Fréttir
Íbúafundur í verkefninu Áfram Árneshreppur – samstaða um að nýta viðbótarár sem best
Miðvikudaginn 11. ágúst sl. var haldinn íbúafundur í verkefninu Áfram Árneshreppur sem er hluti af verkefninu Brothættum byggðum. Í upphafi fundar flutti Sigríður Elín Þórðardóttir, forstöðumaður Þróunarsviðs Byggðastofnunar, ávarp og gat þess hversu ánægjulegt það væri að sækja Árneshrepp heim og njóta fegurðar svæðisins á degi sem þessum. Sigríður Elín fór yfir stöðu verkefnisins og þá erfiðleika sem þetta litla samfélag hefur átt við að etja á síðustu árum, m.a. vegna einangrunar að vetri og fækkunar íbúa. Upphaflega var áætlað að verkefnið Áfram Árneshreppur lyki göngu sinni á árinu 2021. Í upphafi árs leitaði verkefnisstjórnin til stjórnvalda um málefni byggðarlagsins og í framhaldi af því lagði ríkisstjórnin til að verkefnið yrði framlengt um eitt ár, til loka 2022. Þegar hefur verið ákveðið að svo verði. Fulltrúar Vestfjarðastofu, Byggðastofnunar, Árneshrepps og íbúa í verkefnisstjórn sóttu fundinn auk íbúa og annarra velunnara Árneshrepps.
Verkefnisstjóri, Skúli Gautason, fór yfir það helsta sem unnið hefur verið að síðasta árið en á íbúafundi sumarið 2020 lögðu íbúar áherslu á að styrkja innviði og landbúnað og sjávarútveg eftir nokkurn árangur í ferðaþjónustu á síðustu árum. Ekki er séð fyrir endann á þeirri vinnu en vonast til að árangur náist áður verkefnistímanum lýkur á árinu 2022. Meðal annars er til skoðunar hjá verkefnisstjórn hvort samfélagið í Árneshreppi geti notið sértækra úrræða vegna stöðu sinnar og einangrunar. Þá eru samgöngumál, fjarskipti og þrífösun rafmagns áherslumál í verkefninu. Þau gleðilegu tímamót hafa orðið að Fjarskiptasjóður hefur á árinu 2021 úthlutað myndarlegri upphæð til Árneshrepps til að leggja ljósleiðara um sveitarfélagið samfara þrífösun rafmagns á vegum Orkubús Vestfjarða. Vonir standa til að því verkefni verði lokið á árinu 2022 með ljósleiðara og þrífösun rafmagns allt norður í Norðurfjörð og Krossneslaug. Þá var rætt um yfirstandandi könnun á fýsileika hitaveitu úr Krossnesi í Norðurfjörð og greint frá stöðu forathugunar.
Skúli greindi frá styrkjum til frumkvæðisverkefna og bað forsvarsmenn nokkurra þeirra sem staddir voru á fundinum að gera stuttlega grein fyrir árangri og þýðingu verkefnanna. Meðal verkefna sem kynnt voru, voru endurbætur á Krossneslaug, undirbúningur að hitaveitu, fræðasetur í náttúruvísindum, Baskasetur í Djúpavík og nýliðun í landbúnaði með tilkomu nýrra ábúenda á einu býli í sveitinni.
Íbúar skiptu liði og ræddu framfaramál. Þema hvers hóps var valið í samræmi við meginmarkmið verkefnisins. Þau eru: traustur landbúnaður og sjávarútvegur, einstakt menningarlandslag og náttúra, öflugir innviðir og samheldið samfélag. Margar góðar tillögur og ábendingar komu fram í umræðum. Segja má að það sem var fundarmönnum efst í huga tengist síðastnefnda markmiðinu, það er einlægur vilji til að leita sátta í þessu litla samfélagi eftir erfiðar deilur undanfarinna ára sem tengjast áformum um Hvalárvirkjun. Framlenging verkefnisins var einnig rædd og mikil samstaða um að nýta viðbótarár sem allra best í þágu byggðar í Árneshreppi.
Myndirnar tók Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir sem tók mynd í Verzlunarfjelagi Árneshrepps.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember