Fara í efni  

Fréttir

Vel heppnaður ársfundur Byggðastofnunar á Húsavík

Ársfundur Byggðastofnunar var haldinn á Fosshótel Húsavík í gær, fimmtudaginn 27. apríl. Yfirskrift fundarins var Byggðarannsóknir: Blómlegar byggðir í krafti þekkingar og voru af því tilefni fluttar kynningar á nokkrum þeirra rannsóknaverkefna sem hlotið hafa styrk frá Byggðastofnun á undanförnum misserum. Fundurinn var þéttsetinn þar sem gestir hlýddu á erindi fráfarandi stjórnarformanns Byggðastofnunar, innviðaráðherra, forstjóra Byggðastofnunar, svo eitthvað sé nefnt, auk fyrrnefndra fræðsluerinda. Á fundinum var Landsstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, einnig afhentur, styrkir úr Byggðarannsóknasjóð veittir auk þess sem nýir samningar Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna um atvinnu- og byggðaþróun voru undirritaðir. Loks kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra nýja stjórn Byggðastofnunar.

Hækkun á framlagi til Byggðarannsóknarsjóðs

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra lagði út frá yfirskrift ársfundarins, Byggðarannsóknir, blómlegar byggðir í krafti þekkingar.  Ráðherrann fór yfir að hann teldi að rannsóknir og þekkingaröflun skipti miklu máli og sé forsenda fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku. Í því samhengi nefndi hann stofnun Byggðarannsóknarsjóðs árið 2014, samning við Háskólann á Bifröst um stofnun rannsóknarseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum og vinnu Byggðastofnunar við greiningar, framsetningu tölfræðilegra gagna og rannsóknina Byggðafestu og búferlaflutninga á Íslandi sem kom út á síðasta ári. Þá tilkynnti hann hækkun á framlagi ráðuneytisins til Byggðarannsóknarsjóðs úr sjö milljónum í tólf milljónir á ári en áður hafði stjórn Byggðastofnunar ákveðið að hækka framlag sitt úr þremur milljónum í sex milljónir. Samtals verða því átján milljónir til úthlutunar úr sjóðnum frá og með árinu 2024.

Að landið sé ein heild

Sigurður Ingi ræddi í ávarpi sínu hugtakið búsetufrelsi. Hann telur að lífsgæði fólks séu m.a. fólgin í því að það gæti búið sér heimili þar sem það helst kysi og nyti sambærilegrar þjónustu hvar á landinu sem það byggi en þá verði innviðir að vera í lagi og störf við hæfi. Þá fór hann yfir þá stefnu ríkisstjórnarinnar að ríkisstörf væru ekki staðbundin nema að eðli starfsins krefjist þess. Til að hrinda þessari stefnu í framkvæmd hafi hann skipað þriggja manna framkvæmdahóp en eitt af fyrstu verkefnum hópsins verður að aðlaga Starfatorgið að þessari stefnu og undirbúa kynningu á henni fyrir stjórnendur hjá ráðuneytum og stofnunum. 

Til að skapa raunverulegt búsetufrelsi telur Sigurður Ingi mikilvægt að aðgengi allra íbúa landsins að opinberri grunnþjónustu sé sem jafnast og nefndi að Byggðastofnun sé að ljúka drögum að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu og áætlað að leggja hana fram í samráðsgátt stjórnvalda fyrir sumarleyfi. Þá greindi hann frá því að unnið sé að greiningu á kostnaði vegna þjónustusóknar þar sem lagt verður heildstætt mat á kostnaði íbúa sem er fjarri heimili þess. Hann fór yfir að verðmætin verði til um land allt og byggi á auðlindum og hugviti og þess vegna eigi fólk að finna, hvar sem það býr, að landið sé ein heild. Að lokum þakkaði hann stjórn, stjórnendum og starfsfólki Byggðastofnunar fyrir samstarf og vel unnin störf. Sérstakar þakkir færði hann Magnúsi B. Jónssyni stjórnarformanni og Gunnari Þorgeirssyni stjórnarmanni fyrir þeirra störf.

Skilaboð fráfarandi stjórnarformanns

Magnús B. Jónsson fráfarandi stjórnarformaður Byggðastofnunar fór í setningaræðu sinni yfir störf stjórnar á nýliðnu ári. Hann fór m.a. yfir með hvaða hætti stjórnin fjallaði um áhættuþætti í rekstri, að ráðist hefði verið í stefnumótunarvinnu fyrir Byggðastofnun á síðasta ári, ræddi mikilvægi lánastarfseminnar fyrir landsbyggðirnar og hvernig hún stendur undir hluta af kostnaði við aðra starfsemi stofnunarinnar, vaxtaákvarðanir vegna tíðra vaxtahækkana Seðlabanka Íslands, sértækan byggðakvóta, brothættar byggðir og annað sem varðar byggðaþróun og byggðafestu.

Í ræðu sinni kom hann inn á að byggðaþróun sé vítt hugtak en sé almennt skilið sem viðleitni til að draga úr svæðisbundnu misræmi með því að styðja við innviði, atvinnustarfsemi og mannlíf í landsbyggðunum og jafna þannig búsetuskilyrði á þeim svæðum sem standa á veikari grunni. Byggðafesta sé hins vegar hugtak sem notað er um hversu vel byggð heldur sér eða kannski öllu fremur um hve stór hluti íbúa heldur búsetu á sama stað til langframa og má segja að sé andhverfa hugtaksins búferlaflutningar. Þá ræddi hann niðurstöður ritsins Byggðafestu og búferlaflutningar á Íslandi, sérstaklega m.a. um búsetuval fólks, þá togkrafta sem þar eru að verki og þá niðurstöðu að flestir eru ánægðir með að búa þar sem þeir búa í dag. Það er mat hans að ritið eigi brýnt erindi við alla sem láta sig byggðamál og samfélagsmál almennt varða.

Góður andi og kraftur innan stofnunarinnar

Í ávarpi Arnar Más Elíassonar forstjóra Byggðastofnunar kom fram að í lok síðasta árs hafi verið haldið af stað í stefnumótunarvinnu Byggðastofnunar til framtíðar. Vinnan byggi á vinnustofum með starfsfólki stofnunarinnar, viðhorfum hagaðila til stofnunarinnar, stefnukeðja verið sett upp auk samráðs á vettvangi stjórnar. Hann sagði vonir sínar standi til þess, að vinnu lokinni, að starfsfólk Byggðastofnunar hafi skýra sýn á þær leiðir sem best stuðla að hlutverki stofnunarinnar. Þá fór hann yfir að hann teldi þurfa að auka sýnileika stofnunarinnar með því að kynna starfsemi Byggðastofnunar og verkefni hennar sem víðast. Til stendur m.a. að bjóða sveitarstjórnum allra sveitarfélaga á starfssvæði hennar upp á samtal um hugsanlega samstarfsfleti á hverjum stað fyrir sig auk opinna funda í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun auk fleiri aðila.

Arnar greindi frá því að rekstur Byggðastofnunar hefði gengið vel á síðasta ári og afgangur af rekstri hefði verið ríflega 370 milljónir kr. og að eigið fé stofnunarinnar í árslok hefði verið 19,7% í árslok. Ný útlán til viðskiptavina voru tæpir 2,8 milljarðar á árinu og stóðu í 19,7 milljörðum í árslok. Hækkandi verðbólga hefur dregið úr eftirspurn eftir lánum hjá stofnuninni. Hann greindi einnig frá niðurstöðum úr könnun Sameykis um „stofnun ársins“ en þar lenti Byggðastofnun í 12. sæti af þeim 143 stofnunum og ráðuneytum sem könnunin náði til með heildareinkunn upp á 4,48 af 5 mögulegum. Stefna stjórnenda er að viðhalda þeim góða anda og krafti sem er innan stofnunarinnar þannig að hún verði áfram eftirsóknarverður vinnustaður og veiti framúrskarandi þjónustu.

Afhending Landstólpans

Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, var afhentur í tólfta sinn. Hugmyndin að baki Landstólpanum er að efla skapandi hugsun og bjartsýni og er því hugsaður sem nokkurs konar hvatningar- og bjartsýnisverðlaun. Í ár bárust samtals sautján tilnefningar og var niðurstaða dómnefndar sú að veita hjónunum Elínu S. Sigurðardóttur og Jóhannesi Torfasyni, sem búsett eru á Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu, Landstólpann árið 2023. Þau hjónin hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt með leiðtogahæfileikum sínum, sneitt hjá átökum og laðað aðra íbúa með sér til að byggja upp samfélagið í gegnum Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og Ámundakinn ehf., sannkallaðir burðarásar í sínu samfélagi. Viðurkenningargripurinn í ár, sem afhentur var af þeim Helgu Harðadóttur, sérfræðingi á Þróunarsviði, og Andra Þór Árnasyni sérfræðingi á Lánasviði, var í formi ljósmyndaverks eftir Gyðu Henningsdóttur.

Elín S. Sigurðardóttir og Jóhannes Torfason hlutu Landstólpann í ár 

Farsælt samstarf Byggðastofnunar og landshlutasamtaka sveitarfélaga í landsbyggðunum

Nýir samningar milli Byggðastofnunar og landshlutasamtaka sveitarfélaga í landsbyggðunum um atvinnu- og byggðaþróun voru undirritaðir um síðustu áramót. Samningarnir, sem gilda til lok árs 2027, voru undirritaðir rafrænt og var því brugðið á það ráð að nýta ársfundinn til þess að fagna farsælu samstarfi Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna innan atvinnu- og byggðaþróunar. Ragnhildur Friðriksdóttir, sérfræðingur á Þróunarsviði, fór nokkrum orðum um sögu samstarfsins og hvernig umræddir samningar og samstarf þróaðist í það sem við þekkjum í dag. Fór hún yfir það mikilvæga starf sem unnið er innan ramma samningsins af atvinnuráðgjöfum og verkefnastjórum landshlutasamtakanna og þakkaði hlutaðeigandi fyrir gott og gjöfult samstarf undanfarin ár. Loks voru fulltrúar þeirra landshlutasamtaka sem á fundinum voru beðnir um að koma upp og taka þátt í nokkurskonar gjörningi, þar sem hinir nýju samningar voru undirritaðir í raunheimum.

Styrkir Byggðastofnunar til meistaranema

Hanna Dóra Björnsdóttir, sérfræðingur á Þróunarsviði, flutti stutta samantekt um árlega styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðamála. Styrkir hafa verið veittir níu sinnum frá árinu 2015. Samtals hafi 32 verkefni verið styrkt en 72 sótt um. Meðal umsækjenda eru konur hlutfallslega fleiri eða 65% umsækjenda. Umsækjendur hafa stundað nám við innlenda og erlenda háskóla en langflestar umsækjendur hafa borist frá nemendum háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Einnig hafa margar umsóknir borist frá nemendum Háskólaseturs Vestfjarða og Landbúnaðarháskóla Íslands, sérstaklega hlutfallslega, ef litið er til stærða þeirra skóla eða smæðar í samanburði við hina tvo.

Tvö eftirfarandi verkefni meistaranema voru valin og kynnt nánar:

Sóknaráætlanir landshluta – markmið og ávinningur (styrkt 2022) - Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra, MPA í opinberri stjórnsýslu frá HÍ.

 „Skemmtilegi hluti stjórnsýslunnar“, tilviksrannsókn á starfi menningar- og ferðamálafulltrúa sveitarfélaga á Íslandi (styrkt 2022) - Herdís Ýr Hreinsdóttir, stjórnsýslufræðingur, MPA í opinberri stjórnsýslu frá HÍ.

148 umsóknir í Byggðarannsóknasjóð frá 2015

Auk þess fór Hanna Dóra með samantekt um byggðarannsóknastyrki en þeir hafa verið veittir frá árinu 2015. Byggðarannsóknasjóður var stofnaður 2014 af Sigurði Inga Jóhannessyni, þáverandi Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Á árunum 2015-2023 hafa 148 umsóknir borist sjóðnum og samtals 37 verkefni hlotið styrk. Umsóknir í sjóðinn koma víða að en langflestar frá háskólunum (47%) og næstmestur fjöldi umsókna kemur frá landshlutasamtökunum (28%).

Tvö eftirfarandi verkefni voru valin og kynnt nánar á ársfundinum: 

Mannekla lögreglu og mjúk löggæsla í dreifbýli (styrkt 2017), Guðmundur Ævar Oddsson, dósent við HA.

Ráðandi tungumál í íslenskri ferðaþjónustu (styrkt 2022), Sigríður Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Hólum.

Veiting styrkja úr Byggðarannsóknasjóði 2023

Kjartan Ólafsson, formaður stjórnar Byggðarannsóknasjóðs afhenti á fundinum styrki ársins 2023 úr Byggðarannsóknasjóði til fimm verkefna. Umsóknafrestur var til 1. mars sl. og bárust alls 27 umsóknir. Til úthlutunar voru 10 m.kr.  sem skiptust þannig milli eftirfarandi fimm verkefna:

  • Hvernig er hægt að auka jákvæðan byggðabrag með aðferðafræði félags- og samfélagssálfræði? Rannsókn á félagslegri sjálfsmynd íbúa í íslenskum sveitarfélögum. Háskólinn á Bifröst, Bjarki Þór Grönfeldt. Styrkupphæð: 2.500.000 kr.
  • Ábyrg eyjaferðaþjónusta - sjálfbær uppbygging ferðaþjónustu á eyjum á norðurslóðum. Ferðamáladeild Háskólans á Hólum (FHH), Ingibjörg Sigurðardóttir og Laufey Haraldsdóttir. Styrkupphæð: 2.500.000 kr.
  • Líðan og seigla íslenskra bænda. RHA - Rannsóknamiðstöð HA, Bára Elísabet Dagsdóttir. Styrkupphæð: 2.300.000 kr.
  • Félagsleg staða og ójöfnuður í heilsu. Sigrún Ólafsdóttir, HÍ. Styrkupphæð: 1.300.000 kr.
  • Bolmagn íslenskra sveitarfélaga í skipulagsmálum. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, HÍ. Styrkupphæð: 1.300.000 kr.

Styrkhafar Byggðarannsóknarsjóðs

Ný stjórn Byggðastofnunar

Ný stjórn Byggðastofnunar er þannig skipuð: Halldóra Kristín Hauksdóttir Akureyri stjórnarformaður, Rúnar Þór Guðbrandsson Mosfellsbæ varaformaður stjórnar, Haraldur Benediktsson Akranesi, Óli Halldórsson Húsavík, Karl Björnsson Reykjavík, María Hjálmarsdóttir Eskifirði og Jónína Björk Óskarsdóttir Kópavogi. Varamenn í stjórn eru: Katrín Sigurjónsdóttir Húsavík, Andri Björgvin Arnþórsson Árborg, Lilja Björg Ágústsdóttir Borgarbyggð, Guðný Hildur Magnúsdóttir Bolungarvík, Valgerður Rún Benediktsdóttir Reykjavík, Valgarður Líndal Jónsson Akranesi og Sigurjón Þórðarson Sauðárkróki.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389