Fréttir
Samtalið um aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga er hafið
Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á byggðir landsins og sveitarfélög. Einhverjar breytingar, sem líklegt er að tengja megi við áhrif loftslagsbreytinga, eru þegar farnar að eiga sér stað innan sveitarfélaga landsins líkt og fram kom á ráðstefnunni og mikilvægt er að huga að mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á byggðir, atvinnugreinar, innviði, skipulagsmál og samfélögin sjálf, svo eitthvað sé nefnt.
Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnunni Aðlögun að breyttum heimi - hefjum samtalið á mánudag, sem skipulögð var af Byggðastofnun, Veðurstofu Íslands, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Leiðarstef fundarins var í raun það að nú sé tími til kominn að taka umræðuna um aðlögun inn í loftslagsumræðuna. Aðlögun að loftslagsbreytingum, er ferli sem miðar að því að draga úr tjónnæmi gagnvart loftslagsbreytingum og í raun laga samfélögin okkar, innviði og atvinnugreinar að áhrifum loftslagsbreytinga. Slíkar breytingar eru ekki einskorðaðar við bein veðurfarsleg áhrif, líkt og breytingar í veðri, bráðnandi jökla og aukna úrkomuákefð, heldur geta þær haft mikil, óbein áhrif á umhverfi okkar, efnahag og samfélög. Hingað til hefur loftslagsumræðan að mestu verið bundin við aðgerðir og aðferðir til þess að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, svokallaðar mótvægisaðgerðir. Nú sé komin upp ákveðinn vendipunktur í umræðunni, þar sem þörf sé á að taka málefni aðlögunar upp samhliða þeirri vinnu sem fylgir mótvægisaðgerðum.
Ráðstefnunni var ætlað að stíga fyrstu skrefin í sameiginlegu samtali stofnana ríkisins, stjórnvalda og ekki síst, sveitarstjórna um allt land, um þær áskoranir sem framundan eru innan aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga. Fundur var einkar vel sóttur auk þess sem rúmlega 500 manns höfðu horft á streymi fundarins í lok dags. Sævar Helgi Bragason stýrði fundinum og var dagskráin samansett af fjölbreyttum erindum sem fjölluðu um málið út frá ýmsum hliðum, s.s. út frá vísindunum, byggðamálum, sveitarstjórnarmálum, skipulagsmálum, kerfisáhættu og ekki síst út frá félagslegum þáttum.
Tveir ráðherrar ávörpuðu fundinn, þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannson, innviðaráðherra. Auk þeirra voru erindi frá fulltrúum Veðurstofu Íslands, Byggðastofnunar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Skipulagsstofnunar og Austurbrúar. Loks lauk fundinum með pallborði þar sem fulltrúar fjögurra sveitarfélaga, Múlaþings, Fjallabyggðar, Reykjavíkurborgar og Sveitarfélagsins Hornarfjarðar ræddu sína sýn á málaflokkinn. Meðal umfjöllunarefna fundarins var þýðing loftslagsbreytinga fyrir mismunandi landshluta, atvinnugreinar, samfélög, innviði, efnahag og umhverfi, sem og hvernig áhættumat og aðlögunaraðgerðir geti lágmarkað skaðleg áhrif loftslagsbreytinga og hjálpað við að grípa möguleg tækifæri sem kunna að gefast hér á landi. Út frá pallborðsumræðum var ljóst að áhrif loftslagsbreytinga eru þegar farin að hafa mikil áhrif á ýmis sveitarfélög, rekstur þeirra og ákvarðanatöku. Var þar sérstaklega kallað eftir nákvæmari sviðsmyndum og upplýsingum til sveitarfélaga varðandi möguleg áhrif loftslagsbreytinga til framtíðar, svo hægt sé að byggja ákvarðanir og framtíðar fjárfestingar á slíkum forsendum.
Stefna Íslands og undirbúningur landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum
„Við verðum við öll að læra á næstu árum að hugsa um áhrif loftslagsbreytinga þegar við byggjum húsin okkar, skipuleggjum byggðir, hugum að líffræðilegri fjölbreytni og tökum ákvarðanir innan fyrirtækjanna okkar sem móta framtíð atvinnuvega og þjóðarhag,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í ávarpi sínu. Bæði þau Guðlaugur og Halla Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri Skrifstofu loftlagsmála, ræddu nýlega stefnu íslenskra stjórnvalda í aðlögun að loftslagsbreytingum og aðgerðaáætlun sem er nú í mótun. Með slíkri áætlun verður Íslandi búinn rammi utan um þá mikilvægu vinnu sem þarf að fara fram í öllu samfélaginu, meðal almennings, stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga.
„Jafnframt er ég að skipa í fyrsta skipti stjórn yfir samráðsvettvang um þekkingarsköpun um áhrif loftslagsbreytinga, þar sem tilgangurinn er að öðlast yfirsýn yfir þá þekkingu sem við höfum. En ekki síður hvaða þekkingu okkur vantar svo að við getum unnið markvisst að því að efla rannsóknir á áhrifum og afleiðingum loftslagsbreytinga á Íslandi,“ sagði Guðlaugur Þór.
Þverfaglegt viðfangsefni sem snertir fjölmörg málefni innan Innviðaráðuneytis
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, talaði sérstaklega um mikilvægi samráðs ríkis, stofnana og sveitarfélaga í þeirri vinnu sem framundan er. ,,Hér er um að ræða þverfaglegt viðfangsefni og ríkt samráð ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga kemur til með að vera algjört lykilatriði í þeirri vinnu sem framundan er. Til að mynda, þá munu aðlögunarmál koma á borð til okkar í flestum ef ekki öllum málaflokkum innviðaráðuneytisins, svo sem samgöngumálum, sveitarstjórnarmálum, skipulagsmálum, húsnæðismálum og ekki síst innan byggðamála.“
Það voru einmitt fulltrúar tveggja stofnanna Innviðaráðuneytisins sem tóku til máls á ráðstefnunni, þau Ragnhildur Friðriksdóttir fyrir hönd Byggðastofnunar og Ólafur Árnason, settur forstjóri Skipulagsstofnunar. Í erindi sínu Hvað er í húfi fyrir byggðir landsins, talaði Ragnhildur um mikilvægi þess að útvíkka hugsun okkar innan loftslagsmála í átt að efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, og ekki síst á atvinnugreinarnar okkar. Hún ræddi sérstaklega um möguleg áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess og mögulega þýðingu þess á íslenskan sjávarútveg og sjávarbyggðir. Mikilvægt sé nú að hefja kortlagningu mögulegra áhrif loftslagsbreytinga á atvinnugreinarnar okkar, innviði og samfélög, sem og hefja mat á tjónnæmi og berskjöldun okkar gagnvart umræddum áhrifum. Slík aðlögunarvinna geri byggðir landsins betur í stakk búnar til þess að takast á við neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, sem og grípa þau tækifæri sem mögulega gefast í þeim breytingum sem framundan eru.
Ragnhildur ræddi einnig um nýja aðgerð í byggðaáætlun, C.10 Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög. Byggðastofnun er framkvæmdaraðili aðgerðarinnar ásamt Veðurstofu Íslands og Skipulagsstofnun, en Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið er ábyrgðarráðuneyti. Aðgerðinni er ætlað að taka fyrstu skref í mótun heilstæðrar nálgunar á aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Markmiðið er fyrst og fremst mótun aðferðafræði og leiðarvísis sem sveitarfélög geti nýtt sér í framhaldinu til þess að móta aðlögunaráætlarnir. Óskaði Ragnhildur sérstaklega eftir áhugasömum sveitarfélögum til þess að taka þátt í þessari vinnu.
Upptöku frá ráðstefnunni má finna hér, auk þess sem upptöku af útvarpsviðtali Ragnhildar í Samfélaginu á Rás 1, þar sem hún ræddi viðburðinn og aðlögunarmál, má finna hér.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember