Fara í efni  

Fréttir

Ójöfnuður meðal kvenna í íslensku samfélagi - Niðurstöður spurningakönnunar meðal kvenna á Íslandi

Ójöfnuður meðal kvenna í íslensku samfélagi - Niðurstöður spurningakönnunar meðal kvenna á Íslandi
Kristín Heba og Berglind Hólm

Nú er lokið rannsókn Háskólans á Akureyri og Vörðu, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins sem er eitt þeirra fjögurra verkefna sem hlaut styrkveitingu úr Byggðarannsóknasjóði vorið 2022. Skýrsla rannsóknarinnar ber heitið Ójöfnuður meðal kvenna í íslensku samfélagi. Niðurstöður spurningakönnunar meðal kvenna á Íslandi. Höfundar eru Berglind Hólm Ragnarsdóttir, Kristín Heba Gísladóttir, Valgerður S. Bjarnadóttir og Maya Staub.

Viðfangsefni rannsóknarinnar var að varpa ljósi á líðan kvenna á Íslandi eftir stöðu þeirra, búsetu, uppruna og stétt. Fram kemur í skýrslunni að stéttaskipting meðal kvenna hafi lítið verið rannsökuð, hvort heldur sem er á Íslandi eða annars staðar. Til mælinga í rannsókninni voru notaðir þrír af algengustu stéttavísunum: menntun, tekjur og efnahagsstétt.

Niðurstöður um líðan eftir búsetu sýna að algengi alvarlegra og mjög alvarlegra þunglyndiseinkenna minnkar eftir því sem íbúum á búsetusvæðinu fækkar en 7,8% kvenna í dreifbýli búa við alvarleg eða mjög alvarleg þunglyndiseinkenni á meðan það á við um 11,7% þeirra kvenna sem búa í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur að kvíði og streita er minni meðal kvenna sem búa í meðalstórum bæjum (ca. 1.000-5.000 íbúar) en 7,3% kvenna í meðalstórum bæjum býr við alvarleg eða mjög alvarleg kvíðaeinkenni og 9,2% kvenna í meðalstórum bæjum búa við alvarleg eða mjög alvarleg streitueinkenni. Konur í dreifbýli (undir 1.000 íbúum) og konur sem búa í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu eru líklegastar til að búa við alvarleg eða mjög alvarleg kvíðaeinkenni en það gera 15,4% kvenna í dreifbýli og 14,4% kvenna á höfuðborgarsvæðinu. Konur sem búa í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu eru í mestum mæli þær sem búa við alvarleg eða mjög alvarleg streitueinkenni, eða 17,1%.

Ef litið er til menntunar má sjá í niðurstöðunum að 84,9% háskólamenntaðra kvenna býr á höfuðborgarsvæðinu eða í stærri bæjum í landsbyggðunum. Konur með grunnskólapróf eru hins vegar líklegastar til þess að búa í meðalstórum bæjum eða dreifbýli. Hlutfallslega flestar konur með meðalhá og há laun búa jafnframt á höfuðborgarsvæðinu eða í stærri bæjum en það gera 85,8% kvenna með meðalhá laun og 84,7% kvenna með há laun.

Í samantekt á helstu niðurstöðum kemur fram að:

  • Fjárhagsstaða kvenna er mismunandi eftir því hvaða stétt þær tilheyra.
  • Traust til opinberrar þjónustu er ólíkt eftir menntun, tekjum og stétt.
  • Byrði vegna umönnunar barna og heimilis er meiri meðal kenna með lág laun og grunnskólamenntun.
  • Líkamleg heilsa er verst meðal kvenna með grunnskólapróf eða sambærilega menntun.
  • Konur með lág laun meta hamingju sína minni en konur með hærri laun.
  • Konur með háskólamenntun eru ólíklegastara til að vera með þunglyndis-, kvíða- og streitueinkenni.
  • Hærra hlutfall kvenna með lág laun eru með lítið félagslegt bakland samanborið við konur með há laun.

Í skýrslunni er greint frá því að gagna hafi verið aflað á íslensku, ensku og pólsku með símakönnun þar sem spyrlar hringdu í konur á úrtakslista. Tilviljunarúrtak kvenna á aldrinum 25-64 ára  var tekið úr þjóðskrá og félagslista Eflingar en gagnasöfnun fór fram fyrri hluta árs 2022. Svarhlutfallið var 37,2% (1251 svar).

Rannsóknarskýrslan í heild sinni: Ójöfnuður meðal kvenna í íslensku samfélagi.

Umfjöllun um skýrsluna er einnig að finna á heimasíðu Vörðu: Ójöfnuður meðal kvenna á Íslandi á sér margs konar birtingamyndir.

 

Byggðarannsóknarsjóður var settur á laggirnar 2014 og hefur verið veitt úr honum 41 styrkur, tíu ár í röð, alls tæpar 90 milljónir. Tilgangur sjóðsins er að efla byggðarannsóknir og bæta þekkingargrunn fyrir stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum. Byggðastofnun fer með umsýslu sjóðsins.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389