Fara í efni  

Verklagsreglur vegna úthlutunar styrkja til meistaranema

1. Inngangur
Stjórn Byggðastofnunar staðfesti á fundi sínum þann 15. desember 2023 áframhaldandi áform þess að veita árlega styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðaþróunar, allt að 1.000.000 kr. Styrkir til meistaranema hafa verið veittir frá árinu 2015. Styrkirnir koma af fjárveitingu byggðaáætlunar 2022-2036 og kostur er ef verkefni sem sótt er um styrk til hafa skírskotun til markmiða eða aðgerða byggðaáætlunar. Markmið styrkjanna eru í samræmi við markmið Byggðarannsóknasjóðs.

Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum meistaranema einu sinni á ári vegna styrkja til verkefna sem eru á fyrri stigum vinnslu eða í undirbúningi. Auglýst er að hausti vegna verkefna sem áætlað er að ljúka árið eftir. Miða skal við að síðasti skiladagur umsókna sé 1. nóvember.   

2. Umsóknir
Umsóknum skal skilað til Byggðastofnunar á þar til gerðum rafrænum eyðublöðum. Í umsókn skal koma fram greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og hvernig það tengist byggðaþróun og eftir atvikum styður við byggðaáætlun. Umsóknum skal skila á íslensku eða ensku.

Byggðastofnun er heimilt að kalla eftir nánari upplýsingum og gögnum frá umsækjendum eftir því sem þurfa þykir. Stjórn stofnunarinnar er heimilt að hafna öllum umsóknum sem ekki tengjast byggðaþróun eða uppfylla að öðru leyti ekki þær kröfur sem gerðar eru til verkefna.

Umsækjendur skulu leggja stund á meistaranám við viðurkenndan háskóla og þurfa að geta lagt fram staðfestingu á skólavist sé eftir því óskað.

3. Mat á umsóknum
Stjórn Byggðarannsóknasjóðs metur umsóknir og leggur fram tillögur að úthlutun fyrir stjórn Byggðastofnunar sem tekur ákvörðum um styrkveitingu.

Við mat á umsóknum er litið til eftirfarandi þátta:

  • tengsl verkefnis við markmið byggðaáætlunar
  • nýnæmi verkefnis
  • möguleikar á hagnýtingu
  • gæði umsóknar (skýr markmið, vönduð rannsóknaráætlun og hnitmiðaður texti).

Umsækjendur fá sendan tölvupóst þar sem greint er frá niðurstöðu úthlutunar og tilkynnt er um úthlutun á vef Byggðastofnunar.

4. Greiðsla styrkja
Stefnt er að því að veita allt að fjóra styrki. Byggðastofnun gerir skriflegan samning við hvern styrkþega. Helmingur styrksins verður greiddur út við undirritun samnings og helmingur þegar verkefni er lokið og Byggðastofnun hefur fengið eintak af því.

Áður en styrkur er greiddur út þurfa styrkþegar að leggja fram staðfestingu leiðbeinanda síns á verkefninu og að vinna við það sé hafin. Verkefnum skal að jafnaði vera lokið eigi síðar en ári eftir úthlutun. Nýti styrkþegi úthlutaðan styrk ekki innan árs frá úthlutun, fellur styrkurinn niður.

 

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389