Fara í efni  

Fréttir

Nýsköpun og tækifæri í brennidepli á nýafstaðinni ráðstefnu OECD um byggðaþróun

Byggðastofnun tók þátt í ráðstefnu OECD um byggðaþróun sem fram fór í Cavan sýslu á Írlandi í síðustu viku. Þema ráðstefnunnar í ár var sjálfbærar, sterkar og blómlegar dreifðar byggðir og má segja að jákvæðnin, framsýnin og drifkrafturinn hafi nánast verið áþreifanlegur hjá fundargestum og framsögufólki.

,,Þegar við leiðum hugann að dreifðum byggðum, megum við ekki leyfa okkur að horfa til hnignunar. Þess í stað ættum við að hugsa um einstök lífsgæði, nýsköpun, blómstrandi samfélög og, ekki síst, tækifæri. Viðhorf eru mikilvæg – því viðhorf skapa metnað“ – sagði Heather Humpreys, ráðherra félags- og byggðamála hjá Írlandi, er hún opnaði OECD ráðstefnuna um byggðaþróun sl. miðvikudag. Um er að ræða tólftu ráðstefnu OECD innan málaflokksins þar sem fulltrúar OECD landanna koma saman til þess að ræða um hin ýmsu málefni innan byggðaþróunar, deila reynslu sinni og þekkingu og ekki síst, læra hvert af öðru. Ráðstefnan bauð upp á 20 málstofur á tveimur dögum þar sem helstu málefni sem brenna á byggðum landanna voru rædd, stefnur og áætlanir skoðaðar, áskoranir krufðar og tækifærum flaggað. 

Ragnhildi Friðriksdóttir, sérfræðingi hjá Byggðastofnun, var boðið að halda erindi á ráðstefnunni á málstofu um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarbyggðir og bláa hagkerfið. Þar ræddi Ragnhildur um það hvernig sveitarfélög þurfi nú að horfa til umhverfis-, efnahags- og samfélagslegra áhrifa loftslagsbreytinga í allri ákvarðanatöku og stefnumótun. Áhrif loftslagsbreytinga á byggðir og samfélög séu ekki aðeins bundin við bein áhrif loftslagstengdra atburða, líkt og skriðufalla eða flóða vegna hækkandi sjávarstöðu. Áhrifin komi líka til með að birtast í óbeinum áhrifum á grunnstoðir samfélaga, innviði, efnahag og ekki síst íbúa samfélaganna, líf þeirra og heilsu. Gífurlega mikilvægt sé nú að hefja kortlagningu á staðbundnum áhrifum loftslagsbreytinga á byggðir og framkvæma út frá því áhættumat svo hægt sé að móta og forgangsraða aðlögunaraðgerðum. Einnig er gífurlega mikilvægt að taka tillit til áhrifa loftslagsbreytinga í allri ákvarðanatöku sveitarfélaga innan skipulagsmála, uppbyggingu innviða og fjárfestinga. Sé það ekki gert, geti það haft mikinn fjárhagslegan og samfélagslegan skaða í för með sér. Ragnhildur kynnti einnig nýja aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun Íslands, aðgerð C.10 – Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög. Aðgerðin miðar að því að hefja mótun aðlögunaráætlana fyrir íslensk sveitarfélög, sem og leiðarvísis til stuðnings sveitarfélaga sem hyggja á slíka vinnu. Aðgerðin vakti talsverða athygli viðstaddra, þar sem náið samtal ríkis og sveitarfélaga á Íslandi um aðlögun gegn loftslagsbreytinga þótti til eftirbreytni og var sérstaklega nefnt í lokasamantekt ráðstefnunnar.

Ragnhildur Friðriksdóttir, sérfræðingur Byggðastofnunar á þróunarsviði, ásamt þeim Bojan Furst frá Memorial University í Nýfundnalandi, Andrea McCOLL frá Highlands and Islands Enterprise í Skotlandi og Rónán Mac Con Iomaire frá Írlandi. Fjórmenningarnir stóðu að baki málstofu um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarbyggðir og bláa hagkerfið.

Að ráðstefnu lokinni voru nokkur sameiginleg þemu sem stóðu upp úr og virkuðu í raun sem rauður þráður í gegnum flestar málstofur og umræður. Mikilvægi staðbundinnar nýsköpunar fyrir dreifðar byggðir, ekki síst samfélagslegrar nýsköpunar og samfélagslegrar frumkvöðlastarfsemi, og aðferðir til eflingar hennar. Öflug nýsköpunarstarfsemi og sterkt nýsköpunarumhverfi getur haft mikið að segja fyrir atvinnu- og efnahagslíf byggða og dreifbýlis, seiglu þeirra og vöxt, ekki síst í ljósi þeirra hnattrænu áskorana sem blasa nú við. Í því samhengi var mikil áhersla lögð á vægi þess að færa umboð, fjármagn og vald til ákvarðanatöku til staðbundinna aðila og stjórnenda. Oft sköpuðust í kjölfarið miklar umræður um mikilvægi verkefna sem leidd eru af fulltrúum samfélaganna sjálfra og hins svokallaða þriðja geira, þ.e. starfsemi sem hvorki tilheyrir hinu opinbera né einkaaðilum og er því ekki hagnaðardrifin, en vinnur í almannaþágu til lausnar á samfélagslegum áskorunum. Mikil áhersla var einnig á mikilvægi svæðisbundinna stefna í hinum ýmsum málaflokkum sem mikilvægt tól til eflingar atvinnu- og efnahagslífs í dreifðum byggðum. 

Hugtök sem sitja eftir í huga starfsmanns Byggðastofnunar að ráðstefnu lokinni.

Það er mikilvægt að Ísland eigi fulltrúa á vettvangi sem þessum um byggðamál, því mikinn lærdóm má draga af þeim umræðum sem þar eiga sér stað. Ekki er síður mikilvægt fyrir íslenskar stofnanir, ráðuneyti og aðra innan málaflokks byggðamála að vera vel meðvituð um þá strauma og stefnur ríkja hjá þeim þjóðum sem við kjósum að bera okkur saman við. Oftar en ekki eru nágrannaþjóðir okkar að eiga við samskonar áskoranir og við og mikinn lærdóm hægt að draga af reynslu þeirra og lausnum. Þetta á ekki síður við um tækifærin. Ísland býr einnig yfir mikilvægri þekkingu, hugviti og reynslu á ýmsum sviðum sem snerta byggðamál, sem mikilvægt er að miðla áfram á vettvangi sem þessum.

Það sem einna helst stóð upp úr að ráðstefnu lokinni var mikilvægi þeirrar þróunar sem nú er að eiga sér stað á ímynd dreifbýlis og smærri byggða í Evrópu. Sú breytingar sé að eiga sér stað að hugrenningartengsl fólks í samhengi dreifðra byggða og landsbyggða er ekki lengur bundin við skort á tækifærum, fólksfækkun eða aðrar áskoranir. Nú séu það tækifærin, lífsgæðin, nýsköpunin, vöxturinn, framsýnin og afkastagetan sem fyrst komi upp í huga fólks og það er þróun sem mikilvægt er að ýta undir með uppbyggilegri umræðu og sýnileika byggðanna. Því eins og fyrrnefnd Heather Humpreys komst að orði: Viðhorf eru mikilvæg – því viðhorf skapa metnað.

Heimsbyggðin stendur nú frammi fyrir geigvænlegum áskorunum, m.a. í tengslum við fæðuöryggi, lýðheilsu, öryggi og loftslagsbreytingar.

Lausnirnar við þessum áskorunum er að miklu leyti að finna innan dreifbýlisins. 

 


Til baka

Fréttasafn

2025
janúar
2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389