Fréttir
Öll vötn til Dýrafjarðar, lokaíbúafundur
Lokaíbúafundur var haldinn í byggðaþróunarverkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar þann 16. maí sl. Á þeim tímamótum dró Byggðastofnun sig formlega í hlé úr verkefninu. Um síðustu áramót rann samningur við Ísafjarðarbæ og Vestfjarðastofu um verkefnið sitt skeið og Agnes Arnardóttir verkefnisstjóri hvarf til annarra starfa hjá Vestfjarðastofu, hún hefur þó sinnt eftirfylgni verkefna eftir atvikum og tók þátt í undirbúningi og framkvæmd lokaíbúafundar í samvinnu við verkefnisstjórn. Agnesi er hér með þakkað fyrir farsælt samstarf, faglega verkstjórn og vinnu í þágu verkefnisins og samfélagsins við Dýrafjörð.
Verkefnið Öll vötn til Dýrafjarðar hófst árið 2018 en fékk framlengingu um eitt ár eftir óskir þess efnis frá Ísafjarðarbæ. Enn eru þó nokkur frumkvæðisverkefni íbúa yfirstandandi en gert er ráð fyrir að þeim verði öllum lokið í september næstkomandi og að lokauppgjör verkefnisins fari þá fram.
Í upphafi verkefnis var haldið íbúaþing þar sem íbúar skilgreindu helstu framfaramál byggðarlagsins. Á grunni þeirra skilaboða skilgreindi verkefnisstjórn verkefnisáætlun ásamt framtíðarsýn sem samþykkt var á íbúafundi haustið 2018 og hefur síðan verið leiðarljósið á framkvæmdatímanum. Mörg frumkvæðisverkefni hafa verið styrkt á tímabilinu úr Frumkvæðissjóði Allra vatna til Dýrafjarðar og samtals var rúmum 47 milljónum veitt til 88 verkefna. Auk þeirra verkefna hafa íbúar einnig sótt um styrki í aðra stærri sjóði og hefur verkefnisstjóri verið ötull í að aðstoða þá við umsóknaskrif og umsýslu vegna ýmissa fjölbreyttra verkefna og sum þeirra hafa fengið framgöngu og fjármuni til góðra verka.
Agnes Arnardóttir, verkefnisstjóri, setti íbúafundinn og lagði til að Arna Lára Jónsdóttir, formaður verkefnisstjórnar ÖVD og bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, yrði fundarstjóri, sú tillaga var samþykkt með lófaklappi. Arna Lára kynnti því næst dagskrá fundarins og sagði frá því að verkefnisáætlun ÖVD yrði áfram lifandi skjal sem unnið yrði eftir.
Agnes fór því næst yfir framgang verkefnisins og stöðu þess við formleg verkefnislok. Hún greindi frá fjölbreytni verkefna og stöðu þeirra. Því næst ræddi Agnes meginmarkmiðin fjögur sem sett voru fram í verkefnisáætlun og velti því upp hvort tekist hafi að ná þeim eða að hvaða marki. Fram kom að mikill árangur hefði náðst í verkefninu þegar á heildina er litið, mörgum frumkvæðisverkefnum verið hrint í framkvæmd og byggðarlagið eflst á mörgum sviðum á verkefnistímanum. Í máli Agnesar kom fram að líta mætti á verkefnið sem langhlaup en ekki spretthlaup. Þó sjá megi árangur verkefnisins víða kæmi raunverulegur árangur e.t.v. ekki í ljós fyrr en að nokkrum árum liðnum. Í lokin þakkaði Agnes fyrir góðar móttökur íbúa á Þingeyri og við Dýrafjörð og þakkaði þeim og samstarfsaðilum fyrir gott samstarf.
Arna Lára þakkaði Agnesi fyrir hennar framlag til verkefnisins ÖVD og fyrir gott samstarf, þolinmæði og þrautseigju sem einkenndi hennar störf.
Því næst var innlegg frá nemendum í Grunnskólanum á Þingeyri þar sem sýnt var myndband sem nemendaráð hafði unnið. Í myndbandinu voru nemendur á öllum aldri spurðir um sýn þeirra á framtíð Þingeyrar og Dýrafjarðar og var sérstaklega gaman að sjá og heyra um hugmyndir þeirra, óskir og væntingar til byggðarlagsins. Sannarlega duglegir, kraftmiklir og framsýnir nemendur þar á ferð.
Arna Lára reifaði því næst aðkomu sveitarfélagsins að verkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar og hvernig hægt væri að vinna áfram í anda þess með markmiðin að leiðarljósi. Hugmyndir eru uppi um að styrkja samtal stjórnsýslunnar við íbúa byggðakjarnanna enn betur, m.a. með því að koma á hverfisráðanefndum og gefa formönnum hverfisráða aukið vægi. Fram kom að Hrönn Garðarsdóttir formaður íbúasamtakanna á Flateyri tekur senn við því verkefni að vera tengiliður hverfisráða í sveitarfélaginu ásamt því að stýra byggðaþróunarverkefni á Flateyri. Þá fór Arna Lára yfir þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í byggðarlaginu í vor og sumar s.s. malbikunarframkvæmdir og fleira.
Birta Bjargardóttir Blábankastjóri fór því næst yfir spennandi dagskrá og verkefni sem Blábankinn mun standa fyrir í sumar. Ber þar hæst verkefnið Heimsækjum Þingeyri en þar er stór hópur sem kemur að undirbúningi og skipulagningu. Birta hvatti fundargesti og íbúa til að taka virkan þátt og hafa samband með nýjar hugmyndir og verkefni. Fram kom að Blábankinn er hugsaður sem suðupottur sköpunar á Vestfjörðum.
Daníel Jakobsson steig því næst í pontu fyrir hönd Arctic Fish og fór yfir starfsemi fyrirtækisins og þá bæði í heild en einnig greindi hann frá því sem fyrirhugað er í Dýrafirði. Í máli hans kom m.a. fram að athuganir hafa sýnt að áhrif fiskeldis í Dýrafirði hafa ekki óafturkræf áhrif á lífríkið þar. Á döfinni er næsti fiskeldishringur í Dýrafirði og Daníel kvað eldisleyfi í Dýrafirði vera afar mikils virði fyrir fyrirtækið og samfélagið. Fyrirtækið lætur til sín taka í verkefnum samfélagsins og starfsmenn ætla m.a. að taka þátt með íbúasamtökunum á hreinsunardegi 20. maí.
Kaffiveitingar voru fram bornar og undir liðnum önnur mál gafst tækifæri til samræðna á milli fundargesta. Kristján Þ. Halldórsson, fulltrúi í verkefnisstjórn fyrir hönd Byggðastofnunar, kvaddi sér hljóðs og fór í nokkrum orðum yfir aðkomu Byggðastofnunar að verkefninu, þakkaði verkefnisstjóra, fulltrúum verkefnisstjórnar og íbúum fyrir gott og ánægjulegt samstarf og óskaði íbúum byggðarlagsins velfarnaðar. Að lokum þakkaði Arna Lára verkefnisstjóra fyrir afar gott starf í þágu verkefnisins og gaf henni blómvönd. Einnig þakkaði Arna Lára verkefnisstjórn og Byggðastofnun fyrir gott samstarf og þakkaði íbúum virka þátttöku í verkefninu og sleit því næst fundi.
Hér má sjá myndir sem teknar voru á þessum tímamótum. Myndirnar tóku Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir hjá Byggðastofnun.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember