Fara í efni  

Fréttir

Samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun

Út er komin skýrsla Byggðastofnunar, Samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun . Til skoðunar eru svæði þar sem íbúum fækkaði um 15% eða meira á 15 ára tímabili, árin 1994-2009, alls 30 sveitarfélög. Meginsvæðin eru norðvestur-, norðaustur- og suðausturhorn landsins, auk Dalabyggðar og Vestmannaeyjabæjar.

Sveitarfélögin 30 voru heimsótt og fundir haldnir með sveitar- og bæjarstjórnum, atvinnuráðgjöfum og forsvarsmönnum nokkurra fyrirtækja sem kalla má burðarása í sínum samfélögum. Skýrslan byggir á úrvinnslu fundanna, sem og  tölfræðilegum upplýsingum um íbúaþróun, þjónustukönnun sem sveitar- og bæjarstjórar í sveitarfélögunum svöruðu og viðhorfskönnun meðal íbúa á aldrinum 20-39 ára í viðkomandi sveitarfélögum.

Í skýrslunni birtast einnig greinar eftir sjö höfunda, um stöðu kvenna á landsbyggðinni,   ferðaþjónustu, framhaldsskóladeild í Vesturbyggð, atvinnulíf og byggðaþróun, búferlaflutninga og samgöngubætur, staðvæðingu þjónustu og sjónarhorn íbúa svæðis sem á undir högg að sækja.

Svæðin sem til umfjöllunar er í skýrslunni eru: Vesturland: Dalabyggð.  Vestfirðir: Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Reykhólahreppur, Árneshreppur, Strandabyggð og Kaldrananeshreppur. Norðurland vestra:  Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduóssbær og Sveitarfélagið Skagaströnd. Norðurland eystra:  Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit,  Skútustaðahreppur, Norðurþing, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð. Austurland:  Vopnafjarðarhreppur, Borgarfjörður eystri, Seyðisfjarðarkaupstaður, Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur.  Suðurland: Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur og Vestmannaeyjabær.

Helstu niðurstöður:

Íbúum þessara sveitarfélaga fækkaði frá rúmum 12% í um 50% á tímabilinu. Sums staðar virðist þróunin heldur upp á við undanfarin ár.

Mikill munur er á fólksfækkun í þéttbýli og dreifbýli, t.d. er fækkunin 30% í dreifbýli í Dalabyggð en aðeins 5% í Búðardal. Á Vestfjörðum er þróunin misjöfn í þéttbýlisstöðunum, t.d. er 40% fækkun í Hnífsdal og á Flateyri en 16% á Ísafirði og Suðureyri. Á Bíldudal fækkaði um 45% og svipað hlutfall var á Raufarhöfn og Bakkafirði.

Fækkað hefur í yngri aldurshópum en fjölgað í þeim eldri. Þetta er þó ekki algilt, þótt almennt megi segja að það sé svokallað „mitti“ í aldurstrénu þar sem vantar inn í hópinn 20-39 ára. Á sunnanverðum Vestfjörðum hefur íbúum undir tvítugu fækkað um meira en helming og í aldurshópnum 20-39 ára fækkaði um nær 40% á tímabilinu. Í Breiðdalshreppi hefur orðið nánast hrun í yngri aldurshópum. Fækkun yngra fólks hefur í för með sér að dregur úr fæðingatíðni eða náttúrulegri fjölgun.

Yfirleitt eru karlar fleiri en konur, en það er þó misjafnt eftir aldurshópum og milli svæða. Dæmi eru um að dregið hafi úr mun milli kynjanna hvað íbúafjölda varðar. Sums staðar er fjöldi erlendra ríkisborgara yfir landsmeðaltali, t.d. á Vestfjörðum, nema á Ströndum. Almennt hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað á tímabilinu.

Þau byggðarlög sem hér eru til skoðunar byggja atvinnulíf mikið til á frumvinnslugreinunum sjávarútvegi og landbúnaði. Þrjú sveitarfélög af 30 eru án þéttbýliskjarna.

Sums staðar eru stór sjávarútvegsfyrirtæki burðarás í atvinnulífi svæðisins. Nefna má Odda í Vesturbyggð, Þórsberg á Tálknafirði, Ramma í Fjallabyggð, Hólmadrang  á Hólmavík, Vísi á Djúpavogi og Þingeyri, HB-Granda á Vopnafirði og Skinney-Þinganes á Höfn.  Í Vestmannaeyjum eru fyrirtækin tvö, Vinnslustöðin og Ísfélagið og það síðarnefnda er burðarás atvinnulífs á Þórshöfn. Á Húsavík eru einnig tvö fyrirtæki, GPG og Vísir. Af öðrum stærri fyrirtækjum sem burðarásar í heimabyggð má nefna Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum og Austfar sem þjónustar Norrænu á Seyðisfirði.

Fiskeldi er í vexti á Vestfjörðum með aðkomu fyrirtækja eins og HG,  Odda og Þórsbergs, en fiskeldisfyrirtæki eru víðar á þeim svæðum sem hér eru til umfjöllunar. Sjávarútvegsfyrirtækin leiða eða taka þátt í margvíslegu þróunarstarfi, t.d. sem snertir framleiðslu matvæla, lyfja o.fl.

Ferðamönnum fjölgar ár frá ári og framboð á þjónustu og afþreyingu eykst að sama skapi. Samgöngubætur skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustu. Mikil uppbygging er t.d. á Siglufirði og væntingar vegna samgöngubóta, t.d.  á norðausturhorninu, Hólmavík og nágrenni og í Vestmannaeyjum. Á sumum svæðum hefur verið mikill ferðamannastraumur um árabil, t.d. um Suðurland og í Mývatnssveit og nágrenni. Vatnajökulsþjóðgarður skapar tækifæri í ferðaþjónustu, bæði í Norðurþingi og á suðausturhorninu.

Víða er þó nokkur framleiðsluiðnaður og nýsköpun, t.d. Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal sem er mikilvægt fyrirtæki í heimabyggð,  3xTechnology og Xeresis á Ísafirði, Murr á Súðavík og Villimey á Tálknafirði, Vilko og Ísgel á Blönduósi, PharmArctica á Grenivík og svo mætti lengi telja.

Rannsóknir og þróun hjá þekkingar- og fræðasetrum og fyrirtækjum er mjög mikilvæg starfsemi víða um land. Á Vestfjörðum eru til dæmis 24 starfsstöðvar þekkingarsetra. Með starfsemi þeirra eykst t.d. menntunarstig og möguleikar á störfum fyrir háskólamenntaða aukast.

Krafa um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni heyrist víða. Slík störf, eða stofnanir, skipta miklu máli. Nefna má Vinnumálastofnun á Skagaströnd þar sem starfa um 25 manns, Fæðingarorlofssjóð á  Hvammstanga með 12 störf og flest fyrir háskólamenntaða.

Ýmsar væntingar eru varðandi atvinnuuppbyggingu á þessum svæðum. Til dæmis um byggingu gagnavers við Blönduós, vegna álvers við Bakka eða annarrar stóriðju þar, um uppbyggingu vegna olíuvinnslu á Drekasvæðinu og olíuflutninga sem staðsett yrði í Finnafirði (Gunnólfsvík).

Samgöngubætur breyta miklu fyrir íbúa þeirra svæða sem hér um ræðir. Nefna má veg um Hófaskarð á norðausturhorninu, veginn um Arnkötludal (Þröskulda), göngin milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og Héðinsfjarðargöng og Landeyjahöfn. Ekki eingöngu hefur þetta jákvæð áhrif á búsetu, heldur einnig fyrir atvinnulíf og ekki síst ferðaþjónustu. Skortur á samgöngubótum voru líka til umræðu víða, sérstaklega í  Árneshreppi, en byggðin er einangruð að vetrinum og helsta samgönguæð er flug til Reykjavíkur. Bæta þarf samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum og vegtengingu milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða, eigi svæðið að geta starfað saman sem heild. Samgöngubætur eru lykilatriði fyrir Seyðfirðinga þar sem Fjarðarheiðin er mikill farartálmi. Á Austurlandi var einnig rætt um bætur á þjóðvegi eitt yfir Breiðdalsheiði og hins vegar á vegi yfir Öxi sem myndi stytta leiðina frá Djúpavogi á Hérað.

Mörg þessara svæða eru „köld“, þ.e. heitt vatn hefur ekki fundist, eða þá í litlu magni. Það gildir t.d. víða á Vestfjörðum. Þá er kynt með rafmagni sem er dýrari kostur en húshitun með jarðvarma.

Hátt hlutfall frístundahúsa (húsa í eigu fólks sem ekki hefur fasta búsetu) er sums staðar í þéttbýli, t.d. á Drangsnesi, Siglufirði og Seyðisfirði. Slík búseta hefur bæði neikvæð og jákvæð áhrif. Þau neikvæðu geta t.d. verið minni skatttekjur, en þau jákvæðu geta verið þau að húsum sé viðhaldið og íbúarnir auðgi menningarlíf staðarins. Sums staðar eru jarðir einnig í eigu utanaðkomandi, þ.e. ekki í fastri ábúð, eða þá ábúð án hefðbundins búskapar.

Undanfarin ár hefur verslunum fækkað víðast hvar í þéttbýli, enda hafa samgöngur batnað og auðveldara að sækja verslun og þjónustu út fyrir sitt byggðarlag. Sérverslun hefur t.d. víða nánast lagst af, en þó með undantekningum, helst þar sem stærri þéttbýlisstaður er einangraður vegna samgangna eða langt frá höfuðborginni. Það gildi t.d. um Ísafjörð og Vestmannaeyjar og þar er öflug verslun með mörgum sérverslunum. Sama má segja um  Húsavík sem er þjónustukjarni fyrir austanvert svæðið.

Framhaldsskóli eða framhaldsskóladeild í heimabyggð eflir búsetu og dregur úr brottfalli úr námi. Mikil ánægja er til dæmis með samstarf skólavers á Patreksfirði við framhaldsskólann á Grundarfirði og hefur það haft mikil áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum. Unglingar sækja annars framhaldsskóla víða og jafnvel þótt framhaldsskóli sé í nágrenninu, til dæmis á Austurlandi.

Menningarlíf er víða öflugt og má nefna að í mörgum sveitarfélögum er haldið uppi metnaðarfullu æskulýðs- og íþróttastarfi, auk annars félagsstarfs. Víða er mikið um menningarviðburði, bæði heimatilbúna og aðkomna, til dæmis eru haldnar íbúahátíðir um allt land, sumar hafa vakið landsathygli og jafnvel víðar.

Miklar áhyggjur voru vegna fyrirhugaðs niðurskurðar hins opinbera, ekki síst varðandi heilbrigðisþjónustu. Viðmælendum þótti gæta skilningsleysis hjá stjórnvöldum og að gjá milli landsbyggðar og höfuðborgar og þarf að rétta hlut landsbyggðarinnar, t.d. með því að sýna fram á hvert framlag hennar er til þjóðarbúsins.

Mikið samstarf er með sveitarfélögum og telja sumir það í raun koma í stað sameiningar. Samgöngubætur breyta einnig myndinni bæði varðandi samstarf og sameiningu. Sum sveitarfélög ná yfir mjög stórt svæði og þar hafa mörg sveitarfélög sameinast. Í slíkum tilvikum getur tekið langan tíma að íbúarnir upplifi sig sem eina heild.

Ýmsar hugmyndir komu fram til eflingar búsetu og atvinnulífi á svæðunum, t.d. hugmynd um háskóla hafsins á Vestfjörðum. Áhugi er á að Eyjafjörður verði viðkomustaður vegna opnunar siglingaleiða um norðurheimskautssvæðið. Það tengist e.t.v. hugmyndum í Langanesbyggð um uppbyggingu vegna olíuvinnslu. Þá má nefna aðrar stórhuga hugmyndir eins og gagnaver við Blönduós, stóriðju við Bakka o.fl. Margar hugmyndir komu fram um verkefni sem tengjast ferðaþjónustu, um þróun í landbúnaði eins og t.d. matvæli beint frá býli, um fiskeldi, rannsóknir og þróun og margt fleira.

Framkvæmd var viðhorfskönnun meðal íbúa svæðanna.  Tekið var 1500 manna slembiúrtak fólks á aldrinum 20-39 ára.  Niðurstöður byggja á svörum frá 281 þátttakanda og svarhlutfall var 19%. Rétt er að setja fyrirvara við alhæfingargildi viðhorfskönnunarinnar þar sem svarhlutfall var svo lágt, en engu að síður gefa svörin vísbendingar sem vert er að skoða.

Svarendur flestra svæða töldu atvinnutækifæri fyrir bæði karla og konur frekar eða mjög slæm, en í Vestmannaeyjum voru þau að meirihluta sögð mjög eða frekar góð fyrir bæði karla og konur. Afgerandi meirihluti svarenda í öllum landshlutum taldi atvinnulífið mjög eða frekar einhæft.

Um 53% svarenda, eða 150 af 281 hafa íhugað að flytja frá byggðarlaginu. Þar af hafa 80% svarenda 20-24 ára íhugað að flytja, um 48% á aldrinum 25-29 ára, 54% á aldrinum 30-34 ára og 45% á aldrinum 35-39 ára.  Hlutfallslega fleiri karlar en konur höfðu íhugað að flytja, eða 60% á móti 49%. Flestir nefndu fá atvinnutækifæri sem ástæðu, eða 37%.  Hlutfallslega fæstir sögðust ætla að flytja frá Vestmannaeyjum.   Fjórir af hverjum tíu sögðust ætla flytja frá Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi á meðan fimm af hverjum tíu hyggja á flutninga frá Suðausturlandi.

Nánari upplýsingar gefa Sigríður Þorgrímsdóttir ritstjóri sigga@byggdastofnun.is , Elín Gróa Karlsdóttir elin@byggdastofnun.is og Sigurður Árnason sigurdur@byggdastofnun.is.

Fréttatilkynning í pdf formi.


Til baka

Fréttasafn

2025
janúar
2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389