Fréttir
Áhrif loftslagsbreytinga sífellt stærra viðfangsefni sveitarfélaga
Umræðan um aðlögun gegn áhrifum loftslagsbreytinga verður sífellt meira áberandi. Ekki aðeins hér á Íslandi, heldur einnig í Evrópu og á alþjóðavettvangi. Sveitarfélög um alla Evrópu eru þegar farin að finna fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og eru aðgerðir, fjármögnun og hlutverk sveitarstjórnarstigsins að verða eitt af lykil viðfangsefnunum þegar kemur að aðlögun ríkja og samfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga.
Síðustu misserin hafa tvær af stærstu ráðstefnum Evrópu innan aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga verið haldnar, annars vegar norræn ráðstefna hér á Íslandi (NOCCA) og hins vegar evrópsk ráðstefna í Dublin á Írlandi (ECCA). Þar komu saman helstu sérfræðingar innan málaflokksins ásamt fulltrúum stjórnvalda til að ræða afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir ríki, sveitarfélög, innviði, atvinnugreinar, byggðaþróun og samfélög sem og aðgerðir og aðferðir til aðlögunar að þessum breytingum.
Nýjar áskoranir í breyttu umhverfi kalla einnig á staðbundnar aðgerðir
Niðurstöður ráðstefnanna eru ótvíræðar og kalla á aðgerðir strax. Afleiðingar loftslagsbreytinga líkt og hækkandi yfirborð sjávar, aukin tíðni og umfang ofsaveðurs, gróðureldar, þurrkar, flóð, skriðuföll og hækkandi hitastig eru raunverulegar áskoranir og aðkallandi fyrir ríki, sveitarfélög, atvinnugreinar og samfélög að grípa til aðgerða. Brýnt sé að ræða og skilgreina fjármögnun og hlutverkaskipti milli ríkisstjórna, fylkja og sveitarfélaga innan málaflokksins og ekki síður að þróa aðferðir sem nýtast á sveitarstjórnarstigi til þess að móta og þróa aðlögunaraðgerðir. Slíkt sé meira aðkallandi nú en nokkru sinni fyrr til þess að gera sveitarfélög betur í stakk búin til að takast á við helstu afleiðingar þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað.
Byggðastofnun stýrir nýju samstarfsverkefni
Á báðum þessum ráðstefnum var samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis til umræðu. Verkefnið er aðgerð C.10 í byggðaáætlun og miðar að því að móta leiðarvísi fyrir íslensk sveitarfélög til mótunar aðlögunaraðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga og fer Byggðastofnun þar með verkefnisstjórn. Einn af meginþáttum verkefnisins verður að leiða saman aðila, fagstofnanir, ráðuneyti og skýra hlutverk allra þeirra sem að málaflokknum koma, sem er einmitt ein af helstu áskorunum framundan að mati sérfræðinga á sviði aðlögunarmála í Evrópu.
Magnús Örn Agnesar Sigurðsson, sérfræðingur hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, kynnir aðgerð C.10 í byggðaáætlun á hinni evrópsku ECCA aðlögunarráðstefnu í júní.
Fimm íslensk sveitarfélög valin til þátttöku
Verkefnið, sem mun fara af stað af fullum krafti í haust innan fimm þátttökusveitarfélaga, mun rýna í áhrif loftslagsbreytinga innan íslenskra sveitarfélaga, s.s. skriðuföll, þurrka, gróðurelda, óstöðugar hlíðar og ofsaveður, þar sem aðgerðir til aðlögunar verða mótaðar í nánu samstarfi við fulltrúa sveitarfélaganna, stofnanir og aðra hagaðila.
Að þessum tveimur ráðstefnum loknum er mikilvægi umrædds samstarfsverkefnis, um aðlögun íslenskra sveitarfélaga, óumdeild. Verkefnið miðar að því að hámarka aðlögunargetu íslenskra sveitarfélaga gagnvart neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga og lágmarka um leið efnahagslegt tjón og neikvæð áhrif á íslenskar byggðir, samfélög og byggðaþróun.
Helstu afurðir verkefnisins verða leiðarvísir fyrir íslensk sveitarfélög til mótunar aðlögunaraðgerða, sem og dæmi um aðlögunaraðgerðir sveitarfélaga og innleiðingu þeirra.
Þátttökusveitarfélögin fimm sem taka þátt í aðlögunarverkefni Byggðastofnunar, Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Nánar um ráðstefnurnar:
Annars vegar var um að ræða hina norrænu NOCCA ráðstefnu, eða Nordic Conference on Climate Adaptation, sem haldin var í Reykjavík í apríl sl., og hins vegar evrópsku ráðstefnuna ECCA, eða European Conference on Climate Adaptation, sem haldin var í Dublin í síðustu viku. Eitt af lykilviðfangsefnum þessara ráðstefna voru áskoranir sveitarfélaga þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga og mótun aðlögunaraðgerða til varnar þeim.
Ljóst er að hér er um að ræða áskorun sem allar okkar helstu nágrannaþjóðir eru farnar að taka mjög alvarlega, enda eru áhrif loftslagsbreytinga á innviði, atvinnugreinar, byggðaþróun og samfélög þegar komnar fram víða um Evrópu og er Ísland þar engin undantekning.
Á hinni norrænu NOCCA, sem skipulögð var af Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, voru áskoranir norrænna sveitarfélaga vegna áhrifa loftslagsbreytinga meginviðfangsefnið. Ein af fjórum vinnustofum ráðstefnunnar fjallaði um aðlögun á sveitarstjórnarstigi og var umrætt samstarfsverkefni úr byggðaáætlun þar í brennidepli. Vinnustofan var einkar vel sótt og mikill samhljómur í helstu áskorunum og væntingum norrænna þjóða þegar kemur að mótun aðlögunaraðgerða á sveitarfélagastigi.
Ágrip frá ráðstefnunni hefur verið birt á síðu Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem áskoranir sveitarfélaga eru aftur í forgrunni. Er þar sérstaklega bent á mikilvægi aukinnar samvinnu milli stjórnvalda og sveitarstjórnarstigsins þegar kemur að viðbrögðum vegna áhrifa loftslagsbreytinga og að einkar brýnt sé að skerpa á hlutverkum mismunandi aðila þegar kemur að mótun, innleiðingu og fjármögnun aðgerða.
Á hinni evrópsku ECCA ráðstefnunni, sem haldin var í Dublin í júní var umrædd aðgerð í byggðaáætlun aftur til umræðu á hliðarviðburði sem haldinn var af skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands. Þar voru helstu niðurstöður NOCCA kynntar auk þess sem Magnús Örn Agnesar Sigurðsson, sérfræðingur hjá skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, kynnti umrædda aðgerð sem Byggðastofnun leiðir. Aftur voru málefni sveitarfélaga í áberandi og miklar umræður um þær aðferðir sem sveitarfélögum stendur til boða við mótun sjálfbærra aðlögunaraðgerða, fjármögnun þeirra og hlutverkaskipan milli ríkisstjórna, stofnana og sveitarfélaga.
Frá NOCCA ráðstefnunni sem haldin var á Grand Hótel Reykjavík í apríl sl.
Allar nánari upplýsingar gefur Ragnhildur Friðriksdóttir sérfræðingur Byggðastofnunar í umhverfis- og loftslagsmálum. ragnhildur@byggdastofnun.is
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember