Fréttir
Íbúafundur á Borgarfirði eystri markar tímamót í verkefninu Betri Borgarfjörður
Þann 16. mars var boðað til íbúafundar á Borgarfirði eystri í verkefninu Betri Borgarfjörður. Í því sambandi er hægt að tala um tímamót í byggðaþróunarverkefninu. Byggðastofnun dregur sig í hlé og þar með verður ekki um að ræða frekari úthlutun fjármuna frá Brothættum byggðum til verkefnisins. Verkefnisstjóri þess frá upphafi, Alda Marín Kristinsdóttir, lauk við þetta tækifæri einstaklega farsælu starfi sínu sem verkefnisstjóri í Betri Borgarfirði. Hún var ráðin til starfa hjá Austurbrú á upphafsstigum verkefnisins, á fyrri hluta árs 2018, enda mikilvægt að tengjast atvinnuráðgjöf og stoðkerfi í landshlutanum. Fundarmenn hylltu Öldu Marín með lófaklappi.
Múlaþing óskaði formlega eftir framlengingu á verkefninu Betri Borgarfjörður á seinni hluta árs 2021. Fram kom í máli fulltrúa Byggðastofnunar, Kristjáns Þ. Halldórssonar, að freistandi hefði verið að verða við bón Múlaþings og Borgfirðinga um framlengingu á verkefninu enda samstarfið mjög ánægjulegt. Á hinn bóginn væri árangur af verkefninu góður og þörf á að stofnunin beindi kröftum sem fyrst að byggðarlögum sem hafa glímt við langvarandi vanda en ekki komist að í Brothættum byggðum til þessa.
Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, sagði árangurinn af verkefninu Betri Borgarfjörður mikinn og sagði sveitarfélagið síður en svo vilja líta svo á að verkefninu væri lokið. Það hefðu orðið viss vonbrigði að verkefnið væri ekki framlengt af hálfu Byggðastofnunar en í leiðinni væri það ákveðin vísbending um góðan árangur. Því væri full ástæða til að halda áfram á sömu braut og jafnvel nýta verklagið víðar í sveitarfélaginu. Múlaþing hefði því gert ráðstafanir til að ráða starfsmann á Borgarfirði eystri til að halda utan um framfaramál byggðarlagsins. Nánar yrði greint frá þeim á næstunni.
Það má með sanni segja að Borgfirðingar hafa nýtt sér þau tækifæri sem felast í verkefninu svo sem mögulegt er og hefur þátttaka verið almenn. Ýmis framfaraverkefni hafa litið dagsins ljós og sum hver orðið að spennandi atvinnurekstri. Einnig hefur mæting á viðburði á vegum verkefnisins verið góð. Borgfirðingar brugðust ekki að þessu leytinu nú frekar en fyrri daginn og hófu fundinn með flutningi á lagi með glænýjum texta um verkefnið Betri Borgarfjörð. Hann fer hér á eftir með leyfi höfundar, Tinnu Jóhönnu Magnusson.
Það er ein byggð við Borgarfjörð
sem brothætt orðin var,
hóf þátttöku í verkefni
Byggðastofnunar.
Á íbúafundi við sungum
og fengum gæsahúð,
brátt var allt hér komið á fullt
og aftur opnuð Búð.
Við fengum góða styrki
fyrir dúnvinnslu og brugg,
og Alda Marín verkefninu
stjórnaði örugg.
Íbúunum fjölgaði,
hér risu fleiri hús,
Hjúkrunarfræðing eignuðumst glöð
og sjúkrabíl í plús.
Hér gerðist ótal annað:
fjallið malbikað!
Þó verkefninu ljúki við
höldum áfram óhikað.
Gott fólk, segið fleirum
að þessi leið sé vís:
fjörðinn fagra sækja heim
og setjast að í paradís.
Það er ein byggð við Borgarfjörð
sem brothætt orðin var,
en nú með björtum augum við
horfum til framtíðar.
Lag: Animals, House of the rising sun, Texti: Tinna Jóhanna Magnusson
Í lok fundar færðu fulltrúar íbúa í verkefnisstjórn Öldu Marín gjöf fyrir hennar mikilvæga þátt í verkefninu. Fundinum lauk eins og hann hófst, með söng. Í lok fundar sungu allir fundarmenn um Borgarfjörð.
Fulltrúar Byggðastofnunar vilja nota tækifærið og þakka íbúum fyrir almenna og góða þátttöku og mikið frumkvæði. Þátttaka þeirra hefur skipt sköpum um árangur í verkefninu. Enn fremur eru Austurbrú, SSA og Borgarfjarðarfjarðarhreppi, nú Múlaþingi, færðar þakkir fyrir gott samstarf í verkefninu. Þá eiga fulltrúar þessara aðila og fulltrúar íbúa í verkefnisstjórn miklar þakkir skildar fyrir að leiða verkefnið ásamt Öldu Marín. Verkefnisstjórn var þannig skipuð síðustu misserin; Signý Ormarsdóttir fyrir Austurbrú, Stefán Bogi Sveinsson fyrir SSA, Jón Þórðarson fyrir Múlaþing, Elísabet Sveinsdóttir og Óttar Kárason, fulltrúar íbúa og Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson, fulltrúar Byggðastofnunar.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember