Fréttir
Niðurstaða valnefndar um Rafrænt samfélag
Efni: Rafrænt samfélag - niðurstöður forvals
Þriðjudaginn 4. mars 2003 var lokafrestur til að skila umsóknum um þátttöku í forvali samkeppninnar um
"Rafrænt samfélag". Alls bárust 13 umsóknir frá eftirfarandi:
1. Akraneskaupstað
2. Aðaldælahreppi, Húsavíkurbæ og Þingeyjarsveit
3. Dalabyggð
4. Dalvíkurbyggð, Hríseyjarhreppi, Ólafsfjarðarbæ og Siglufjarðarkaupstað
5. Grundarfjarðarbæ
6. Kelduneshreppi
7. Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
8. Skagfirsku samskiptaþingi
9. Snæfellsbæ
10. Sveitarfélaginu Hornafirði
11. Sveitarfélögunum Árborg, Hveragerði og Ölfus
12. Vestmannaeyjabæ
13. Öxafjarðarhreppi
Fyrir liggur Verkefnalýsing um "Rafrænt samfélag" frá Byggðastofnun dagsett í janúar 2003. Þar koma fram leiðbeiningar til þátttakenda og valmælikvarðar sem nota skal í forvalinu. Valnefndin hefur byggt störf sín á þessum gögnum. Í kafla 4.1 um forvalið stendur m.a.:
Í forvalinu er fyrst og fremst verið að leita eftir hugmyndum að hagnýtri notkun fjarskipta- og upplýsingatækni hjá viðkomandi sveitarfélagi. Það verður talið hugmyndum til tekna að þær hafi breiða skírskotun þ.e. geti einnig nýst öðrum byggðarlögum. Umsókn um þátttöku í forvali verður að innihalda vel skilgreinda og trúverðuga framtíðarsýn fyrir viðkomandi byggðarlag ásamt greinargóðum skýringum á því hvernig eigi að framkvæma þá sýn. Umsóknin á að hjálpa valnefndinni til að skynja mikilvægi hins áformaða verkefnis hvað varðar efnahagslegan, félagslegan og menningarlegan ávinning samfélagsins.
Í Viðauka 1 í verkefnalýsingunni eru valmælikvarðar fyrir forvalið.
Framtíðarsýn og markmið vega 25% í matinu og er þar leitað eftir verkefnum sem taka til nýsköpunar atvinnulífsins, bættrar afkomu íbúanna, aukinnar menntunar og menningarstarfsemi, bættrar heilsugæslu og félagslegra aðstæðna og sem efla lýðræðið.
Rafræn þjónusta vegur þyngst, eða 40% í matinu, en þar er átt við verkefni sem hagnýta upplýsinga- og fjarskiptatækni við hverskonar úrlausnir, t.d. viðskiptalegra- og persónulegra viðfangsefna. Um getur verið að ræða úrlausnir sem tíðkast í rafrænni stjórnsýslu og í rafrænum viðskiptum er notar t.d. rafrænar undirskriftir við dreifmenntun og við fjarlækningar.
Rafræn grunngerð vegur minnst, eða 15% í matinu og er þar vísað til kerfisuppbyggingar með nægilega getu til að styðja þá rafrænu þjónustu sem stefnt er að.
Þátttaka íbúanna vegur 20% í matinu og er þar tekið mið af því hvernig sem flestir íbúar þéttbýlis og dreifbýlis muni njóta fyrirhugaðrar þjónustu og hvernig þátttaka fatlaðra, aldraðra, sjúkra og fleiri verði tryggð.
Valnefnd hefur lokið mati á framangreindum umsóknum. Í öllum umsóknunum er lýst verkefnum er lúta að uppbyggingu á öflugum gagnagrunnum með fróðleik um héraðið og sérkenni þess, um atvinnulífið, ákvarðanir sveitastjórna og stofnana þeirra og með miðlun upplýsinga og skoðana á milli stjórnsýslu og almennings. Slíkar upplýsingaveitur eru vissulega mikilvægur þáttur í grunngerð rafræns samfélags. Valnefndin lítur engu að síður svo á að engin umsókn hefi boðað svo veigamikið þróunarverkefni á þessu sviði að ástæða sé til að hampa því sérstaklega.
Valnefndin telur að almennt hafi skort á metnaðarfullar verkefnahugmyndir sem leitt geti til umtalsverðs ávinnings fyrir nýsköpun atvinnulífsins og verkefni sem eru líkleg til að hraða þróun rafrænna viðskipta.
Valnefndin telur engu að síður að fram hafi komið nægilega trúverðugar og metnaðarfullar hugmyndir að verkefnum sem líkleg eru til að skila árangri á verkefnatímanum eða að þær komist það langt að verulegum árangri verði náð.
Samkvæmt ákvæðum greinar 4.1Forvalí framangreindri verklýsingu skal valnefndin velja fjögur til átta byggðalög til að taka þátt í samkeppninni. Valnefndin hefur á grundvelli þessa valið verkefni fjögurra sveitarfélaga til áframhaldandi þátttöku. Þau eru í starfrófsröð:
1) Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær og Þingeyjarsveit
2) Grundarfjarðarbær
3) Snæfellsbær
4) Sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus.
Umsögn valnefndarinnar um þessi fjögur verkefni:
1) Verkefni Aðaldælahrepps, Húsavíkurbæjar og Þingeyjarsveitar.
Verkefnið er skýrt og vel framsett. Það byggir á góðum grunni reynslu og fagþekkingar. Árangurslíkur þess eru miklar. Framkvæmd þess er vel skipulögð, m.a. með skilgreindum verkefnahópum og óháður aðli mun annast eftirlit með gæðaþáttum, framvindu og kostnaði. Samstarfsaðilar eru mjög trúverðugir og tryggja þeir tengsl við opinberar stofnanir og einkafyrirtæki. Þátttaka íbúanna er víðtæk.
Þrír hlutar verkefnisins hafa hvað mest gildi sem þróunarverkefni fyrir upplýsingasamfélagið. Þau eru tilraunaverkefni í fjarlækningum og í notkun rafrænna lyfseðla er tengist Heilbrigðisþjónustu Þingeyinga; uppbygging á rafrænu markaðstorgi m.a. fyrir atvinnulífið, sem áhugavert er að þróa frekar, og innleiðing á notkun rafrænna skilríkja þ.m.t. þátttaka í tilraunaverkefni um rafvædd viðskipti.
2) Verkefni Grundafjarðarbæjar.
Verkefnið er skýrt og vel framsett. Það var mótað í nánu samstarfi við íbúa sveitarfélagsins og byggir á greiningu á tæknilegum grunni sveitarfélagsins og skilgreiningu á þróun og þörfum atvinnulífsins. Samstarfsaðilar eru traustir og mynda heildstæðan hóp sem fellur mjög vel að meginverkefninu sem er rafræn dreifmenntun. Með mjög skýrum hætti er lýst hvernig sókn í menntamálum er forsenda nýsköpunar atvinnulífsins. Verkefnið nær til stórs hóps íbúanna, m.a. með opnum útstöðvum. Verkefnið er mjög vel útfært og í alla staði trúverðugt og mjög
líklegt til að ná tilætluðum árangri. Það er yfirfæranlegt til annarra landsbyggðarsvæða sem vilja flytja menntunina heim með hjálp tölvusamskipta.
Ókostur verkefnisins er að það er þröngt afmarkað á sviði rafrænnar þjónustu.
3) Verkefni Snæfellsbæjar.
Verkefnið er skýrt og vel framsett en á frekar langt í land að vera fullmótað. Samstarfsaðilar mynda samstæðan hóp breiðfylkingar úr atvinnulífinu og lykilaðila úr stjórnsýslu sveitarfélagsins. Verkefnið hefur víðtæka þátttöku íbúanna, bæði í dreifbýli og þéttbýli og fram eru settar trúverðugar hugmyndir um hvernig íbúarnir verða upplýstir um framvindu verkefnisins.
Meginstyrkur verkefnisins eru áætlanir um rafræn viðskipti er tengjast sölu og útflutningi á sjávarafurðum.
Þessar grunnhugmyndir er unnt að útfæra og þróa svo þær gagnist hinum mörgu sjávarbyggðum landsins og við þróun rafrænna viðskipta almennt á landsbyggðinni. Hugmyndin gæti byggst ofan á eldri lausnir sem þróaðar hafa verið hér á landi.
4) Verkefni sveitarfélaganna Árborgar, Hveragerðis og Ölfuss.
Verkefnið er skýrt og vel framsett. Skipulagning þess er heildstæð og góð. M.a. eru skipulagðir verkefnishópar og notendaráð með víðtækri þátttöku fyrir hvert verkefni. Einnig verður skipað sérstakt tækniráð, þjónusturáð og sérstakur eftirlitshópur sem fylgist með framvindu verksins. Samstarfsaðilar mynda mjög sterka heild og verk- og kostnaðaráætlun er trúverðug. Þátttaka íbúanna er víðtæk og auk þess að huga sérstaklega að börnum og eldri borgurum er áhersla á hvers konar forvarnir.
Ein af megináherslum verkefnisins er efling atvinnulífs með rafrænum hætti. Grunnhugmyndina er unnt að útfæra í verkefni sem hefði veigmikla þýðingu fyrir þróun atvinnulífsins á landsbyggðinni og gæti orðið fyrirmynd annarsstaðar. Annað verkefni lýtur að hagræðingu í rekstri og bættri þjónusta sveitarfélaganna, þar sem rafræn útboð og innkaup eru meðal verkþátta. Þetta verkefni er trúverðugt, mjög tímabært og líklegt til árangurs.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember