Fara í efni  

Fréttir

Er stoðkerfi atvinnulífsins fjandsamlegt konum?

Herdís Sæmundardóttir, formaður stjórnar Byggðastofnunar hélt á dögunum erindi á Landsþingi LFK á Ísafirði þar sem þessari spurningu var velt upp.  Þar kom m.a. fram að opinbert stuðningskerfi atvinnureksturs er býsna fjölbreytilegt og margir aðilar sem vinna að atvinnuþróun og aðstoð við stofnun fyrirtækja. Ekki virðist þurfa að bæta við þá flóru. Það er hins vegar spurning hvort það sé ekki ástæða til að einfalda þetta kerfi og samhæfa þá krafta sem eru að vinna að atvinnumálum almennt og þar með talið atvinnumálum kvenna.  Erindi Herdísar kemur hér á eftir.

Ég vil byrja á því að þakka það tækifæri að fá að fjalla um stoðkerfi atvinnureksturs kvenna. Það hefur lengi verið mér hugleikið. Ég vil líka ljúka lofsorði á að LFK skuli velja atvinnurekstur og atvinnuþátttöku kvenna sem meginþema á þessum opna fundi og leggja sitt að mörkum til þess brýna verkefnis sem er að leita leiða til að auka hlut kvenna sem sjálfstæðir atvinnurekendur og treysta þannig atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar til framtíðar.

 

Ein af meginforsendum framþróunar í heiminum er bætt staða kvenna á öllum sviðum mannlífsins, hvort sem er á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála eða á öðrum sviðum og einn af lyklunum að þessari  framþróun,  þar með talið frekari uppbyggingu atvinnulífs okkar Íslendinga og efnahagslegrar hagsældar þjóðarinnar, er stofnun og rekstur fyrirtækja á forsendum kvenna og í eigu kvenna.

 

Konur, ekki síður en karlar þessa lands, búa yfir mikilli reynslu, hugmyndum og sköpunarþörf sem samfélagið hefur ekki efni á  að láta vannýtt. Um allan hinn vestræna heim hefur litlum fyrirtækjum í eigu kvenna fjölgað verulega og er umtalsverður vaxtarbroddur í atvinnulífi þjóða. Ísland er engin undantekning í þessu tilliti, þótt enn sé mikill kraftur íslenskra kvenna óbeislaður. Hvert sem litið er má sjá að konur hafa mikinn vilja til að nýta sér reynslu sína og hugvit í þeim tilgangi að skapa sjálfum sér og öðrum atvinnu og lífsviðurværi. Hin mikla sókn í styrki til atvinnumála kvenna - um 200 umsóknir uppá nokkur hundruð milljónir árlega - sýnir svo ekki verður um villst að mikil gerjun er hjá konum og oft eru hugmyndirnar agnarsmáar í byrjun og verða síðan - ef vel er á haldið - að einhverju stærra.  Það er afar brýnt að byggja áfram á þessum vilja og krafti og auðvelda konum að stofna sín eigin fyrirtæki sem byggja á þeirra eigin hugmyndum, m.ö.o. að fóstra þessar agnarsmáu hugmyndir þar til þær verða að arðbæru fyrirtæki.

 

Konur þessa lands gera sér skýra grein fyrir því að leiðin að fullu jafnrétti kynjanna, þar með talið að útrýmingu kynbundins launamunar er að konur og karlar deili til jafns með sér ábyrgð á stjórnun og rekstri samfélagsins, bæði á opinberum vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu sem og í einkageiranum, sameinist um framtíðarmótun þess á jafnréttisgrundvelli og njóti sömu möguleika og hvatningar til að viðhalda og byggja upp öflugt atvinnulíf sem sjái öllum vinnufúsum höndum fyrir störfum við hæfi.

 

En njóta konur sömu möguleika og hvatningar og karlar til atvinnusköpunar? Er það stuðningskerfi sem við höfum búið atvinnulífinu jafn aðgengilegt konum sem körlum? Atvinnuþátttaka kvenna er nær jafn mikil og atvinnuþátttaka karla, hlutfall starfandi kvenna árið 1999 var þannig rétt rúm 80%  á móti rúmlega 88% starfandi karla. Í OECD löndunum var á sama tíma atvinnuþátttaka kvenna 55.4% á móti 76.6% atvinnuþátttöku karla. Framlag kvenna til tekjuöflunar íslensku þjóðarinnar er þess vegna umtalsvert meiri en gerist almennt í hinum vestræna heimi. Þetta framlag kvenna hefur m.a. átt sinn þátt í því að skipa Íslendingum í röð ríkustu þjóða heims. Það er í þessu ljósi afar undarlegt, svo ekki sé sterkara til orða tekið, að fyrirtæki í eigu kvenna eða rekin af konum skuli einungis vera rétt um 20% af öllum fyrirtækjum í landinu og almennt séð eru þau fyrirtæki sem konur reka eða eiga í minni kantinum, þ.e.a.s. fyrirtæki sem kallast geta stór á íslenskan mælikvarða eru í miklum meirihluta í eigu og undir stjórn karla.

 

Hvað er það sem veldur? Er skýringa á þessu að leita í fari okkar kvenna? Erum við ekki nógu djarfar, áræðnar, hugmyndaríkar eða klókar? Er hið opinbera stuðningskerfi íslensks atvinnulífs kannski ekki eins opið konum og körlum? Eða getum við leitað skýringa í hinu menningarlega og félagslega umhverfi atvinnurekstrar á Íslandi? Ég býst við að við getum við leitað skýringa víða á því hvers vegna konur reka einungis um fimmtung íslenskra fyrirtækja. En hverjar sem þær skýringar eru þá er það sameiginlegt verkefni okkar kvenna og karla að útrýma þeim hindrunum sem í veginum eru fyrir því að konur standi jafnfætis körlum á þessu sviði eins og öðrum.

 

Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að opinbert stuðningskerfi íslensks atvinnulífs er í raun býsna fjölbreytilegt. Við höfum ýmsar stofnanir með mismunandi hlutverk, sumar eingöngu ætlaðuð konum en aðrar sem ætlaðar eru bæði konum og körlum. Lítum aðeins á:

 

Glærur 1.  

 

Lánatryggingasjóður kvenna

  • Sjóður sem veitir tryggingar fyrir lánum til handa konum í atvinnurekstri
  • Sjóðurinn sameiginlegt verkefni félagasmálaráðunyetis, iðnaðar- og  viðskiptaráðuneytis og Reykjavíkurborgar.
  • Landsbanki veitir tryggingar fyrir láninu að hálfu á móti sjóðnum
  • 20 mj. árlega til ábyrgðaveitinga
  • Ætlað konum óháð búsetu
  • (Í endurskoðun)

 

Styrkir til atvinnumála kvenna        

  • Markmið að draga úr atvinnuleysi meðal kvenna
  • Sjóðurinn er á vegum félagsmálaráðuneytisins
  • Efla atvinnulíf í dreifbýli og auka fjölbreytni í atvinnulífi
  • Auðvelda aðgang kvenna að fjármagni
  • 25 mj. árlega
  • Ætlað konum óháð búsetu

 

Atvinnu- og jafnréttisráðgjafar Byggðastofnunar félagsmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis.

  • 2 atvinnuráðgjafar hafa verið starfandi, annar á norðausturhorninu og hinn á suðurlandi.
  • Samningi um verkefni lýkur um áramót
  • (Í endurskoðun)

 

Brautargengi

  • Impra - nýsköpunarmiðstöð heldur námskeið fyrir konur sem vilja hrinda viðskiptahugmynd sinni í framkvæmd
  • Verkefnið stutt af félagsmálaráðneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

 

Félag kvenna í atvinnurekstri

  • Markmið að stuðla að sasmstarfi kvenna í atvinnurekstri og mynda markhóp gagnvart bönkum og lánastofnunum
  • Iðnaðar- ov viðskiptaráðuneytið kostar starfsmann sem sér um útgáfu fráttabréfa o.fl.

 

Fósturlandsins freyjur

  • Atvinnuskapandi verekfni vegum Byggðastofnunar ætlað konum
  • Hafa mætt þörfum hinna dreifðu byggða mjög vel og nýst konum í sveitum
    vel en dulið atvinnuleysi er oft á tíðum nokkuð meðal þess hóps.
  • NPP verkefni

 

Máttur kvenna

  • 11 vikna rekstrarnám á vegum Viðskiptaháskólans á Bifröst ætlað konum í atvinnurekstri
  • Námið styrkt af Byggðastofnun og Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
  • Ætlað konum á landsbyggðinni

 

Lifandi landbúnaður

  • Grasrótarhreyfing kvenna í landbúnaði.
  • Kostað af fjárlögum, Bændasamtökunum og styrkjum
  • Námskeiðahald af ýmsum toga

 

Menntasmiðjur kvenna á vegum Símenntunarmiðstöðva

 

  • Að mestu leyti fjármagnað af ríki og sveitarfélögum

Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands

  • Markmið að efla og samhæfa jafnréttisrannsóknir
  • Að miðla þekkingu á sviði kvenna- og kynjafræða o.fl.

 

Ekki skal ég fullyrða að þessi upptalning sé alveg tæmandi um það opinbera stoðkerfi sem vinnur í þágu kvenna sérstaklega. Eflaust er ástæða til að nefna fleiri verkefni eins og til dæmis lofsvert frumkvæði iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem hefur beitt sér fyrir fjölgun kvenna í stjórnun og rekstri fyrirtækja í einkageiranum. Þá ber einnig að nefna ný lög um fæðingarorlof sem ætti að auðvelda konum atvinnuþátttöku hvort sem er sem launamaður eða sjálfstæður atvinnurekandi.

 

En auk þessara sérgreindu kvennaverkefna eru svo ýmsir sjóðir og stofnanir sem vinna að atvinnuþróun almennt og veita aðstoð af ýmsum toga til handa íslenskum fyrirtækjum.

 

Glærur 2

 

  • Byggðastofnun
  • Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins
  • Atvinnuþróunarfélög landshlutanna
  • Impra – nýsköpunarmiðstöð
  • Framleiðnisjóður landbúnaðarins
  • Eignarhaldsfélög landshlutanna
  • o.fl.

 

Eins og sjá má á þessari upptalningu þá eru stuðningsúrræðin býsna mörg og fjölbreytileg. Þess má einnig geta að aðgengi að fjármagni almennt í samfélaginu hefur aukist umtalsvert og umhverfi lánastofnana hefur gjörbreyst frá því t.d. að Lánatryggingasjóður kvenna var stofnaður árið 1997.

 

En þrátt fyrir allt þetta sýna kannanir að hlutur kvenna í atvinnurekstri hefur ekki aukist að neinu ráði. Hvað er það sem veldur?

 

Á undanförnum árum hafa ýmsar rannsóknir farið fram bæði hérlendis og erlendis á því hvers vegna konur eru í svona miklum minnihluta í fyrirtækjarekstri eins og raun ber vitni um. Flestar þessar rannsóknir hafa beinst að þáttum eins og samfélagslegum viðhorfum til atvinnureksturs kvenna, félagslegri stöðu kvenna þar með talin fjölskylduábyrgð, sem enn virðist hvíla talsvert þyngra á konum en körlum og síðast en ekki síst hafa þessar rannsóknir beinst að ýmsum eiginleikum sem skilgreindir eru sem kvenlægir og sem taldir eru hindranir í vegi þeirra til sjálfstæðs atvinnureksturs. Það hefur hins vegar lítið verið skoðað hvernig sjálft stoðkerfið virkar gagnvart konum, hvort innra skipulag þess og starfshættir stofnana sem vinna að stuðningi við atvinnulífið fæli konur hugsanlega frá því að sækja sér stuðning og ráðgjöf. Eitt af því sem bent hefur verið á í þessu sambandi er að konur séu í miklum minnihluta þeirra úthlutunarnefnda og ráða sem stýra opinberu  fjármagni til atvinnurekstrar.

 

Í haust er leið var Ísland aðili að ítarlegri Evrópurannsókn á eignhaldi kvenna í atvinnurekstri og landbúnaði. Byggðastofnun fyrir hönd iðnaðar- og viðskiptaráðherra vann að þessari rannsókn. Í henni er m.a. enn eina ferðina staðfest að konur eru í miklum minnihluta hvað varðar eignarhald í atvinnurekstri. Í kjölfar kynningar á rannsókninni fól iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, Byggðastofnun að gera úttekt á árangri verkefna til stuðnings konum í atvinnurekstri. Um þessar mundir eru niðurstöður úr þessari úttekt að koma. Ég geri ráð fyrir að ráðherra muni sjálf kynna þær á næstu vikum, en ég hef fengið góðfúslegt leyfi hennar til að birta nokkrar niðurstöður.

 

Glærur 3.

 

  • Lang flest fyrirtækin sem þátt tóku í könnuninni eru mjög lítil, rúmlega þriðjungur þeirra er einungis með einn starfsmann og yfir helmingur með á bilinu 2-9 fastráðna starfsmenn.
  • Um 22% svarenda sögðust hafa sótt um styrk, lán eða hlutafé til opinberra sjóða eða stofnana ti lstyrktar rekstri eða stofnun fyrirtækis.
  • Nærri þriðjungur þeirra svarenda sem ekki höfðu sótt um lán, styrk eða hloutafé höfðú ekki gert það vegna þess að þeir vissu ekki að þeir gætu sótt um eða hv ar þeir gætu sótt um.
  • Milli 60 og 70% þeirra sem sóttu um styrk eða hlutafé sögðust hafa fengið það sem þau sóttu um.
  • Tæp 80% þeirra sem ekki fengu styrk/lán/hlutafé sögðu það hafa haft áhrif á rekstur fyrirtækisins.
  • Tveir þriðju hlutar svarenda töldu mikla þörf fyrir að breyta áherslum til styrktar konum í atvinnurekstri. Ýmsar hugmyndir voru nefndar í þeim efnum en flestir töldu mikilvægt að vera með sérstaka stofnstyrki fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki.
  • Margir nefndu einnig að mikilvægast væri að jafnræðis væri gætt, að konur fengju sannanlega sömu tækifæri og karlar
  • Sá einstaki þáttur sem svarendur töldu að væri líklegastur til að hvetja konur til aukinnar þátttöku í atvinnurekstri var aukin ráðgjöf.

 

Eins og fram hefur komið, þá er opinbert stuðningskerfi atvinnureksturs býsna fjölbreytilegt og margir aðilar sem vinna að atvinnuþróun og aðstoð við stofnun fyrirtækja. Ekki virðist þurfa að bæta við þá flóru. Það er hins vegar spurning í mínum huga hvort það sé ekki ástæða til að einfalda þetta kerfi og samhæfa þá krafta sem eru að vinna að atvinnumálum almennt og þar með talið atvinnumálum kvenna. Það er líka spurning í mínum huga hvort hvort það stuðningskerfi sem við búum við sé nógu sterkt almennt og hvort það hefur úrræði og leiðir sem duga til að vera sá sterki bakhjarl atvinnureksturs kvenna sérstaklega sem það þyrfti að vera.

 

Það kom fram á glæru sem ég sýndi hér áðan að starfsemi Lánatryggingasjóðs kvenna sem og starfsemi atvinnu- og jafnréttisráðgjafa Byggðastofnunar er til endurskoðunar nú um þessar mundir. Jafnframt fer nú fram endurskoðun á hlutverki og starfsemi Byggðastofnunar. Það gefst þess vegna einstakt tækifæri nú til að endurskoða þetta stoðkerfi atvinnureksturs kvenna með það að leiðarljósi að styrkja það og samhæfa, gera það skilvirkara og markvissara. Ég tel að sú endurskoðun eigi að leiða til þess að það verði með skýrari hætti tengt hinu almenna stoðkerfi atvinnulífsins.

 

En til að svara þeirri spurningu sem ég setti fram í heiti þessa erindis ,,Er stoðkerfi atvinnulífsins fjandsamlegt konum?” þá held ég að allir þeir sem vinna í þessum geira hafi fullan vilja  til að vinna jafnt að stuðningi við atvinnurekstur kvenna sem karla og hafi skilning á mikilvægi þess að nýta hugmyndir kvenna til atvinnureksturs betur en nú er gert og að því leyti sé stoðkerfið ekki fjandsamlegt konum. Það er hins vegar að mínum dómi hvoru tveggja þörf á að endurskoða og endurskilgreina ytri umgjörð hins almenna stoðkerfis atvinnulífsins sem og hið innra skipulag þess. Það er þörf á að fara yfir starfshætti, skilgreiningar, verkferla, viðmið og jafnvel orðanotkun svo eitthvað sé nefnt, í þeim tilgangi að laða konur með góðar viðskiptahugmyndir að. Stoðkerfið sjálft þarf að vera meðvitaðra um þá möguleika sem hugmyndir og viðhorf kvenna til atvinnusköpunar og reksturs fyrirtækja fela í sér.

 

Ég velkist ekki í neinum vafa um – og veit það fyrir víst - að bæði félagsmálaráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa fullan vilja til leita allra leiða til þessa að stoðkerfi atvinnulífsins þjóni betur því hlutverki að aðstoða konur í atvinnurekstri og vil nota þetta tækifæri til að brýna ráðherra okkar til að taka þetta mikilvæga verkefni föstum tökum.

 

Góðir fundargestir.

 

Hvernig sem á málin er litið þá er ljóst að kraftar kvenna til nýsköpunar og eflingar efnahagslífsins nýtast ekki eins og þeir ættu að gera og alls ekkert í líkingu við krafta karla. Það er engan vegin ásættanlegt að konur skuli einungis vera fimmtungur þeirra sem eiga og reka fyrirtæki á Íslandi í dag og þessu þarf að breyta. Hagkerfi vesturlanda og þar með okkar Íslendinga þarfnast nýrra hugmynda og leiða til atvinnusköpunar og aukinn hagvöxtur er þjóðum eftirsóknarverður og nauðsynlegur í samkeppni þjóðanna í milli. Atvinnurekstur kvenna er einn af stóru lyklunum í þessu samhengi.

 

Við Íslendingar eigum fjöldan allan af óvirkjuðum orkulindum.Ein þessara óvirkjuðu orkulinda eru íslenskar athafnakonur sem enginn mun tapa á að virkja.

 

Ég þakka áheyrnina.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389