Fara í efni  

Fréttir

Er virk byggðastefna á Íslandi?

Nú í aðdraganda kosninga heyrist því stundum haldið fram að ekki sé byggðastefna á Íslandi, eða þá að ef hún sé fyrir hendi þá sé hún í öllu falli arfavitlaus, og mætti þannig álykta að um hana væri mikill ágreiningur.  En svo er ekki þegar betur er að gáð.  Byggðastefna stjórnvalda er sett fram í formi þingsályktunar á Alþingi til 4 ára í senn, nú síðast fyrir um einu ári síðan fyrir árin 2006-2009.

Lögum samkvæmt var hún lögð fram af ráðherra byggðamála.  Við meðferð  hennar í þinginu komu fram ýmsar breytingatillögur af hálfu þingflokkanna, og voru þær flestar teknar til greina.  Var þingsályktunartillagan svo samþykkt samhljóða af öllum flokkum í atkvæðagreiðslu í þinginu þann 3. júní 2006.  Það er því ljóst að ekki er mikill pólitískur ágreiningur um málefnið.  Byggðaáætlun er öllum aðgengileg, m.a. á vef Byggðastofnunar.  Meginmarkmið hennar er að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla samkeppnishæfi landsins alls í alþjóðlegu umhverfi.  Eitt megin hlutverk Byggðastofnunar er að framfylgja byggðaáætlun í samvinnu við þau ráðuneyti, stofnanir og einkaaðila sem við á hverju sinni, og vinna að framkvæmd þeirra verkefna sem í henni eru skilgreind til að ná markmiðum hennar.  Verkefnin lúta flest á einn eða annan hátt að eflingu innviða samfélagsins, framkvæmd vaxtarsamninga, eflingu menntunar með áherslu á aðgengi að menntun óháð búsetu, bættar samgöngur, fjarskipti, eflingu tækniþróunar og nýsköpunar auk þess sem margt fleira mætti nefna.  Meðal stærstu verkefna Byggðastofnunar nú er að annast framkvæmd vaxtarsamninga, söfnun og úrvinnsla tölfræðiupplýsinga um byggðaþróun og athugun á stöðu byggðarlaga sem búa við viðvarandi fólksfækkun. 

Einn mikilvægasti þátturinn í starfi íslenskra stjórnvalda að byggðaþróunarmálum er rekstur kröftugs atvinnuþróunarstarfs á landsbyggðinni.  Byggðastofnun hefur yfirumsjón með þessu starfi.  Í lögum um Byggðastofnun er kveðið á um að stofnunin skipuleggi og vinni að ráðgjöf við atvinnuvegi á landsbyggðinni í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin skal gera samninga við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði. Í því skyni hefur Byggðastofnun gert samninga við átta atvinnuþróunarfélög sem öll tengjast landshlutasamtökum sveitarfélaga þó rekstur þeirra og starfsemi sé mismunandi.  Atvinnuþróunarfélögin veita ráðgjöf við stofnun og rekstur fyrirtækja á starfssvæðinu, svo sem markaðssókn, vöruþróun, fjármögnun, kynningu, endurskipulagningu, erlend samskipti o.fl.  Áhersla skal að jafnaði lögð á nýstofnuð fyrirtæki, fyrirtæki í nýjum atvinnugreinum og fyrirtæki sem hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf lítilla byggðarlaga.  Félögin veita upplýsingar um mögulega fyrirgreiðslu og aðstoð annarra aðila og leita samstarfs við stofnanir í stoðkerfi atvinnulífs, fyrirtæki og aðra aðila sem vinna ráðgjafar- og leiðbeiningarstarf í atvinnumálum. Atvinnuþróunarfélögin vinna í samstarfi við sveitarfélög, opinbera aðila og félagasamtök að eflingu búsetuþátta, sem m.a. snúa að samgöngum, verslun og þjónustu, húsnæðismálum, félagslegu umhverfi, menntunar- og menningarmálum. Í fjárveitingu til félaganna er einnig gert ráð fyrir verkefnastyrkjum, og geta atvinnuþróunarfélögin sótt um stuðning við sérstök verkefni á sviði atvinnu- og byggðaþróunar á starfsvæði sínu.

Annar megin þáttur í starfsemi stofnunarinnar er svo fjármögnunarstarfsemi, einkum útlánastarfsemi.  Megintilgangur hennar er að tryggja atvinnulífi á starfssvæði stofnunarinnar aðgengi að lánsfé óháð staðsetningu.  Byggðastofnun er hluti af stoðkerfi atvinnulífsins.   Henni er ætlað að vega upp skort á aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að lánsfjármagni á grundvelli byggða- og atvinnuþróunarsjónarmiða, og vinna að eflingu byggðar og og nýsköpun atvinnulífs á landsbyggðinni.  Hún er ekki í samkeppni við viðskiptabanka og sparisjóði, og raunar eru flest verkefni sem stofnunin kemur að á þessu sviði í góðu samstarfi við þessa aðila.   Eðli máls samkvæmt er því rekstur útlánastarfsemi hennar bundinn meiri áhættu en annarra lánastofnana.

Við lifum á tímum örra þjóðfélagsbreytinga og alþjóðavæðingar, og þess sjást skýr merki í atvinnulífi á landsbyggðinni.  Störfum í frumvinnslugreinunum hefur fækkað verulega og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.  Það á að vera meginviðfangsefni okkar að takast á við þessi verkefni á þeim forsendum að breytingar og vaxandi alþjóðavæðing séu ekki ógnun, heldur tækifæri.  Ef samfélagið hefur sameiginlega sýn á framtíð sína, sýn sem byggist á gagnkvæmu trausti og sterkum innviðum, ásamt opinberri stefnumótum sem tryggir borgurum landsins jafnræði óháð búsetu, þá þurfa íbúar landsbyggðarinnar ekki að kvíða óhjákvæmilegum breytingum í samfélagsgerðinni.

Aðalsteinn Þorsteinsson
forstjóri Byggðastofnunar


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389