Fara í efni  

Fréttir

Stemning og styrkúthlutun á Ströndum

Stemning og styrkúthlutun á Ströndum
Mynd: Skúli Gautason

Verkefnið Sterkar Strandir hefur úthlutað styrkjum til 11 verkefna sem koma til framkvæmdar á tímabilinu 1. september – 1. apríl. Auglýst var eftir styrkumsóknum í júlí 2020.

Alls voru að þessu sinni til úthlutunar kr. 13.570.000,- sem er samanlögð fjárhæð, árlegrar úthlutunar kr. 5.000.000,- og sérstakrar úthlutunar í tengslum við fjárfestingarátak Alþingis vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, eða kr. 8.570.000.

Frestur til að skila inn umsóknum var til 24. júlí 2020 og bárust alls 16 umsóknir um styrki. Heildarfjárhæð styrkumsókna nam kr. 42.013.574 en til ráðstöfunar voru, sem fyrr segir, 13.570.000.

Styrkþegar eru eftirfarandi:

Arnkatla er nýstofnað menningarfélag og fékk styrki í 2 verkefni. Þau eru: Vetrarhátíðir í Strandabyggð, en verkefnið snýst um að halda 3 vetrarhátíðir sem hafa nokkuð aðdráttarafl, á Ströndum fyrstu þrjá mánuði ársins 2021. Þar erum að ræða hátíðina Vetrarsól sem fyrirhuguð er í janúar, Hörmungardaga í lok febrúar og Húmorsþing í lok mars. Vetrarhátíðirnar fengu 700.000 kr. styrk. Hitt verkefni Arnkötlu er Skúlptúraslóð á Hólmavík – 1. áfangi, en verkefnið snýst um að byggja upp skúlptúraslóð inn fyrir þorpið á Hólmavík, frá Galdrasýningunni og eftir gömlum vegi sem nú er gönguslóði og svæði hugað til útvistar undir Kálfanesborgum. Ætlunin er að byggja upp skúlptúraslóð með 5-6 listaverkum og upphafsreit við Galdrasýninguna á nokkrum árum. Skúlptúraslóðin fékk 300.000 kr. styrk.

Guðfinna Lára og Ágúst Helgi fengu styrk fyrir verkefninu Matvælavinnsla á Stóra-Fjarðarhorni en verkefnið felst í því að koma á fót vinnslurými fyrir matvæli og er megintilgangurinn að skapa aðstöðu til að vinna og þróa vörur úr þeim afurðum sem framleiddar eru í Stóra-Fjarðarhorni. Umfangsmest er lambakjötsframleiðsla en einnig er framleitt holdanautakjöt og útiræktað grænmeti.  Við vöruþróun verður horft til aldagamalla matarhefða í bland við nýstárlegri framleiðsluaðferðir. Matvælavinnslan var styrkt um 2.000.000 kr.

Hvatastöðin fékk styrk til tveggja verkefna. Þau eru: Kyrrðarkraftur en því verkefni er ætlað að verða uppbyggingarsetur fyrir fólk sem vill bæta eigin heilsu og móta sér skýra framtíðarsýn og stefnu í lífinu með hjálp galdra, náttúru og sérfræðinga. Markmið verkefnisins er að skipuleggja úrræði sem nýta þau mannvirki, þjónustu og sérþekkingu sem er til staðar í Strandabyggð. Kyrrðarkrafti var úthlutað 2.000.000 kr. Hitt verkefni Hvatastöðvarinnar er Hitalampar til jógaiðkunar en þar mun Hvatastöðin bæta aðstöðu sína og auka á fjölbreytni í þjónustu sinni með því að koma upp innrauðum hitalömpum. Að stunda jóga í hlýjum eða heitum sal hefur notið mikilla vinsælda um árabil, ekki síst á norrænum slóðum þar sem fólk kemst lítið í hita lungann úr árinu. Hitinn dýpkar iðkunina og liðkar vöðva þannig að hver og einn kemst dýpra í stöðurnar og getur haldið þeim lengur en ella. Hitalamparnir fengu 270.000 kr. styrk.

Leikfélag Hólmavíkur fékk styrk, en þeirra verkefni nefnist Ljósabúnaður fyrir Leikfélag Hólmavíkur. Markmiðið er að bæta ljósabúnað Leikfélags Hólmavíkur, en honum er mjög ábótavant um þessar mundir. Félagið leigði nýleg LED ljós fyrir uppsetningu sína á „Stellu í orlofi“ í febrúar-mars síðastliðnum og er stefnt á að fá álíka ljós til eignar. Þá þarf einnig að kaupa tölvu sem er tengd við ljósin, en forritið sem er notað til að stjórna þeim er einfalt í uppsetningu og notkun. Árangurinn verður sá að minna mál verður að kenna nýjum ljósamönnum á tæknina og vonandi verða sýningarnar enn flottari en þær eru nú þegar. Núverandi ljósaborð og ljós eru á bilinu 25-30 ára gömul, svo það er löngu kominn tími á uppfærslu. Verkefnið fékk styrk upp á 800.000 kr.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum fékk styrk fyrir verkefni sem nefnist Þjóðtrúarfléttan en því verkefni er ætlað að skapa nýtt starf tengt miðlun á íslenskri þjóðtrú, við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Það verður unnið í samvinnu við þá aðila í héraðinu og á landsvísu sem vinna að verkefnum sem byggja á þeim menningararfi sem býr í þjóðsögum og þjóðtrú. Hugmyndin með Þjóðtrúarfléttunni er í senn að byggja upp miðlun á efniviðnum og skapa og efla tengsl við fræðifólk og listamenn sem vinna á þessu sviði hér á landi og á alþjóðavísu og styrkja þannig stöðu Hólmavíkur og Stranda sem miðpunkts fyrir skapandi vinnu við þjóðtrúartengd verkefni hér á landi.  Verkefnið hlaut 3.000.000 kr. styrk.

Sauðfjársetrið á Ströndum fékk styrk fyrir Útgáfuverkefni Sauðfjársetursins. Verkefnið snýst um að koma á laggirnar útgáfu bóka sem tengjast Ströndum, heima í héraði, þróa aðferðir og vinnubrögð í kringum slíka útgáfu. Munu bækurnar byggja á rannsóknum, viðburðum og sérsýningum, sem unnar hafa verið í samstarfi við Sauðfjársetrið. Þær munu fjalla um afmörkuð þematengd sögu- og atvinnulífistengd efni, en þó miðast allt verkefnið við að fróðleikurinn verði settir fram á hátt sem höfðar til almennings.  Fyrstu bækurnar í bókaröðinni hafa verið ákveðnar og stendur til að sú fyrsta sem ber vinnuheitið Strandir 1918 komi út í desember 2020. Verkefnið var styrkt um 500.000 kr.

Strandagaldur fékk styrk fyrir Bættri ímynd og betra útlits á Galdrasýningunni. Nú þegar er Galdrasýningin meginaðdráttarafl í afþreyingu fyrir ferðamenn á Ströndum og dregur marga ferðamenn á svæðið allt árið um kring. Starfsemi sýningarinnar er nú staðsett í tveimur gömlum pakkhúsum við höfnina en þegar hún var opnuð var hún einungis í öðru húsinu en eftir því sem starfsemin víkkaði út með því að koma á matsölu og vera með upplýsingamiðstöð voru báðar byggingarnar nýttar undir starfsemina. Þessar byggingar setja mikinn svip á gamla bæinn á Hólmavík og því gott útlit mikilvægt. Nú er sýningin orðin 20 ára og kominn tími til að klára lokahnykkinn á útliti hennar. Verkefnið var styrkt um 2.200.000 kr.

Sýslið verkstöð fékk styrk fyrir verkefni sem heitir Matarsmiðjan – Tilraunaeldhús en Matarsmiðjan verður tilraunaeldhús í Sýslinu verkstöð á Hólmavík. Sýslinu er ætlað að vera miðstöð skapandi greina á svæðinu og samanstendur af fjölbreyttum verkstæðum þar sem hægt er að vinna vörur úr allskyns efnum og með Matarsmiðjunni opnast tækifæri til að hanna og þróa samhliða matvæli og matartengdar vörur. Matarsmiðjan mun styðja við nýsköpun á Ströndum og verður opin fyrir smáframleiðendur og frumkvöðla til vöruþróunar og tilraunastarfsemi gegn vægu gjaldi. Verkefnið er styrkt um 1.000.000 kr.

Að lokum var það Trésmiðjan Höfði sem fékk styrk fyrir verkefninu Atvinnuhúsnæði á Hólmavík en verkefnið er könnun á þeim möguleika að byggja atvinnu og geymsluhúsnæði  á Skeiði á Hólmavík. Við lok verkefnis á að vera ljóst hvort einstaklingar eða fyrirtæki hafi hug á að kaupa eða leigja bil í húsinu og hvaða stærð og form munu henta fyrir þá. Einnig verður við lok verkefnis ljóst hvort bygging á húsnæði sem þessu á Hólmavík sé fjárhagslega framkvæmanleg. Verkefnið hlaut styrk um 800.000 kr.

 

Verkefnisstjórn Sterkra Stranda samþykkti þessa styrkveitingu að fengnu áliti úthlutunarnefndar á fundi sínum þann 10. ágúst sl. Vanhæfnisreglna var gætt í hvívetna í ferlinu öllu. 


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389