum, svo sem flugvélabensín og flugvélaeldsneyti.

Sölustaður olíuvara er sá staður þar sem afhending olíuvara fer fram með varanlegum hætti, svo sem af bensín- eða olíudælu sem ekki er færanleg. Heimilt er að veita styrki þegar afhending olíuvara fer fram með færanlegum hætti, svo sem af bifreið, skipi eða tanki. Skal þá miða við byggðastuðul þess sölustaðar sem er næstur afhendingarstað.

Úthlutun styrkja skal ákvörðuð í samræmi við þá heildarfjárhæð sem fyrirhugað er að veita til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara í fjárlögum ár hvert, að undanskildu fjármagni vegna umsýslukostnaðar Byggðastofnunar, selt magn olíuvara í hverjum flokki á viðkomandi sölustað og byggðastuðul svæðis þar sem sölustaður er staðsettur. Veita skal 30% af þeirri fjárhæð sem fyrirhugað er að úthluta til flutningsjöfnunarstyrkja ár hvert í flokk 3, 45% í flokk 2 og 25% í flokk 1.

Reikna skal fyrir hvern sölustað hlutfallstölu sem ákvarðar hversu hátt hlutfall af heildarstyrk í viðkomandi flokki verði úthlutað vegna sölu olíuvara á tilteknum sölustað. Talan ræðst af hlutfalli af seldu magni olíuvara sölustaðar í viðkomandi flokki, af því heildarmagni olíuvara sem sótt er um fyrir í sama flokki og að teknu tilliti til vægis byggðastuðuls sölustaðarins.

Byggðastuðlar skv. 2. mgr. 7. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun eru svohljóðandi:

  1. Byggðastuðullinn 0: Ekki skal veita styrki vegna sölu olíuvara á svæðum sem eru innan við 3 km frá þjóðvegi 1 eða í þéttbýliskjarna með fleiri en 2.000 íbúa. Þá skal ekki veita styrki vegna sölu olíuvara innan allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi eða frá og með sveitarfélögunum Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppi og Borgarbyggð í vestri til og með sveitarfélaginu Skaftárhreppi í austri.
  2. Byggðastuðullinn 0,5: Sala olíuvara innan byggðarlaganna eða sveitarfélaganna Fáskrúðsfjörður, Eskifjörður, Norðfjörður, Reyðarfjörður, Seyðisfjörður, Hvammstangi, Fjallabyggð, Dalvík, Höfn í Hornafirði, Stykkishólmur, Snæfellsbær og Grundarfjörður hefur byggðastuðulinn 0,5.
  3. Byggðastuðullinn 1: Sala olíuvara innan svæða sem ekki er getið um í a, b, og d. lið ákvæðisins og eru í meira en 3 km fjarlægð frá þjóðvegi 1 og/eða í þéttbýliskjarna þar sem búa færri en 2.000 íbúar, auk sala olíuvara innan byggðarlagsins Djúpavogs, hefur byggðastuðulinn 1.
  4. Byggðastuðullinn 1,5: Sala olíuvara innan byggðarlaganna eða sveitarfélaganna Breiðdalsvík, Stöðvarfjörður, Borgarfjörður eystri, Vopnafjarðarhreppur, Langanesbyggð, Norðurþing austan Tjörness, Grímsey, Hrísey, Strandabyggð, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur, Dýrafjörður og Tálknafjarðarhreppur hefur byggðastuðulinn 1,5.

Einn sölustaður getur ekki fengið hærri flutningsjöfnunarstyrk en sem nemur 10% af heildarfjárhæð fyrirhugaðrar styrkveitingar í tilteknum viðmiðunarflokki olíuvara. Sú umfram fjárhæð sem hefði komið til úthlutunar til þeirra sölustaða sem hafa fengið 10% af heildarfjárhæð styrkveitinga, kemur aftur til úthlutunar til annarra sölustaða nema ekki skal telja með sölustaði sem þegar hafa fengið hámarksúthlutun. Ef einn sölustaður reiknast með samtals hærra en 10% af heildarstyrk í seinni úthlutun, skal aftur koma til endurúthlutunar þeirra fjármuna sem eru eftirstæðir. Endurtaka skal úthlutanir vegna fjármuna sem reiknast hærra hlutfall en 10% af heildarstyrk á tiltekinn sölustað eða sölustaði, þangað til enginn sölustaður fær meira en 10% af heildarúthlutun styrks.

Umsóknir um flutningsjöfnunarstyrki skulu berast með útfyllingu á umsóknarskjali sem Byggðastofnun leggur fram. Í umsókninni skulu vera nafn, kennitala og lögheimili söluaðila auk upplýsinga um selt magn af hverjum flokki olíuvara á þeim sölustað sem sótt er um, sem nauðsynlegar eru til að ákvarða upphæð styrks. Þá skal einnig berast staðfesting á að umsækjandi skuldi ekki skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi og að umsækjandi hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á næstliðnum fimm árum frá dagsetningu umsóknar. Byggðastofnun leggur mat á umsóknir og getur kallað eftir gögnum umfram þeirra sem hér er getið um og eru nauðsynleg til að reikna út og staðfesta styrkveitingu.

Að öðru leyti fer úthlutun fram samkvæmt lögum nr. 160/2011 og reglugerð nr. 890/2021.

Fyrirspurnir berist á netfangið kristofer[hja]byggdastofnun.is.

 

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389