Fara í efni  

Fréttir

Vel sóttar vinnustofur um áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga á sveitarfélög

Áhrifa vegna loftslagsbreytinga á Íslandi er þegar farið að gæta hér á landi samkvæmt fjórðu og nýjustu matsskýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Breytingar í umhverfi okkar og veðurfari, líkt og hækkandi yfirborð sjávar, breytingar á úrkomumynstri og aukin tíðni og umfang ofsaveðurs munu fela í sér verulegar áskoranir fyrir íslensk sveitarfélög og ljóst að þau þurfa að búa sig undir fjölþættar afleiðingar á ýmsa þætti samfélagsins.

Uppbygging og styrking sjóvarnargarða, skýrari hlutverk viðbragðsaðila, bætt viðbragðsgeta ýmissa stofnana innan og utan sveitarfélaganna, fjárfestingar í tækjabúnaði, fyrirbyggjandi aðgerðir og bætt upplýsingaflæði til íbúa er meðal þess sem sveitarfélög þurfa nú helst að horfa til, ef marka má niðurstöður fyrstu vinnustofanna í samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Veðurstofu Íslands, umhverfis,-orku og loftslagsráðuneytis og Skipulagsstofnunar um aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Eins er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að allar skipulagsákvarðanir innan sveitarfélaga taki mið af mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á þau svæði sem um ræðir hverju sinni.

Vinnustofurnar þrjár í síðustu viku voru vel sóttar þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í tengslum við möguleg áhrif yfirvofandi loftslagsbreytinga á sín starfssvið. Markmið vinnustofanna var að taka fyrstu skref í svokallaðri áhættuskimun. Því var áhersla lögð á að fá inn á fundinn alla helstu hagaðila sem orðið geta fyrir áhrifum vegna loftslagsbreytinga, í von um að hægt verði að kortleggja öll helstu áhrif og afleiðingar innan sveitarfélaganna.

Frá vinnustofum á Akureyri (t.v.) og í Fjallabyggð (t.h).

Á Akureyri var vinnustofan haldin í Hofi þar sem um 40 þátttakendum var boðið. Þar var til umræðu, annars vegar, afleiðingar hækkandi sjávarstöðu og sjávarflóða og hins vegar áhætta, afleiðingar og viðbrögð vegna gróðurelda í og við Kjarnaskóg. Rýnt var í fyrri flóðaatburði og afleiðingar þeirra kortlagðar en ekki þurfti að fara lengra aftur en til loka síðasta árs þegar mikil sjávarflóð urðu á Oddeyrinni. Auk þess var horft til framtíðar sviðsmynda Veðurstofunnar og rýnt í spár um s.k. 100 ára flóð og möguleg áhrif þeirra skoðuð. Eins voru áhrif gróðurelda í Kjarnaskógi og á tjaldsvæðinu Hömrum kortlögð út frá hinum ýmsu sjónarhornum, s.s. viðbragði brunavarna, flóttaleiðum, viðbragðsgetu sjúkrahússins og áhrif á atvinnustarfsemi.

Vinnustofan á Akureyri var haldin í Hofi.

Í Fjallabyggð tóku um tuttugu þátt og rýndu í mögulegar afleiðingar hækkandi yfirborðs sjávar með vaxandi tíðni og umfangi á 100 ára flóðum, bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði. Í sveitarfélaginu hefur þegar verið gripið til ýmissa aðgerða til að reyna að komast fyrir helstu afleiðingar sjávar- og vatnsflóða í þéttbýli. Út frá umræðum innan vinnustofunnar er þó ljóst að áframhaldandi hækkun sjávarmáls muni fylgja ýmsar áskoranir fyrir sveitarfélagið og íbúa þess sem mikilvægt er að fyrirbyggja eins og kostur er.

Ragnhildur Friðriksdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnun og verkefnisstjóri verkefnisins, opnar vinnustofuna í Fjallabyggð.

Um fimmtán manns tóku þátt í vinnustofunni fyrir Reykhólahrepp og ræddu áhrif þurrka á sveitarfélagið, ekki síst á framboð neysluvatns fyrir íbúa, stofnanir og fyrirtæki á svæðinu. Miklir þurrka síðustu sumur hafa leikið sveitarfélagið grátt og m.a. haft í för með sér neikvæð áhrif á framboð af köldu neysluvatni á svæðinu. Slíkt hefur þegar haft neikvæð áhrif á öryggi neysluvatns, rekstur hjúkrunarheimila, skóla, fyrirtækja og býla en ekki síst á öryggi íbúa í tengslum við brunavarnir, svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að kortleggja vandann og móta fyrirbyggjandi aðgerðir, ekki síst í ljósi fyrirliggjandi áætlana um framtíðaruppbyggingu innan sveitarfélagsins.

Frá vinnustofunni í Reykhólum. Theódóra Matthíasdóttir frá skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands fer yfir niðurstöður nýjustu matsskýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.

Næstu vinnustofur verða haldnar í Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Hornafirði á næstu vikum.

 

Fimm íslensk sveitarfélög taka þátt í verkefninu um aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga (C.10 í byggðaáætlun), en Byggðastofnun fer með verkefnisstjórn verkefnisins. Hvert sveitarfélaganna þriggja mun takast á við ólíkar áskoranir vegna loftslagsáhrifa innan verkefnisins, s.s. þurrka, hopun jökla, aukinn ágang sjávar vegna hækkandi sjávarstöðu, gróðurelda og ofsaveður. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Akureyrarbær, Fjallabyggð, Sveitarfélagið Hornafjörður, Reykhólahreppur og Reykjanesbær. Markmið verkefnisins er að skapa skýran farveg og ferla fyrir íslensk sveitarfélög þegar kemur að mótun aðlögunaraðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Afurðir verkefnisins muni þannig aðstoða íslensk sveitarfélög til að hámarka aðlögunargetu sína, grípa til aðgerða og lágmarka um leið efnahagslegt tjón og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á íslenskar byggðir, atvinnuvegi, innviði, samfélög og byggðaþróun.


Til baka

Fréttasafn

2025
janúar
2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389