Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög
Verkefnið Aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga er verkefni C.10 á byggðaáætlun. Fimm íslensk sveitarfélög taka þátt í verkefninu sem er tímabundið tilraunaverkefni til tveggja ára. Markmið þess er að búa til aðgengilegan leiðarvísi fyrir íslensk sveitarfélög til mótunar aðlögunaraðgerða og áætlana til þess að mæta áhrif loftslagsbreytinga. Verkefnið er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og eru framkvæmdaraðilar Byggðastofnun, skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands og Skipulagsstofnun.
Nánar um verkefnið úr byggðaáætlun:
C.10. Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög.
– Markmið: Að heildræn nálgun á aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga verði mótuð.
– Stutt lýsing: Stigin verði fyrstu skrefin í mótun heildrænnar nálgunar á aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga í byggðum landsins. Tilviksrannsóknir verði framkvæmdar í litlum hópi ólíkra sveitarfélaga, t.d. hvað varðar fjarlægð frá sjó, þéttbýli, landslag, gróðurlendi og atvinnustarfsemi, með það að markmiði að þróa aðferðafræði sem nýtast muni á seinni stigum sem leiðarvísir fyrir íslensk sveitarfélög til frekari greininga á áhættu, tjónnæmi og aðlögunarþörf, sem og við uppsetningu aðlögunaráætlana. Horft verði til sambærilegra áhættugreininga erlendis frá, sér í lagi þeirra sem sveitarfélög hérlendis hafa tekið þátt í. Niðurstöðurnar verði einnig nýttar í norrænt samstarfsverkefni um aðlögun smærri samfélaga á norðurslóðum.
– Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
– Framkvæmdaraðili: Veðurstofa Íslands, Skipulagsstofnun og Byggðastofnun.
– Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, landshlutasamtök, ráðuneyti, stofnanir, háskólar og norræna ráðherranefndin.
– Tímabil: 2022–2024.
– Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum, landsskipulagsstefna, aðlögunaráætlun (í vinnslu, mars 2022).
– Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 13.1–13.3.
– Tillaga að fjármögnun: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.