Fara í efni  

Fréttir

Byggðaáætlun 2010-2013

Byggðaáætlun 2010-2013
Snorri Björn Sigurðsson
Núgildandi byggðaáætlun rennur skeið sitt á enda í lok árs 2009. Iðnaðarráðuneytið, sem fer með byggðamál samkvæmt reglugerð um Stjórnarráðið, fól Byggðastofnun í október síðastliðnum að hefja vinnu við gerð nýrrar byggðaáætlunar sem nái til áranna 2010 – 2013.


Það sem í daglegu tali er kallað byggðaáætlun er í rauninni þingsályktun Alþingis og ber hið formlega heiti stefnumótandi byggðaáætlun. Kveðið er á um gerð slíkrar áætlunar í lögum um Byggðastofnun og segir að áætlunin skuli vera til fjögurra ára og að iðnaðarráðherra leggi hana fyrir Alþingi. Hún skuli lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar i byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. Þá skuli og gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu. Tekið er fram að iðnaðarráðherra skuli vinna áætlunina í samvinnu við Byggðastofnun. Loks er tekið fram að við gerð byggðaáætlunar skuli hafa samráð við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og aðra aðila eftir þörfum.   

Það er ekki sér íslenskt fyrirbrigði að rekin sé byggðastefna af hálfu stjórnvalda þó stundum hafi mátt álíta sem svo af íslenskri umræðu. Þvert á móti þá reka flestöll lönd sem við berum okkur saman við umfangsmikla byggðastefnu. Þannig rennur næststærsti hluti útgjalda Evrópusambandsins til byggðamála. Er  upphæðin 308 milljarðar evra á tímabilinu 2007- 2013.

Þegar horft er til þess að á undanförnum árum hefur fólksfækkun hvergi í Evrópu verið eins hröð og á stórum svæðum á Íslandi og að á sama tíma voru þjóðartekjur hér einna hæstar í heiminum þá má það merkilegt heita hversu litlum fjárhæðum hefur verið varið til byggðaaðgerða hér á landi. Hin hliðin á peningnum er svo sú að á engu svæði í Evrópu hefur hlutfallsfjölgun íbúa verið eins mikil og á höfuðborgarsvæðinu hér á landi. Loks er svo vert að benda á að samkvæmt skýrslum sem unnar hafa verið af Byggðastofnun og hagfræðideild Háskóla Íslands þá er mikill munur á svæðisframleiðslu á mann á veikustu svæðunum hér á landi og á höfuðborgarsvæðinu.

Getur það verið að í glaumi veislunnar stóru undanfarin ár þá hafi það viðhorf orðið ríkjandi að landsbyggðin sé óþarfur baggi á útrásardrifnu hagkerfi sem óx eins og ský frá kjarnorkusprengju? Nú þegar sá raunveruleiki blasir við að framleiðslan, hvort heldur efnisleg eða huglæg, er sú undirstaða sem við munum byggja á, þá er líklegt að málum landsbyggðar, þar sem mikil verðmætasköpun fer fram, verði sýnd meiri virðing en áður. Kannski er aldrei mikilvægara en einmitt nú, þegar rykið er að setjast, að móta framtíðarsýn sem nær til landsins alls.

En hvers vegna byggðastefnu? Það að aðrar þjóðir reki byggðastefnu er í sjálfu sér ekki næg ástæða til að við gerum það. Til grundvallar skynsamlegri byggðastefnu og byggðaáætlun þarf að liggja réttlætisviðhorf sem felur það í sér að það sé samfélags- og stjórnvaldsverkefni að dreifa gæðum, jafna forsendur og skapa skilyrði til þróunar. Gefa íbúum færi á að njóta sín hvar sem þeir búa og skjóta með því styrkari stoðum undir verðmætasköpun þjóðarinnar.

Það er mikilvægt að gefa sem flestum þeim sem áætlunin snertir kost á að koma að gerð hennar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri á sem flestum stigum vinnu við áætlunina.

Byggðastofnun hefur verið settur þröngur tímarammi til vinnu við gerð hinnar nýju áætlunar sem gerir erfitt um vik hvað samráð varðar. Við það verður ekki ráðið. Það er þó einlægur ásetningur starfsmanna að sem flestir geti komið ábendingum og athugasemdum á framfæri. Fyrsti liður í því var að boða til málþings seint í nóvember þar sem valinkunnt fólk var fengið til að flytja fyrirlestra um byggðamál frá ýmsum sjónanrhornum. Tókst það vel til. Fyrirlestrarnir og glærur sem varpað var á tjald eru aðgengilegar á heimasíðu Byggðastofnunar www.byggdastofnun.is.

Hér með eru allir sem áhuga hafa hvattir til að kynna sér málið og koma með ábendingar og athugasemdir. Það er auðveldast að gera með því að senda póst á netfangið byggdastofnun@byggdastofnun.is

Höfundur er forstöðumaður Þróunarsviðs Byggðastofnunar.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 5. janúar 2009.


Til baka

Fréttasafn

2025
janúar
2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389