Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög
Verkefnið Aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga er aðgerð C.10. Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög í byggðaáætlun. Fimm íslensk sveitarfélög taka þátt í verkefninu sem er tímabundið tilraunaverkefni til tveggja ára. Samtalið um aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga hófst formlega 2022 og er stefnt á að verkefninu ljúki 2025. Verkefnið er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og eru framkvæmdaraðilar Byggðastofnun, skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands og Skipulagsstofnun.
Sveitarfélögin fimm sem taka þátt í verkefninu eru Akureyrarbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Fjallabyggð, Reykhólahreppur og Reykjanesbær. Þau voru valin með það fyrir augum að verkefnið myndi spanna sem fjölbreyttastan hóp íslenskra sveitarfélaga, m.t.t. stærðar, íbúafjölda, staðsetningar, lykilatvinnugreina og loftslagstengdra áskorana.
Markmið verkefnisins er að búa til leiðarvísi og móta heildstæða nálgun fyrir íslensk sveitarfélög fyrir aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga. Í samvinnu við þátttökusveitarfélögin fimm verður leitast við að þróa og sannreyna aðferðafræði til mótunar aðlögunaraðgerða og aðlögunaráætlana sem nýst getur öðrum íslenskum sveitarfélögum í framhaldinu.
Fyrsta skref verkefnisins með sveitarfélögunum og hagaðilum var að halda vinnustofur til að leggja grunn að samstarfinu og taka fyrstu skref í áhættuskimun. Áhætta var rædd og metin m.a. út frá sögu og fyrri náttúrvár atburðum, rýnt í framtíðarsviðsmyndir og mat lagt á hver áhrif gætu orðið m.t.t. áframhaldandi breytinga í loftslagi sem geta aukið áhrif náttúruvár. Vinnustofurnar voru vel sóttar og fengu þátttakendur tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Út frá niðurstöðum vinnustofanna var unnið áfram með tengiliðum sveitarfélaganna til að fá dýpri skilning á tjónnæmi og aðlögunargetu sveitarfélagsins til að bregðast við eða aðlagast vánni. Ákveðið var að staðfæra aðferðafræði að íslenskum aðstæðum sem upphaflega var þróuð fyrir sveitarfélög í Evrópu og kallast RAST (Regional Adaptation Support Tool). Aðferðafræðin byggir á verkfæri sem tekur mið af ákveðnum atriðum hjá sveitarfélaginu m.t.t. þeirrar náttúruvár sem verið er að skoða. RAST nýtist sveitarfélögum til að greina tjónnæmi samhliða aðlögunargetu út frá tölulegum skala frá 1-5, annars vegar fyrir tjónnæmi og hins vegar aðlögunargetu. Útkoman er mat á viðkvæmni sveitarfélagsins gagnvart loftslagstengdu náttúruvánni.
Þátttökusveitarfélögin fimm hafa öll unnið viðkvæmnimat með RAST verkfærinu og greint nánar stöðu sína gagnvart mismunandi náttúruvám. Niðurstöðurnar ná yfir möguleg áhrif þeirra náttúruváa sem líklegar eru til að valda mestum skaða eða erfiðleikum fyrir sveitarfélagið.
Fyrir hvert sveitarfélag voru í framhaldinu skilgreindar 20-30 aðgerðir fyrir hverja loftslagstengda náttúruvá sem var metin. Aðgerðunum var skipt upp í þrjá flokka: græn, mild og grá.
Í seinni vinnustofum sveitarfélaganna voru tekin traust skref í átt að aðlögun að loftslagsbreytingum. Þar var grunnur lagður að aðlögunarpakka sem samanstendur af sérsniðnum aðlögunaraðgerðum sem voru útfærðar nánar af þátttakendum vinnustofanna og byggja á ofangreindu RAST mati. Niðurstöður hverrar vinnustofu skiluðu 9-12 aðgerðum fyrri hvert sveitarfélag sem hafa verið mótaðar nánar með tengiliðum sveitarfélaganna.
Næstu skref:
- Vinna lokaskýrslur til allra þátttökusveitarfélaganna.
- Rýnifundir með sérfræðingum frá Umhverfisstofnun Evrópu.
- Leiðarvísir er í vinnslu í nánu samstarfi við Veðurstofu Íslands og Umhverfisráðuneytið.
- Aðkoma að mótun aðlögunaráætlunar um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum.
Vonir standa til að áætlanirnar verði grunnur að frekara samtali og ákvarðanatöku innan sveitarfélaganna um framkvæmd nauðsynlegra aðlögunaraðgerða.