Fara í efni  

Fréttir

Vel sóttur íbúafundur í Árneshrepp og ákall til ríkisstjórnar

14. nóvember sl. var haldinn íbúafundur í félagsheimilinu Trékyllisvík í Árneshrepp. Fundurinn var vel sóttur en flestir íbúar sem hafa vetrarbúsetu í hreppnum voru mættir. Fundurinn hófst á afmælissöng fyrir Björn bónda á Melum. Síðan fengu fundargestir sér kaffi og rjómatertu.

Skúli Gautason, verkefnisstjóri Áfram Árneshrepps, fór yfir styrkveitingar ársins 2018. Efst á blaði var styrkur til verslunarinnar í Norðurfirði en nú þegar hafa verið keypt tæki fyrir hluta styrkupphæðarinnar og áætlað er að ráðstafa eftirstöðvum styrksins í frekari tækjakaup á nýju ári. Einnig ræddu fundargestir styrk til kjötvinnslu sem óstofnað félag sauðfjárbænda hlaut. Verkefnið miðar að því að þróa kjötafurðir úr Árneshreppi og markaðssetja þær undir sameiginlegu vörumerki hreppsins. Eins og stendur vantar húsnæði fyrir starfsemina og vinna nú forsvarsmenn verkefnisins að því að finna hentugt húsnæði. Gerð var grein fyrir því að verkefninu „Í nýju ljósi“ sé lokið og hafi tekist vel. Verkefnið miðaði að því að fjárfesta í ljósabúnaði fyrir sögusýninguna í síldarverksmiðjunni í Djúpavík og hafa ljósin nú verið sett upp. Verkefnið „afþreyingartengd ferðaþjónusta“ er komið af stað og gengur vel. Verkefninu „Þjóðmenningarskóli“ er lokið en styrkurinn var nýttur til að kaupa tjald (e. yurt) sem nýtist sem aðstaða fyrir námskeiðahald. Haldin voru námskeið í vor og gengu vel. Annað skólaverkefni hlaut einnig styrk og var haldinn smalaskóli í haust í kringum smalamennsku og tókst vel til.

Einnig fór verkefnisstjóri yfir stöðu starfsmarkmiða og gerði grein fyrir þeirri vinnu sem unnin var á árinu 2018 í markmiðum verkefnisins. Má þar helst nefna áform um að ræða við nemendur í Landbúnaðarháskólanum og kynna Árneshrepp sem valmöguleika fyrir unga bændur, vinnu við tillögur fyrir sauðfjárrækt í Árneshreppi, greiningu á umfangi strandveiða í hreppnum o.fl. Rætt var um strandhreinsunarátakið sem hófst í sumar. Það tókst vel og allir lögðu sitt af mörkum til að hreinsa fjöruna. Lagt er upp með að halda hreinsuninni áfram sem árlegum viðburði.

Fundurinn ályktaði að gott væri að halda næsta íbúafund að vori eða sumri og reyna þannig að höfða til sem flestra sem eiga rætur í Árneshreppi að mæta á fundinn og deila skoðunum sínum um framtíð byggðarlagsins. Síðast en ekki síst var mikið rætt um stöðu byggðarinnar, þ.á.m. í vega- og samgöngumálum, fjarskiptamálum, verslunarmálum o.fl. og þykir heimamönnum þeir vera afskiptir.

Verkefnisstjórnin skrifaði í kjölfar fundarins ákall til ríkisstjórnar Íslands varðandi stöðu byggðar í Árneshreppi og þjónustu við íbúana. Í ákallinu kemur m.a. fram: „Íbúar Árneshrepps hafa um árabil búið við skerta þjónustu á vegum á veturna. Íbúum hefur fækkað mjög síðustu ár og má ekki síst rekja það til þeirrar staðreyndar að ungt fólk sættir sig ekki við þá algeru innilokun sem verulega skert vetrarþjónusta hefur í för með sér á tímabilinu janúar – mars ár hvert. Íbúar bundu um skeið miklar vonir við aðgerðir sbr. ályktun þingsins nr. 35/128, þann 15. mars 2003 „um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi“ en því miður varð lítið sem ekkert úr efndum á grundvelli hennar.

Unnið hefur verið að verkefninu Áfram Árneshreppur sem lið í verkefnum Byggðastofnunar og samstarfsaðila, Brothættum byggðum frá árinu 2017. Mörg markmið í verkefnisáætlun snúa að samstarfi og framtaki heimamanna en þau verkefni sem hvað brýnust eru fyrir viðgang byggðarinnar eru þó stóru innviðaverkefnin sem eru á valdi ríkis og stofnana þess. Það þolir að mati verkefnisstjórnar enga bið að þessi markmið verkefnisins hljóti athygli og stuðning ríkisins. Nú er svo komið að íbúarnir óttast að byggð leggist af verði ekkert að gert. Þar með væru varanlega glötuð mikil verðmæti sem felast í menningu og mannlífi í þessu sérstæða og afar fallega byggðarlagi.“


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389