Fara í efni  

Fréttir

Fjögur verkefni fá styrk úr Byggðarannsóknasjóði

Á ársfundi Byggðastofnunar þann 25. apríl var tilkynnt um styrki úr Byggðarannsóknasjóði til fjögurra verkefna. Hæsta styrkinn hlýtur verkefni sem snýr að rannsókn á kransæðasjúkdómum og þeirri fræðslu og stuðningi sem sjúklingum býðst, bæði í dreifbýli og þéttbýli. 

Alls bárust 12 umsóknir um styrki úr Byggðarannsóknasjóði, samtals að upphæð tæpar 34 mkr., en til úthlutunar voru 10 mkr. Samþykkt var að veita styrki til fjögurra verkefna, en þau voru:  

Margrét Hrönn Svavarsdóttir dósent við hjúkrunarfræðideild HA hlýtur styrk að fjárhæð 3,5 mkr. til verkefnisins Lífsstíll, áhættuþættir og sjálfsumönnun einstaklinga með kransæðasjúkdóm (KRANS rannsóknin). Í verkefnislýsingu kemur fram að kransæðasjúkdómar eru algengasta dánarorsökin hér á landi. Fræðsla og stuðningur við þennan sjúklingahóp er því mikilvægur. Markmið rannsóknarinnar er m.a. að skoða lífsgæði, heilsulæsi og sjálfsumönnun sjúklinga, þekkingu þeirra á sjúkdómnum og fræðsluþarfir. Skoðað verður hvort einstaklingar í dreifbýli fái þá endurhæfingu, fræðslu og stuðning sem þeir þurfa til að lifa með sjúkdómnum og takast á við afleiðingar hans og á hvern hátt best er að koma til móts við þarfir þessa hóps. Einnig verður skoðað hvernig heilbrigðiskerfið uppfyllir þarfir einstaklinga á landsbyggðinni fyrir fræðslu og hvernig þeim gengur að takast á við lífsstílsbreytingar, samanborið við einstaklinga í þéttbýli.

Þekkingarsetrið Nýheimar á Höfn í Hornafirði hlýtur styrk að fjárhæð 2,5 mkr. til verkefnisins Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun. Verkefnið mun skerpa sýn á stöðu, hlutverk og árangur þekkingarsetra á landsbyggðinni, með sérstakri áherslu á byggðaþróun. Skoðuð verða þrjú þekkingarsamfélög: Nýheimar á Höfn, Fjölheimar á Selfossi og Þekkingarsetrið á Húsavík með það að markmiði að geta yfirfært aðferðafræðina við rannsóknir á öðrum slíkum samfélögum á landinu. Aflað verður gagna um viðhorf og væntingar almennings, starfsmanna setranna og sveitastjórnarmanna í þessum byggðarlögum til þekkingarsetra og leitað leiða til að efla starfsemi þeirra með hliðsjón af niðurstöðunum.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hlýtur styrk að fjárhæð 2 mkr. til verkefnisins Öll él birtir upp um síðir: Hver er framtíðarsýn fólks sem býr í sveitum landsins og hvernig sker hún sig frá þeim sem búa í minni þéttbýlum. Í verkefnislýsingu kemur fram að börnum fækkar ört til sveita og ungir bændur hafa verið líklegri til að bregða búi en þeir sem eru á miðjum aldri. Kanna á hvort fólk í sveitum sé líklegra til að hugleiða brottflutning á næstu tveimur árum en fólk í smærri þéttbýlum landsins. Auk þess verður greint hvaða búsetuskilyrði þeir telja mikilvægust fyrir áframhaldandi búsetu sína og hvort munur sé á afstöðu þeirra og íbúa smærri þéttbýla landsins. Þá verður skoðað hvort fjarlægð frá sterkum þjónustukjarna, eins og höfuðborgarsvæðinu, hafi áhrif á afstöðu til fyrrgreindra spurninga.

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri hlýtur styrk að fjárhæð 2 mkr. til verkefnisins Mönnun sveitarstjórna. Rekstur félagsþjónustu og grunnskóla eru stærstu verkefnin en flest sveitarfélög vilja einnig bjóða upp á viðameiri þjónustu. Rekstur sveitarfélags getur því verið nokkuð viðamikill. Grundvallarforsenda þess að sveitarfélög geti starfað með góðu móti er sú að íbúar þess séu tilbúnir að leggja í þá vinnu sem þarf til að reka sveitarfélagið. Þrátt fyrir að sveitarfélögum á Íslandi hafi fækkað mjög mikið á undanförnum áratugum eru þau ennþá frekar mörg og smá. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna það meðal sveitarstjórnarmanna hvort þeir hafi í raun og veru sóst eftir þátttöku í sveitarstjórn og hvort mönnun sveitarstjórna sé orðið raunverulegt vandamál í smærri sveitarfélögum. Þá verður kannað hlutfall kvenna í sveitarstjórn í þessum sveitarfélögum og því velt upp hvort fyrirkomulagið hafi áhrif á hlut þeirra.


Til baka

Fréttasafn

2025
janúar
2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389