Fréttir
Breiðdælingar virkja samtakamáttinn
Í Breiðdalshreppi er íbúaþingi, sem haldið var í nóvember síðastliðnum, nú fylgt eftir af krafti. Hugmyndavinna um nýtingu á aflögðu frystihúsi, rafræn leiðsögn fyrir ferðamenn, bætt aðstaða til matvælavinnslu og „Tilgangslausar dyr“ eru dæmi um verkefni sem komin eru í gang. Enn fleiri hugmyndir eiga væntanlega eftir að verða að veruleika og íbúar taka virkan þátt í framhaldinu. Þeir skora líka á stjórnvöld að tryggja viðbótaraflamark til Breiðdalsvíkur.
Þetta kom fram á íbúafundi 6. mars, í tengslum við verkefnið „Breiðdælingar móta framtíðina“, en Breiðdalshreppur er eitt af fjórum byggðarlögum þar sem Byggðastofnun vinnur með heimamönnum og stoðstofnunum að eflingu byggðar í verkefni sem nefnt hefur verið Brothættar byggðir.
Nokkrir frumkvöðlar hyggjast endurvekja fiskvinnslu á Breiðdalsvík og sóttu í því skyni um viðbótaraflamark sem Byggðastofnun auglýsti laust til umsóknar „...til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi“, en fengu ekki. Í upphafi íbúafundarins fór einn umsækjenda, Elís Pétur Elísson yfir málið og lýsti sjónarmiðum og vonbrigðum Breiðdælinga. Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar lýsti skilningi á þessum vonbrigðum og fór yfir sjónarmið stofnunarinnar, en ávörðun hennar sætir nú stjórnsýslukæru til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Fundurinn samþykkti síðan svohljóðandi áskorun: "Íbúafundur á Breiðdalsvík skorar á stjórnvöld að tryggja nauðsynlegt viðbótaraflamark til Breiðdalsvíkur, enda er aukinn byggðakvóti sú kjölfesta sem atvinnulíf í byggðarlaginu þarf."
Mikill áhugi er á að nýta tækifæri sem felast í rúmlega 2.000 fm2 húsnæði Hraðfrystihúss Breiðdalsvíkur, sem stendur í hjarta bæjarins. Margar hugmyndir voru viðraðar á íbúaþinginu, m.a. tengdar ferðaþjónustu og aðstöðu Breiðdalshrepps. Byggðastofnun er eigandi hússins og eru stjórnendur stofnunarinnar opnir fyrir því að skoða ýmsa möguleika um framtíðarnýtingu. Haldinn verður sérstakur íbúafundur um þetta sóknarfæri miðvikudaginn 12. mars og í framhaldi af honum hefst svo vinna við verkefna- og fjármögnunaráætlun.
Hugmyndir um bætta aðstöðu til stórgripaslátrunar og matvælavinnslu eru til skoðunar hjá eigendum sláturhúss og hefur verið sótt um styrki til framkvæmda. Á íbúaþingi kom upp hugmynd um slipp fyrir allt að 30 tonna báta í sláturhúsinu. Meta þarf hvort það er fýsileg og arðbær hugmynd og síðan kemur í ljós hvort sú starfsemi gæti farið saman með matvælavinnslu í húsinu, væri það í samræmi við vilja eigenda, eða þá hvort önnur staðsetning kæmi til greina.
Ýmis gerjun er í ferðaþjónustu sérstaklega í afþreyingu og verður lögð áhersla á að Breiðdælingar nýti enn betur sameiginlega markaðssetningu fyrir Austurland, sem farveg í kynningarmálum. Á Breiðdalsvík er gott göngustígakerfi og vilja heimamenn efla það og styrkja, sem og stuðla að bættri aðstöðu til gönguferða utan þorpsins. Einn hópur á íbúaþinginu ræddi um rafræna leiðsögn og verða fyrstu leiðsagnir í boði í Breiðdalshreppi strax í vor, en Austurbrú hefur gert samning við fyrirtækið Pocket Guide fyrir öll sveitarfélög á Austurlandi.
Breiðdalssetur, sem fæst við jarðfræði, málvísindi og sögu, hefur starfað frá árinu 2008. Einnig hefur lengi verið stefnt að því að koma á fót setri sr. Einars Sigurðssonar í Eydölum árið 2017. Framhald verkefna og samstarf er í höndum eigenda og bakhjarla þessara menningarsetra. Sama má segja um margar aðrar hugmyndir, t.d. að „...gera Breiðdalsvík og Breiðdal að fyrirmynd varðandi góða umgengni“, en þar geta allir lagt sitt af mörkum.
Breiðdælingar fylgja íbúaþingi eftir af krafti og funda þrjár vikur í röð. Í síðustu viku var eftirfylgnifundurinn, í þessari viku verður fundað um frystihúsið og vikuna þar á eftir, miðvikudaginn 19. mars verður fundað um „The Pointless Door of Iceland“. Það er snilldarhugmynd sem kom frá ungu fólki sem tók þátt í íbúaþinginu í gegnum Facebook. Stefnt er að því að framkvæma hugmyndina og vanda til verka og eru íbúar hvattir til áframhaldandi þátttöku.
Virkur stuðningur við frumkvöðlahugmyndir og verkefni stendur íbúum til boða af hálfu Austurbrúar og bakhjarlar verkefnisins „Breiðdælingar móta framtíðina“, Byggðastofnun, Breiðdalshreppur, SSA og Austurbrú eru samstiga í því að taka höndum saman með íbúum til að efla byggð í Breiðdalshreppi.
Verkefnisstjórn mun starfa í eitt ár, til að fylgja málum eftir. Næstu skref eru þau að eiga fund með þingmönnum Norðausturkjördæmis og eftir atvikum, ráðherrum, til að koma málefnum Breiðdalshrepps á framfæri við stjórnvöld.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember