Fara í efni  

Fréttir

ESB löndin í Norðurslóðáætluninni greiða fyrir þátttöku íslenskra aðila

Stjórn Norðurslóðaáætlunarinnar samþykkti 11. desember síðastliðinn að styðja 16 verkefni. Af þeim eru 14 með íslenskum þátttakendum og þar af eitt með íslenskum verkefnisstjóra (e. lead parter).  Heildarstyrkupphæðin sem samþykkt var á fundinum var 14,8 millj. evra og er hlutur íslenskra þátttakenda tæp 1,7 millj. evra. Alls eru  27 íslenskir aðilar þátttakendur í þessum 14 verkefnum. Í heildina eru þátttakendur í verkefnunum 92 og koma frá öllum þátttökulöndum áætlunarinnar.

Vegna öflugrar þátttöku íslenskra aðila voru einungis eftir rúmar 400 þús. evrur af 2,6 millj. evra framlagi Íslands til verkefna áætlunarinnar. Til að tryggja virka þátttöku af öllu áætlunarsvæðinu ákváðu ESB löndin   Svíþjóð, Finnland og Írland   í Norðurslóðaáætluninni að fjármagna þátttöku frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi kæmi sú staða upp að fjármunir landanna dygðu ekki.. Það liggur því fyrir að við þessa úthlutun er ráðstafað um 1,3 millj. evra til íslenskra þátttakenda af fjármunum ESB landanna. Hér er um verulegt fjármagn að ræða ef horft er til  heildarupphæðar íslenska framlagsins til áætlunarinnar allt sjö ára tímabilið 2021-2027. Um leið og þetta er til marks um þau verðmæti sem í þessu alþjóðlega samstarfi felast er ástæða til að þakka þann rausnarskap sem í ákvörðuninni er fólgin af hálfu ESB landanna.

Eftirtalin verkefni með íslenskri þátttöku hlutu stuðning:

Nordic Bridge  - Digital portal for collaborative projects to drive sustainability and innovation

Verkefnið snýst um að takast á við áskoranir á áætlunarsvæðinu, s.s. eflingu mannauðs, takmarkað samstarf háskóla og samfélags og vannýtta rannsóknarmöguleika. Komið verður upp stafrænum vettvangi til að ýta undir nýsköpun og sjálfbærni þar sem hinir ýmsu aðilar geta komið á framfæri vandamálum, áskorunum, rannsóknum og stefnumótun sem unnið er með. Efninu verður deilt meðal nemenda og annarra rannsakenda sem geta þá lagt sína þekkingu á vogarskálarnar og til orðið sameiginleg verkefni, s.s. lokaritgerðir. Samstarf milli háskóla á svæðinu styrkir þannig nemendur og rannsakendur í því að leggja sitt af mörkum við að takast á við áskoranir svæðisins. Með því að byggja þennan alþjóðlega samstarfsvettvang á Quadruple Helix módelinu á að tryggja breidd samstarfsins og að það lifi til lengri tíma.  

Þátttkendur eru Nord University (NO) sem leiðir verkefnið, Lapland University of Applied Sciences (FI), Bodo Business Forum (NO), Sligo Leitrim ITS Regional Development Projects DAC trading as AIM Centre (IE), Atlantic Technological University (IE),  Háskólinn á Hólum og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.456 þús. evrur og þar af er  íslenski hlutinn 257 þús. evrur.

CyberGrass 2.0 - Innovative tools for farmers to optimize the management of  harvested grasslands

Markmið verkefnisins er að auka notkun hátækni til að auka nákvæmni við mat á uppskerumagni og gæðum á ræktuðu graslendi. Mikilvægt er að hámarka magn og gæði í grasrækt enda um að ræða mikilvægan þátt í mjólkur- og kjötframleiðslu. Áhersla verður á þrjá þætti í verkefninu; 1) þróun aðferðafræði sem byggir á gervihnattarupplýsingum til að meta fóðurgildi og vinna uppskeruspár; 2) nýtingu drónatækni til að fylgjast með vexti og gera kleyft að uppskera á heppilegasta tíma; 3) skoða framtíðar tæknilausnir við mat á grasræktarlandi. Með alþjóðlegu samstarfi sérfræðinga og notenda og nýtingu gangagrunna er ætlunin að auka arðsemi og sjálfbærni í nýtingu auðlinda landbúnaðarins.

Þátttakendur eru Swedish University of Agricultural Sciences (SE) sem leiðir verkefnið, Rural Economy and Agricultural Society Norrbotten- Västerbotten (SE), Natural Resources Institute Finland (FI), Finnish Geospatial Research Institute in National Land Survey of Finland (FI), Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og  Svarmi ehf. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.131 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 200 þús. evrur.

BATTSi - Valorization of Industrial Waste Streams for Battery Grade Silicon

Rafgeymaframleiðsla er orðin mikilvæg starfsemi á norðurslóðum og er markmið verkefnisins er að gera svæðið leiðandi á sviði sjálfbærrar tækni á því sviði og ýta þannig undir efnahagslegan vöxt og umhverfissjálfbærni á svæðinu. Með samstarfi alþjóðlegra rannsóknarhópa, sérfræðinga innan iðnaðarins og þjónustuaðila verða skoðaðir möguleikar á að nýta staðbundin sjálfbær hráefni og hliðarstrauma í framleiðsluna. Þar er verið að horfa til sílikon ríkra hráefna, s.s. korntrefja og borholuvökva (e. geobrine). Gerð verður heildstæð greining á þeirri tækniyfirfærslu sem þarf að eiga sér stað og  unnin viðeigandi viðskiptamódel.. Greiningin mun fela í sér skilgreiningu nauðsynlegrar tækni ásamt mati á uppskölun, umhverfisáhrifum og lykil hagsmunaaðilum. Afurð verkefnisins verður vegvísir sem getur auðveldað framleiðendum á svæðinu að laga sig að hinni nýju tækni.  

Þátttakendur eru Centria University of Applied Sciences  (FI) sem leiðir verkefnið, University of Eastern Finland (FI),  University of Limerick (IE), Luleå University of Technology (SE), MACON (FI) og Háskóli Íslands.  Heildarkostnaður verkefnisins er 1.530 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 200 þús. evrur.

AMPLE – Advanced Makerspaces for PiLot  production by micro-Enterprises

Þáttaskil verða þegar eitthvað verður skyndilega mögulegt sem mikil þörf er fyrir. Með verkefninu er ætlunin að styðja frumkvöðla og takast þannig á við áskoranir svæðisins m.a. hvað varðar landfræðilega jaðarsetningu, brottflutning yngra fólks, kolefnisjöfnun og stafvæðingu. Frumkvöðlafyrirtækjum verður gert kleift að smíða frumgerðir með notkun nýjustu framleiðslutækni sem orðin er aðgengileg í stafrænum smiðjum. Áhersla er á að hlusta eftir þörfum frumkvöðla og vinna með völdum hópi við að takast á við áskoranirnar. Fjölþjóðlegum tengingum verður komið á milli öndvegissetra á sviði efnisfræði, rafeindafræði, tæknismiðja (FabLabs) og fleiri greina og við frumkvöðla.

Þátttakendur eru University of  Galway (IE) sem leiðir verkefnið, Centria University of Applied Sciences (FI), Oulu University of Applied Sciences (FI), Mint-Tek (IE),  Manorhamilton Innovation & Development CLG T/A Future Cast (IE) og Háskóli Íslands.  Heildarkostnaður verkefnisins er 1.499 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 200 þús. evrur.

InnoGS - Innovation Through Gamification Solutions

Verkefnið snýst um að nýta tölvuleikjanálgun og stafvæðingu til að ná til yngra fólks og efla þannig og viðhalda hæfni sem nýtist bæði í einkageiranum og þeim opinbera. Komið verður upp tilraunaverkefnum þar sem sköpuð verður aðstaða til að þróa staðbundin frumkvöðlavistkerfi (e. innovation ecosystems). Megin afurðir verkefnisins verða þjálfunarefni og lausnir sem geta nýst bæði opinberum aðilum og í atvinnulífinu ásamt bættum fjarskiptainnviðum. Alþjóðlegt samstarf ýtir undir þekkingarmiðlun og hjálpar til við að sníða lausnir að mismunandi aðstæðum og styður þannig við  seiglu svæða og örvar efnahagsleg og samfélagsleg tækifæri í dreifbýli.

Þátttakendur eru Savonia University of Applied Sciences (FI) sem leiðir verkefnið, Region Västerbotten (SE), Creative Crowd AB (SE), Galway Film Resource Centre CLG t/a Ardán (IE), Humak (FI), Government of Greenland (GL) og Háskóli Íslands. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.604 þús. evrur og þar ef er íslenski hlutinn 160 þús. evrur.

RemoTED -  Digital and Technological Social and Healthcare enhanced delivery in Remote areas

Forverkefni leiddi í ljós að þekkingarskortur og meðfylgjandi óöryggi skapaði áskoranir varðandi aukna notkun stafrænna fjarvinnslulausna í heilbrigðis- og félagsmálakerfinu. Fagfólk þarfnast meiri þjálfunar og leikni í nýtingu tæknilausna. Þessu verkefni er ætlað að bæta þjónustu heilbrigðis- og félagsmálakerfisins með aukinni áherslu á stafvædda þjónustu í dreifbýli. Í samstarfi við rekstraraðila innan kerfanna verður boðið upp á þjálfun til að styrkja stafræna hæfni og útbúin stafræn tilraunaverkefni.. Væntur árangur er aukin geta fagfólks við notkun tæknilausna sem til lengri tíma mun bæta þjónustuna í dreifbýlinu og minnka vinnuálag fagstétta.

Þátttakendur eru Lapland University of Applied Sciences (FI) sem leiðir verkefnið, Karelia University of Applied Sciences (FI), Atlantic Technological University (IE) og Háskóli Íslands. Heildarkostnaður er 1.500 þús. evrur og þar ef er íslenski hlutinn 200 þús. evrur.

BOCOD - Boosting Continuity and Digitalisation of Rural Region Businesses

Verkefninu er ætlað að takast á við áskoranir fyrirtækja í dreifbýli sem rekja má til  landfræðilegrar einangrunar, öldrunar íbúa og erfiðleika við eigenda- /kynslóðaskipti innan þeirra. Byggt er á fyrra NPA verkefni og boðið upp á nýja nálgun til að styrkja sjálfbærni smáfyrirtækja m.a. með því að styðja við stafræna þróun þeirra. Þannig verði þau gerð samkeppnishæfari og um leið aðgengilegri fyrir nýja eigendur til að taka við rekstrinum. Verkefnið er að bregðast við nýjum aðstæðum fyrirtækja , s.s. hvað varðar vinnutíma, fjarvinnu og áhrif gervigreindar en til að blómstra þurfa fyrirtækin að laga sig hinu nýja tækniumhverfi og breytingum á væntingum starfsmanna. Meðal afurða verkefnisins verður greining á þeim björgum sem til staðar eru, stafræn færniþjálfun og kennsluefni um hvernig best verði stuðlað að samfellu í rekstri fyrirtækja við eigenda- / kynslóðaskipti.     

Þátttakendur eru Munster Technological University (IE) sem leiðir verkefnið, Lapland University of Applied Sciences Ltd (FI), Business Joensuu Ltd. (FI), University of Oulu (FI), Austurbrú og Vestfjarðastofa.  Heildarkostnaður er 1.500 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 200 þús. evrur.

GIFT – Geographical Indication boosting Food, Non-food and Tourism sectors in Northern areas

Starfsumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á svæðinu er krefjandi vegna þátta eins og fjarlægðar frá mörkuðum, lítils sýnileika og vanda við að fá  sanngjarnt  verð fyrir gæðaframleiðslu. Upprunatilvísanakerfi Evrópusambandsins (e. EU‘s geographical indication (GI) scheme) gæti nýst til að vernda framleiðsluheiti, draga fram sérkenni, styðja við betri verð og tengja framleiðsluna við uppruna sinn. Notkun kerfisins er hins vegar minni á NPA svæðinu en annars staðar Evrópu en markmið verkefnisins er að styrkja samkeppnishæfni og sýnileika lítilla og meðalstórra fyrirtækja á svæðinu, ýta undir samstarf þeirra á milli og koma svæðinu betur á framfæri á mörkuðum með aukinni notkun á upprunatilvísanakerfinu. Efnt verður til samstarfs milli landa og innan svæða til að styðja við umsóknir um upprunatilvísun og einnig horft til þess að ferðaþjónustan nýti sér kerfið. Áhersla verður á vitundarvakningu um möguleika kerfisins, opnun nýrra markaða og keyrð verður tilraunaumsókn.

Þátttakendur eru University of Helsinki Ruralia Institute (FI) sem leiðir verkefnið, Icelandic Lamb (IS), Local Enterprise Office, Donegal County Council (IE), Ministry of Agriculture, Self-Sufficiency, Energy and Environment (GL) og Íslenskt lambakjöt. Heildarkostnaður er 1.027 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 289 þús. evrur.

Sustainable SMEs – Sustainability reporting enhancing SMEs' market reach, competitiveness, and sustainable growth

Stór fyrirtæki á hlutbréfamarkaði innan ESB þurfa að skila heildstæðri sjálfbærniskýrslu (EnvironmentalSocialGovernance report = ESG) með hefðbundnu ársuppgjöri fyrir 2025. Þetta gerir m.a. kröfu um slíka skýrslugerð fyrir alla aðfangakeðjuna, þ.m.t. fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þó ýmis verkfæri séu á markaðnum þeim til aðstoðar er skýrslugerðin áskorun sem þau þarfnast aðstoðar við. Markmið verkefnisins er því að auka skilning fyrirtækja á skýrslugerðinni og sjálfbærninni sem slíkri. Hvatt verður til sameignlegra lausna lítilla og meðalstórra fyrirtækja varðandi nauðsynlega skýrslugerð ásamt því að dreifa þekkingu á sviði sjálfbærni og skýrslugerðar þar um.  

Þátttakendur eru Jamk University of Applied Sciences (FI) sem leiðir verkefnið, BioFuelRegion (SE), Sligo Leitrim ITS Regional Development Projects DAC, operating as the AIM Centre (IE), Irish Wood and Interiors Network CLG (IE) og Háskóli Íslands. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.395 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 100 þús. evrur.

RIAQ - Retrofitting for Improved Air Quality: promoting sustainable and healthy homes

Verkefnið snýr að því að bæta orkunýtingu á svæðinu með því að bæta loftgæði og rakastig í endurbyggðum húsum og bæta þannig vistgæði þeirra. Í samræmi við gildandi evrópureglur á sviðinu verða þróaðar og kynntar praktískar lausnir á sviði sjálfbærrar endurbyggingar í samstarfi við byggingaraðila, hið opinbera og íbúa til að tryggja sem víðtækasta aðlögun og hlítni við gildandi lög og reglur. Með alþjóðlegu samstarfi er opnað á yfirfærslu og skölun lausna á milli svæða sem styðja við hringrásarhagkerfið og aukna sjálfbærni bygginga til lengri tíma. Væntar afurðir verkefnisins eru bættar aðferðir við endurbyggingu húsa sem auka muni lífgæði þeirra sem í þeim búa og leiða til aukinnar samvinnu ólíkra aðila um heilbrigðara og sjálfbærara manngert umhverfi.    

Þátttakendur eru University of Oulu (FI) sem leiðir verkefnið, University of Galway (IE), Umeå University (SE), Finnish Institute for Health and Welfare (FI), Háskóli Íslands og VERKVIST.  Heildarkostnaðar verkefnisins er 1.496 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn170 þús. evrur.

RETURN – Regenerative Economic Transfers for Universal  Resilience in the North

Í verkefninu verður tekist á við þá sameiginlegu áskorun sem felst í því að afrakstur ferðaþjónustunnar er oft ekki að skila sér til nærsamfélagsins. Markmiðið er að skilgreina skilvirk tekjumódel sem styðja við nærsamfélagið og umhverfið. Með því að setja fram og kynna mismunandi skattlagningarmódel gagnvart ferðaþjónustunni er ætlun verkefnisins að setja fram skilgreinda kosti um það hvernig auka megi afrakstur nærsamfélagsins af ferðaþjónustunni. Settir verða fram stefnukostir, drög að lagarömmum og aðgerðum sem tl þess eru fallnar að valdefla samfélögin og viðkomandi stjórnvöld. Með áherslu á breytta skiptingu afraksturs greinarinnar sem drifkrafts sjálfbærrar ferðaþjónustu og seiglu viðkomandi samfélaga nálgast verkefnið sameignlega áskorun svæðisins, á nýstárlegan hátt. 

Þátttakendur eru University of Lapland (FI) sem leiðir verkefnið, Munster Technological University (IE), Leave No Trace Ireland (IE), University of Greenland (GL), University of the Faroe Islands (FO), Mid Sweden University (SE) og Háskólinn á Akureyri. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.600 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 187 þús. evrur.

NACEMAP - Northern and Arctic Communities Emergency Management and Preparedness

Neyðarstjórnun er sameiginleg áskorun á svæðinu og  snýr verkefnið að því að aðstoða samfélögin á svæðinu við að aukaseiglu gagnvart hamförum með sjálfsmati og þróun áætlana til að takast á við neyðartilfelli. Greindar verða bestu aðferðir til forvarna, viðbrögð við atburðum og endurheimt í kjölfar atburða, staðbundið en einnig á svæðis- og landsvísu og alþjóðlega. Nálgunin verður í gegnum vinnustofur með staðbundnum stjórnvöldum, fulltrúum almennings, viðbragðsaðilum og öðrum lykilaðilum. Afurðir vinnustofanna verða m.a. kortlagning og greining mismunandi viðbragða þar sem bestu lausnum verður miðlað meðal þátttakenda og skilgreindra markhópa. Afurð verkefnisins verður í formi tilraunaverkpakka í þremur hlutum; sjálfsmat og yfirferð á forvörnum, viðbragðsáætlun í hamförum og endurheimt sem viðvarandi ferli til styrkingar seiglu samfélaganna.          

Þátttakendur eru Munster Technological University (IE) sem leiðir verkefnið, Laurea University of Applied Sciences (FI), Ambipar Response Ltd (IE), University of Akureyri (IS), The Finnish National Rescue Association (FI), Háskólinn á Akureyri og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.500 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 198 þús. evrur.

FORESTCARBOVISION – Empowering Communities through Forest Carbon Farming: Building Climate Resilience and Sustainable Resource Management

Verkefnið mun takast á við þá umhverfisáskorun sem felst í því að þróa og innleiða sjálfbærni í kolefnisbindandi skógrækt. Með notkun nýjustu tækni á því sviði er markmiðið að bæta kolefnisbindingu og vernda líffræðilega fjölbreytni í þátttökulöndunum fjórum. Þróuð verður framsækin aðferðafræði til kolefnismælinga, skapalón til yfirfærslu bestu lausna og keyrð tilraunaverkefni á mismunandi stærðarskala. Helstu haghafar eru m.a. skógareigendur, umhverfisstofnanir og stefnumótunaraðilar. Alþjóðlegt samstarf er grundvallar atriði í því að miðla mismunandi sérþekkingu þannig að unnt sé að laga lausnir að mismunandi vistkerfum. Sérstaða verkefnisins liggur í þátttökuaðferð þess, þar sem hagnýt verkfæri og aðferðir eru hönnuð í samvinnu við hagsmunaaðila frá opinberum stofnunum, rannsóknar­stofnunum, frjálsum félagasamtökum og einkaaðilum, sem tryggir víðtæka innleiðingu og áhrif um allt svæðið.

Þátttakendur eru Natural Resources Institute Finland (FI) sem leiðir verkefnið, UiT, The Arctic University of Norway (NO), Oulu University of Applied Sciences (FI), GREEN SKIBBEREEN (IE), og Landbúnaðarháskóli Íslands. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.199 þús. evrur og  þar af er íslenski hlutinn 212 þús. evrur.

REGENERATE - Regenerative Tourism in the Northern Periphery and Arctic for building resilient communities and preserving the unique heritage of the region

Umhverfið á svæði Norðurslóðaáætlunarinnar er viðkvæmt og næmt fyrir áhrifum aukinnar ferðaþjónustu, sem þegar hefur haft þar neikvæð umhverfisáhrif. Því er stefnubreyting í átt að endurnýjandi (e. regenerative) ferðaþjónustu nauðsynleg, sem byggir á sjálfbærri nálgun og hefur að markmiði að endurheimta og endurnýja þau svæði sem ferðamenn sækja heim. Nálgunin gengur lengra en að lágmarka neikvæð áhrif og kappkostar að ná fram jákvæðum áhrifum fyrir áfangastaðina og fólkið sem þar býr. Virkt samstarf einkaaðila og hins opinbera er nauðsynlegt til að byggja upp síka markmiðsmiðaða ferðaþjónustu. Áskorunin felst í að kynna  endurnýjandi ferðaþjónustu, valdefla aðila og samþætta aðferðafræðina daglegum rekstri. Verkefnið mun byggja upp getu, stefnumörkun og markaðssetningarlausnir sem geta stuðlað að  endurnýjun náttúrulegra, efnahagslegra og menningarlegra auðlinda og skapa þannig fordæmi um uppbyggingu sjálfbærrar framtíðar.  

Þátttakendur eru Visit Reykjanes sem leiðir verkefnið, Reykjanes jarðvangur, Olemisen Balanssia ry (FI), Karelia University of Applied Sciences (FI), Gold of Lappland economic association (SE) og Cuilcagh Lakelands UNESCO Global Geopark (IE). Heildarkostnaður verkefnisins er 1.194 þús. evrur og þar af er íslenski hlutinn 200 þús. evrur.

 

Norðurslóðaáætlunin (Northern Periphery and Arctic Programme) er samstarfsvettvangur Evrópusambandsríkjanna Írlands,  Svíþjóðar og Finnlands og svo Noregs, Íslands, Grænlands og Færeyja. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að samstarfsverkefnum milli landanna sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum áskorunum á sviði atvinnu- og byggðaþróunar og er núgildandi áætlunartímabil 2021-2027.

 


Til baka

Fréttasafn

2025
janúar
2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389