Fara í efni  

Fréttir

Framtíðarnefnd tekur við keflinu í Árneshreppi

Framtíðarnefnd tekur við keflinu í Árneshreppi
Við Norðurfjarðarhöfn

Svokölluð framtíðarnefnd hefur nú tekið við keflinu í samráði við sveitarstjórn Árneshrepps eftir að Byggðastofnun hefur dregið sig formlega í hlé úr verkefninu Brothættar byggðir. Það hefur sannarlega verið ánægjulegt og gefandi að starfa með íbúum í Árneshreppi, sveitarstjórn Árneshrepps og  Vestfjarðastofu að framfaramálum byggðarlagsins undanfarin átta ár. Starfsfólk Byggðastofnunar óskar íbúum Árneshrepps bjartrar framtíðar á þessum tímamótum.

Árneshreppur er staðurinn!

Í Árneshreppi á Ströndum hefur samfélagið verið í sókn á undanförnum árum. Íbúar hafa tekið höndum saman og unnið að ýmsum framfaraverkefnum sem hafa treyst byggð og gott mannlíf á svæðinu. Ferðaþjónusta hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Nefna má fjölgun gistirýma, bætt tjaldsvæði, og aukna þjónustu við gesti og gangandi. Byggðarlagið hefur laðað að fjölda ferðamanna sem koma og njóta einstakrar náttúru þess.

Heimsókn í Árneshrepp er sannarlega vel þess virði

Segja má að saga og menning sé samofin daglegu lífi í Árneshreppi. Baskasetrið í Djúpavík sem opnaði fyrsta hluta sýningar um Baskavígin nú fyrr í sumar er kyngimagnað og óhætt að mæla með að staldra þar við inni í risastórum, gömlum lýsistanki og fræðast um merka sögu Baskanna og veru þeirra á Íslandi. Nýstárlegar listasýningar hafa verið haldnar í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík ár hvert undir heitinu The Factory og svo er einnig nú. Það er sannarlega hægt að mæla með heimsókn þangað. Auk þess má sjá Sögusýningu Djúpavíkur í síldarverksmiðjunni sem segir frá tímum síldarævintýranna. Í Djúpavík er einstakt að koma við á Hótel Djúpavík og njóta gestrisni staðarhaldara.

Í Trékyllisvík er svo hægt að bregða sér í Minja- og handverkshúsið Kört en þar er hægt að skoða fágæta muni sem tengjast flestir byggð, mannlífi og sögu Árneshrepps.  Þegar komið er í Norðurfjörðinn má segja að Krossneslaug sé segull svæðisins enda einstakt að fá sér sundsprett og njóta stórbrotins útsýnis rétt við fjöruborðið. Þá skiptir einnig sköpum að Verzlunarfjelag Árneshrepps er með opna verslun allt árið um kring og þangað er gott að koma og ná sér í helstu nauðsynjar. Þeir sem hyggja á gistingu í Norðurfirði verða ekki sviknir af Gistiheimilinu Urðartindi og Gistiheimilinu Bergistanga. Að auki er vel búið tjaldsvæði hjá Urðartindi og tjaldsvæði í Ófeigsfirði, auk aðstöðu Ferðafélags Íslands í Norðurfirði. Ekki má gleyma að benda á Kaffi Norðurfjörð en þar er hægt að fá dýrindis veitingar hjá þeim Unni og Gíslínu sem hófu veitingarekstur þar í vor, um leið og hægt er að horfa yfir fallegt hafnarsvæðið og fylgjast með lífinu þar. Ekki spillir fyrir að um liðna helgi var lögð lokahönd á einkar smekklegan göngupall meðfram hafnargarðinum í Norðurfjarðarhöfn sem mun auka aðgengi en jafnframt öryggi gesta á svæðinu. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnaði þá framkvæmd og heimamenn hafa unnið ötullega að gerð mannvirkisins.

Fjölmargt hefur áunnist á verkefnistíma Áfram Árneshrepps

Á verkefnistíma byggðaþróunarverkefnisins Áfram Árneshreppur hafa mörg ofangreind verkefni fengið stuðning og hvatningu og hlotið styrki úr Frumkvæðissjóði verkefnisins, auk fjölmargra annarra verkefna. Á lokaíbúafundi Áfram Árneshrepps sl. fimmtudag var farið yfir í máli og myndum hvaða árangur hafi náðst í verkefninu til þessa auk þess sem íbúar ræddu um sóknarfæri og næstu skref. Ljósleiðaravæðing og þrífösun rafmagns hafa opnað á nýja möguleika til atvinnulífs í byggðarlaginu en herslumuninn vantar til að klára þær framkvæmdir. Þá er hrópandi þörf fyrir samgöngubætur í Árneshreppi. Hugmyndir eru uppi um að opna Finnbogastaðaskóla að nýju á næstu misserum eftir nokkurt hlé en nú er útlit fyrir að tvö börn verði í hreppnum í vetur.  Við þetta má bæta að fjölmörg markmið sem skilgreind voru í verkefnisáætlun Áfram Árneshrepps hafa náðst og vinnu við önnur miðað í rétta átt, þó svo að megináhersla hafi verið á samgöngubætur og aðra innviði á síðustu árum verkefnisins. Sjá nánar í ársskýrslu Áfram Árneshrepps 2023, hér.

ÁFRAM ÁRNESHREPPUR!

Hér má sjá frétt RÚV um Árneshrepp í tilefni þessara tímamóta, einnig sjónvarpsfrétt af sama tilefni.

Eftirfarandi myndir voru teknar í ferð starfsfólks Byggðastofnunar í Árneshrepp. Myndasmiðir voru Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir.

Baskasetrið í Djúpavík.

Unnur og Gíslína í Kaffi Norðurfirði.

Frá íbúafundi í Árnesi í Trékyllisvík.

Svæði sem hefur verið deiliskipulagt fyrir sumarhús og íbúðarhús í Norðurfirði.

Strandveiðisjómenn og bátar setja svip sinn á Norðurfjarðarhöfn.

Listasýningin The Factory í Djúpavík.

 

Nánari upplýsingar veita Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson hjá Byggðastofnun.

 


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389