Fréttir
Verksmiðjan á Hjalteyri er handhafi Eyrarrósarinnar 2016
Verksmiðjan á Hjalteyri er handhafi Eyrarrósarinnar 2016 en hún er árlega veitt framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Aðstandendur Verksmiðjunnar veittu viðurkenningunni móttöku við athöfn í Frystiklefanum á Rifi í gær.
Verksmiðjan á Hjalteyri er listamiðstöð með sýningarsali og gestavinnustofur í gamalli síldarverksmiðju Kveldúlfs við Eyjafjörð. Frá því að nokkrir frumkvöðlar og listamenn tóku sig saman og stofnuðu Verksmiðjuna árið 2008 hefur þar verið haldið úti framsæknu myndlistar- og menningarstarfi. Aðstandendur Verksmiðjunnar þykja vel að verðlaununum komnir, ekki síst fyrir þrautseigju, hugmyndaauðgi og útsjónarsemi við flókin rekstrarskilyrði, en starf Verksmiðjunnar hefur eflst mjög frá stofnun og tekið á sig óvæntar myndir. Í Verksmiðjunni þykir hafa tekist vel til með þá grundvallarhugmynd að listin sé ekki einungis til sýnis í Verksmiðjunni, heldur verði hún þar til og sé því mótuð af aðstæðum.
Verðlaunin sem Verksmiðjan hlýtur er fjárstyrkur að upphæð 1.650.000 auk flugmiða frá Flugfélagi Íslands. Forsvarsmenn alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskra vinda í Garði og Eldheima í Vestmannaeyjum, sem einnig voru tilnefnd, tóku hvort um sig við 300 þúsund króna fjárstyrk, auk flugmiða.
Til stóð að Dorrit Moussaieff forsetafrú afhenti verðlaunin, en hún hefur verið verndari Eyrarrósarinnar frá upphafi, eða í tólf ár. Hún forfallaðist vegna veikinda og því afhenti Þórunn Sigurðardóttir, stjórnarformaður Listahátíðar í Reykjavík, verðlaunin fyrir hönd forsetafrúarinnar. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Kristinn Jónasson, ávarpaði samkomuna og það gerði einnig Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. Einnig voru viðstaddir fulltrúar Byggðastofnunar, Flugfélags Íslands og Listahátíðar í Reykjavík, sem standa sameiginlega að viðurkenningunni, auk annarra góðra gesta.
Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, vakti í ávarpi sínu athygli á að þau menningarverkefni sem hlotið hafa Eyrarrósina í gegnum tíðina spanni öll svið lista. Hún hafi farið til tónlistarhátíða, bæði klassískra og rokkhátíða. Hún hafi farið til tímabundinna verkefna á borð við myndlistarhátíða en einnig til myndlistar- og sögusafna sem starfa allt árið um kring. Eins ólík og verkefnin sem hlotið hafa Eyrarrósina, eða tilnefningu til hennar, séu eigi þau margt sameiginlegt. Sum þeirra varðveiti ákveðna þætti sögu okkar og varpi ljósi á áhrif tiltekinna viðburða eða aðstæðna á líf okkar og lífssýn. Önnur geri okkur kleift að kynnast öðrum og ólíkum menningarheimum og viðfangsefnum í listum samtímans og hafi þannig ómetanleg áhrif á sjálfsmynd okkar og tengsl við umheiminn. Enn önnur verkefni taki leifar horfinna tíma og færi þeim nýtt hlutverk. Verkefnin þrjú, sem tilnefnd voru til Eyrarrósarinnar 2016, Verksmiðjan á Hjalteyri, Eldheimar í Vestmannaeyjum og listahátíðin Ferskir vindar í Garði, séu öll dæmi um einhvern þessara þátta.
Það var Gústav Geir Bollason, umsjónarmaður Verksmiðjunnar á Hjalteyri, sem veitti verðlaununum viðtöku. Hann tók við viðurkenningunni fyrir hönd stofnenda Verksmiðjunnar og sagðist hlakka til komandi starfsárs. Hann sagðist vonast til að verðlaunin ættu eftir að verða starfsemi Verskmiðjunnar til heilla.
Eyrarrósin var fyrst afhent árið 2005 og féll þá í hlut Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði. Líkt og gildir með Þjóðlagahátíðina hafa mörg þeirra menningarverkefna sem hlotið hafa Eyrarrósina vakið verðskuldaða athygli á undanförnum árum. Þeirra á meðal eru LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi, Rokkhátíð alþýðunnar – Aldrei fór ég suður og Bræðslan á Borgarfirði eystra. Sú hefð hefur skapast á undanförnum árum að verðlaunaafhendingin fari fram í höfuðstöðvum verðlaunahafa síðasta árs. Sami háttur var hafður á nú og því voru verðlaunin veitt í Frystiklefanum á Rifi.
Frekari upplýsingar um Verksmiðjuna á Hjalteyri veitir Gústav Geir Bollason í síma 461 1450 og 692 7450.
Mynd: Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, Herdís Sæmundardóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, Kristín Jóhannsdóttir, forstöðukona Eldheima, Mireya Samper, stjórnandi Ferskra vinda, Gústav Geir Bollason, einn af stofnendum Verksmiðjunnar, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings og Þórunn Sigurðardóttir, stjórnarformaður Listahátíðar í Reykjavík.
Fréttasafn
- 2025
- janúar
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember