Fréttir
Eyrarrósarlistinn 2014 birtur í fyrsta sinn
Metfjöldi umsókna er í ár til Eyrarrósarinnar, viðurkenningar til framúrskarandi menningarverkefna á starfssvæði Byggðastofnunar, en fjörutíu og sex fjölbreytt verkefni víða um land sóttu um. Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.
Sú nýbreytni er nú tekin upp á tíu ára afmæli Eyrarrósarinnar að í stað þriggja tilnefndra verkefna, er nú birtur Eyrarrósarlistinn 2014, listi yfir tíu verkefni sem möguleika eiga á því að hljóta Eyrarrósina í ár. Þann 23. janúar næstkomandi verður sagt frá því hvaða þrjú hljóta viðurkenningu. Eitt þeirra hlýtur að lokum Eyrarrósina, 1.650.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands en tvö verkefni hljóta 300.000 króna viðurkenningu og flugferðir frá Flugfélagi Íslands.
Eyrarrósarlistinn 2014 er:
-
Verksmiðjan Hjalteyri
-
Hammondhátíð Djúpavogs
-
Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri
-
Skrímslasetrið
-
Tækniminjasafn Austurlands
-
Reitir
-
Áhöfnin á Húna
-
Bær
-
Kómedíuleikhúsið
-
Þjóðahátíð Vesturlands
Eyrarrósin verður afhent með viðhöfn laugardaginn 15. febrúar næstkomandi í Menningarmiðstöðinni Skaftelli á Seyðisfirði. Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin að vanda.
Nánar um verkefnin:
Verksmiðjan Hjalteyri
Verksmiðjan á Hjalteyri, lista– og menningarmiðstöð, hóf starfsemi sína árið 2008 þegar hópur listamanna á Norðurlandi stofnaði félag með það að markmiði að gangsetja á ný, með nýjum hætti, síldarverksmiðjuna á Hjalteyri við Eyjafjörð. Verksmiðjan á Hjalteyri hefur sérstöðu hvað varðar staðsetningu og hún stendur fyrir lifandi menningarstarfsemi við sérstakar, náttúrlegar og sögulegar aðstæður. Hún gerir listamönnum nær og fjær kleift að framleiða og sýna verk sín í óhefðbundnu, skapandi sýningarými um leið og hún gæðir lífi sögufræga og einstaka byggingu sem stóð auð og ónotuð í langan tíma. http://www.verksmidjanhjalteyri.com/
Hammondhátíð Djúpavogs
Hammondhátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2006 og er nú stærsti menningarviðburður Djúpavogs. Meginmarkmið hennar er að heiðra og kynna Hammondorgelið og bjóða tónlistarmönnum að leika listir sínar á það í þriggja daga dagskrá þar sem orgelið er rauði þráðurinn. Listinn yfir þá tónlistarmenn og hljómsveitir sem komið hafa fram á hátíðinni í gegnum tíðina er orðinn langur og glæsilegur. Fjölmargir aðrir viðburðir hafa sprottið upp í tengslum við hátíðina einkum í tengslum við handverk og hönnun. Hammondhátíð 2014 verður sett á Djúpavogi sumardaginn fyrsta, þann 24. apríl. http://hammond.djupivogur.is/
Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri
Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri er árleg sönghátíð sem haldin verður í tuttugasta og fjórða sinn dagana 27. – 29. júní í sumar. Á hátíðinni kemur saman tónlistarfólk víða af landinu og er hún ómissandi vettvangur bæði fyrir heimamenn og ferðamenn í Skaftárhreppi sem fá tækifæri til að njóta lifandi flutnings klassískrar tónlistar listamanna í fremstu röð. Hátíðin leggur jafnframt rækt við tónlistaruppeldi yngstu kynslóðarinnar með tónlistarsmiðju fyrir börn. www.kammertonleikar.is
Skrímslasetrið
Skrímslasetrið á Bíldudal er byggt upp af brottfluttum Arnfirðingum í Reykjavík og heimamönnum á Bíldudal. Þar er haldið utan um þann þátt þjóðararfs Íslendinga sem skrímslasögur eru. Setrið er byggt á rannsóknarvinnu Þorvaldar Friðrikssonar fréttamanns, en hann hefur safnað yfir fjögur þúsund frásögnum um samskipti Íslendinga við sjóskrímsli. Í Skrímslasetrinu eru sögurnar sýndar á lifandi hátt með nútímatækni. Verkefnið hefur laðað til sín fjölda ferðamanna og gert Bíldudal að enn áhugaverðari stað að heimsækja. www.skrimsli.is
Tækniminjasafn Austurlands
Tækniminjasafn Austurlands er í sex gömlum húsum á svokallaðri Wathnestorfu á Seyðisfirði. Þar er öflugt sýningahald auk hinnar árlegu Smiðjuhátíðar að sumri. Safnið starfar ennfremur sem byggðasafn um sögu Seyðisfjarðar og hefur uppbygging svæðisins skapað aðlaðandi útivistarsvæði sem tilvalið er fyrir gönguferðir og samveru í fræðandi umhverfi.www.tekmus.is
Reitir
Frá árinu 2012 hefur verkefnið Reitir boðið árlega um þrjátíu listamönnum víðs vegar að úr heiminum til Siglufjarðar til að taka þátt í tilraunakenndri nálgun við hina hefðbundnu listsmiðju. Fjölbreytt reynsla og ólíkur bakgrunnur þátttakenda verður þar uppspretta nýstárlegra verka sem á einn eða annan hátt fjalla um Siglufjörð. Með virkri þátttöku íbúa hefur á stuttum tíma orðið til grunnur að þverfaglegu tengslaneti og skapandi alþjóðasamstarfi sem veitt hefur bæjarbúum nýja sýn á umhverfi sitt.www.reitir.com
Áhöfnin á Húna
Áhöfnin á Húna er samstarfsverkefni tólistarmanna og Hollvina Húna II. Áhöfnin á Húna vakti mikla athygli síðastliðið sumar þegar Húni II sigldi hringinn í kringum landið. Haldnir voru 16 tónleikar í sjávarbyggðum landsins. Ríkisútvarpið fylgdi siglingunni eftir með beinum útsendingum frá tónleikum áhafnarinnar sem og sjónvarps– og útvarpsþáttagerð þar sem landsmönnum öllum gafst tækifæri til að fylgjast með ævintýrum áhafnarinnar. Húni II hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir áhugavert starf í menningartengdri ferðaþjónustu og er samstarf hans við tónlistarfólkið í Áhöfninni á Húna liður í að efla það enn frekar.
Bær
Í listasetrinu Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði hefur verið byggð upp einstök aðstaða fyrir innlenda og erlenda sjónlistamenn og arkitekta til listsköpunar. Í endurbyggðum bragga, útihúsum og íbúðarhúsi dvelja smáir hópar alþjóðlegra listamanna yfir sumartímann sem oftar en ekki mynda sterk tengsl við umhverfið og nærsamfélagið meðan á dvöl þeirra stendur. Tvisvar á sumri eru haldnar vinnustofusýningar á verkum þeirra, en auk þeirra eru í Bæ reglulegir tónleikar og einkasýningar. www.baer.is
Kómedíuleikhúsið
Kómedíuleikhúsið er fyrsta atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum og hefur á undanförnum sextán árum sett á svið um fjörutíu leikverk sem öll byggja á vestfirsku efni, sögu og menningu. Leikhúsið sýnir verk sín um land allt og stendur að útgáfu hljóðbóka. Kómedíuleikhúsið einbeitir sér að einleikjaforminu og stendur árlega fyrir hinni kómísku einleikjahátíð Act alone sem vakið hefur athygli hér heima og erlendis. www.komedia.is
Þjóðahátíð Vesturlands
Á Þjóðahátíð Vesturlands, sem Félag nýrra Íslendinga stendur að, gefst gestum tækifæri til að njóta fjölbreyttrar menningar– og skemmtidagskrár, bragða á gómsætum réttum frá mörgum löndum og þiggja alls kyns fróðleik og upplýsingar um menningu og þjóðir þeirra sem taka þátt. Þjóðahátíð er orðinn fastur liður í dagskrá Vökudaga á Akranesi og Borgarnesi og laðar að sér mikinn fjölda gesta á hverju ári, enda er mikill metnaður lagður í framkvæmd hennar í góðu samstarfi við skóla, félagasamtök og íbúa á svæðinu.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember