Fara í efni  

Fréttir

Styrkir úr Byggðarannsóknasjóði 2023

Á ársfundi Byggðastofnunar, þann 27. apríl síðastliðinn, voru veittir fimm styrkir úr Byggðarannsóknasjóði. Byggðarannsóknasjóður hefur það að markmiði að veita styrki til rannsókna- og þróunarverkefna sem stuðlað geta að jákvæðri byggðaþróun og bætt þekkingargrunn sem nýtist við stefnumótun, áætlanagerð og aðgerðir á sviði byggðamála. Styrkirnir eru fjármagnaðir af fjárlagalið byggðaáætlunar og með framlagi frá Byggðastofnun. Til úthlutunar voru 10 m.kr. Auglýsing um styrki til byggðarannsókna var birt 24. janúar með umsóknafrest til 1. mars. Alls bárust 27 umsóknir.

Stjórn Byggðarannsóknasjóðs ákvað að styrkja eftirfarandi fimm verkefni:

  • Hvernig er hægt að auka jákvæðan byggðabrag með aðferðafræði félags- og samfélagssálfræði? Rannsókn á félagslegri sjálfsmynd íbúa í íslenskum sveitarfélögum. Styrkupphæð 2,5 m.kr. Styrkþegi er Háskólinn á Bifröst, Bjarki Þór Grönfeldt.
  • Ábyrg eyjaferðaþjónusta – sjálfbær uppbygging ferðaþjónustu á eyjum á norðurslóðum. Styrkupphæð 2,5 m.kr. Styrkþegi er Ferðamáladeild Háskólans á Hólum (FHH), Ingibjörg Sigurðardóttir og Laufey Haraldsdóttir. 
  • Líðan og seigla íslenskra bænda. Styrkupphæð 2,3 m.kr. Styrkþegi er RHA – Rannsóknamiðstöð HA, Bára Elísabet Dagsdóttir.
  • Félagsleg staða og ójöfnuður í heilsu. Styrkupphæð 1,3 m.kr. Styrkþegi er Sigrún Ólafsdóttir, HÍ.
  • Bolmagn íslenskra sveitarfélaga í skipulagsmálum. Styrkupphæð 1,4 m.kr. Styrkþegi er Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, HÍ.

Styrkþegum er óskað innilega til hamingju með styrkinn og send hvatning og heillaóskir í þá spennandi rannsóknarvinnu sem framundan er.

Stutt lýsing á hverju verkefni:

Hvernig er hægt að auka jákvæðan byggðabrag með aðferðafræði félags- og samfélagssálfræði? Rannsókn á félagslegri sjálfsmynd íbúa í íslenskum sveitarfélögum.

Markmið með verkefninu er að hanna aðgerðaáætlun, fyrir lítil og meðalstór samfélög sem búa við lágstemmdan byggðabrag, til að byggja hann upp og auka þar með lífsgæði íbúanna. Rannsóknin byggir á því að viss sveitarfélög búa yfir lágstemmdu sjálfsmati/byggðabrag, á meðan sambærileg samfélög hafa mun hástemmdara sjálfsmat/byggðabrag en oft er ekki augljóst hvað veldur því misræmi. Svigrúm virðist vera til að bæta lífskjör með því einu að breyta hugarfari fólks. Hér verður aðferðum sálfræðinnar beitt til að rannsaka jákvæðni og samheldni í völdum sveitarfélögum. Niðurstöður munu leggja grunninn að handbók fyrir sveitarfélög til að byggja upp jákvæðan byggðabrag.

Ábyrg eyjaferðaþjónusta – sjálfbær uppbygging ferðaþjónustu á eyjum á norðurslóðum.

Verkefnið snýst um sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustu á eyjum á norðurslóðum þar sem Grímsey og Hrísey eru í brennidepli. Rannsóknin fer fram sumarið 2023 og byggir á reynslu og þekkingu af rannsóknum í Grímsey 2022. Markmið með verkefninu er að kanna áhrif og eðli ferðaþjónustu og ferðamennsku á samfélag og náttúru eyjanna. Aflað verður raungagna frá ferðamönnum, íbúum og ferðaþjónustuaðilum í þeim tilgangi að skapa vísindalega og hagnýta þekkingu á sviði eyjafræða, ferða- og byggðamála. Ávinningur rannsóknarinnar er að auka þekkingu sem nýtist inn í stefnumótun, áætlanagerð og aðgerðir í atvinnumálum og skipulagsgerð. Einnig inn í gerð einstakra viðskiptaáætlana, í vöruþróun og nýsköpun. Nýnæmi verkefnisins er þekkingarsköpun, á sviði ferðamála, eyjafræða og byggðamála. Notuð verður ný aðferð við kortlagningu ferðahegðunar með GPS.

Líðan og seigla íslenskra bænda.

Í verkefninu Líðan og seigla íslenskra bænda verður netkönnun lögð fyrir íslenska bændur. Notaðir verða staðlaðir spurningalistar til þess að skoða líðan og seiglu. Niðurstöður sem meta þunglyndi, kvíða og streitu verða bornar saman við niðurstöður annarrar íslenskrar rannsóknar sem notar sömu spurningalista. Að auki verður spurt um áform bænda til flutninga og fyrirætlanir um að skipta um atvinnugrein á næstu árum. Seigla íslenskra bænda hefur ekki verið skoðuð sérstaklega áður og því mun rannsóknin bæta við nýrri þekkingu á því sviðið.

Niðurstöður könnunarinnar verða teknar saman í þeim tilgangi að auka þekkingu á líðan og seiglu bænda sem og fyrirætlanir þeirra um að skipta um starfsvettvang og fyrirætlanir um flutninga. Gerður verður samanburður á líðan bænda og líðan annarra Íslendinga á vinnumarkaði, að teknu tilliti til félagslýðfræðilegra þátta (s.s. kyns, aldurs, menntunar og fjárhagsstöðu). Rýnt verður í niðurstöður og skoðað hvort munur sé á líðan bænda eftir því hvort þeir hafi áform um að flytja eða skipta um atvinnugrein á næstu árum.

Félagsleg staða og ójöfnuður í heilsu.

Sjónarhorn samtvinnunar verður notað í rannsókninni til að skoða hvernig mismunandi félagslegir þættir  koma saman til að móta líf fólks og heilsu í tveimur byggðarlögum, sveitarfélaginu Hornafirði og Ísafjarðarbæ. Sérstaklega verður skoðað hvernig samtvinnun kyns, atvinnustöðu og innflytjendastöðu hefur áhrif á notkun og reynslu fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem og á líðan og heilsu. Bæjarfélögin tvö eru valin vegna hlutfalls innflytjenda. Tekin verða eigindleg viðtöl við 40 einstaklinga í hvoru bæjarfélagi, þar sem viðmælendum verður skipt í hópa eftir kyni, atvinnustöðu og innflytjendastöðu. Rannsóknin mun nýtast til að skilja upplifun mismunandi hópa af heilbrigðisþjónustu á landsbyggðunum og veita innsýn í hvernig staða mismunandi hópa hefur áhrif á heilsu fólks.

Markmið rannsóknar er að niðurstöður verði hægt að nýta til að bæta reynslu og upplifun fólks og þá sérstaklega þeirra sem tilheyra hópum sem standa hallari fæti í samfélaginu. Ójöfnuður er eitt stærsta vandamál 21. aldarinnar og hefur ýmsar afleiðingar, þar með talið á heilsu. Rannsóknir hafa sýnt allt að tíu ára mun á lífslíkum ríkra og fátækra í sömu borginni. Þó jöfnuður sé tiltölulega mikill á Íslandi í alþjóðlegum samanburði sýna rannsóknir ójöfnuð í heilsu.

Bolmagn íslenskra sveitarfélaga í skipulagsmálum.

Verkefnið felst í rannsókn á stjórnsýslu og framkvæmd skipulagsmála í sveitarfélögum á Íslandi. Sveitarfélög gegna lykilhlutverki við framkvæmd skipulagsmála. Skipulagsgerð felst í pólitískri stefnumótun og ákvarðanatöku sem krefst vandaðs faglegs undirbúnings og fjölbreyttrar þekkingar og hæfni. Stefnumótun í skipulagsmálum og ákvarðanir um þróun byggðar, samgöngukerfi og landnýtingu hafa grundvallarþýðingu fyrir viðgang og vöxt hvers samfélags með margvíslegum hætti. Í rannsóknarverkefninu verður spurningakönnun lögð fyrir fulltrúa í sveitarstjórnum og skipulagsnefndum sveitarfélaga, sveitarstjóra, skipulagsstarfsfólk sveitarfélaga og skipulagsráðgjafa í því skyni að afla þekkingar og skilnings á faglegu bolmagni íslenskra sveitarfélaga í skipulagsmálum og leggja af mörkum nýja þekkingu um uppbyggingu og viðhald faglegs styrks í stjórnsýslu og framkvæmd skipulagsmála hjá sveitarfélögum á Íslandi.

 

 


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389