Fara í efni  

Fréttir

Hundrað milljónir til íslenskra þátttakenda í fjórða kalli Norðurslóðaáætlunarinnar

Hundrað milljónir til íslenskra þátttakenda í fjórða kalli Norðurslóðaáætlunarinnar
NPA svæðið 2021-2027

Íslenskir þátttakendur eru í sjö verkefnum af þeim níu sem hlutu styrki í fjórða kalli Norðurslóðaáætlunarinnar, þar af eitt verkefni sem leitt er af íslenskum aðila.

Á fundi stjórnar Norðurslóðaáætlunarinnar 29. maí sl. var samþykkt að styðja níu verkefni en alls bárust 19 umsóknir í þessu kalli sem er það fjórða eftir aðalverkefnum á áætlunartímabilinu sem spannar árin 2021-2027

Með þessari úthlutun voru samþykkt styrkvilyrði upp á um 665.000 evrur eða sem nemur um 100 milljónir ísl. kr. og hefur þá verið ráðstafað um 2.350.000 evrum sem eru nálægt 90% af þeim fjármunum sem  Ísland hefur til ráðstöfunar.

Áframhaldandi kröftug þátttaka Íslands

Þessi staða endurspeglar þá kröftugu þátttöku sem verið hefur í áætluninni af Íslands hálfu frá upphafi. Að þeim verkefnum meðtöldum sem nú hlutu stuðning hafa íslenskir aðilar þannig verið þátttakendur í 28 verkefnum, átta forverkefnum og 20 aðalverkefnum, af þeim 49 sem styrkt hafa verið. Heildarkostnaður íslenskra þátttakenda í verkefnum er rúmlega 3,7 milljónir evra og samanlagður kostnaður þeirra verkefna 27,8 milljónir evra. Þannig hefur framlag íslenskra þátttakenda og stjórnvalda margfaldað sig og veitt aðgengi að margvíslegri þekkingu og myndað verðmæt tengsl.

Þau verkefni með íslenskri þátttöku sem hlutu brautargengi að þessu sinni eru:

Arctic Edge - Supply Chain Integration for Interoperability & Enhanced Resilience of SMEs in remote regions

Í verkefninu er ætlunin að styrkja aðfangakeðjur smáfyrirtækja í dreifbýli með þróun og nýtingu stafrænna lausna sem byggja á tækni sem þegar er til en hefur ekki verið nýtt nema að takmörkuðu leyti í rekstri minni fyrirtækja. Þannig verði skilvirkni, seigla og aðlögunarhæfni fyrirtækjanna aukin. Afurðir verkefnisins verða m.a. sérsniðnar lausnir og heildstætt kennsluefni í formi kennslumyndbanda.

Þátttakendur eru: Sligo Leitrim ITS Regional Development Projects DAC, operating as the AIM Centre (IE), sem leiðir verkefnið, Seamless Aluminium Ltd (IE), Luleå University of Technology (SE), Centria University of Applied Sciences (FI), North Karelia Chamber of Commerce (FI), Sligo County Council (IE), Good4u (IE) og Háskóli Íslands – iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.587 þús. evrur og íslenska hlutans 100 þús. evrur.

SelfCare -  Self Management of Health and Wellbeing in Rural Areas

Verkefnið hefur að markmiði að bæta aðgengi menningarlega viðkvæmra hópa að velferðarþjónustu og leiðbeiningum um heilsusamlega lífshætti. Áhersla er á að þjónustan sé boðin fram með þeim hætti að hún falli að gildum og verðmætamati viðkomandi hópa sem oft búa við jaðarsetningu, tengslaleysi og vantraust og skilningsleysi af hálfu velferðarkerfanna. Í verkefninu verður sérstaklega unnið með flóttamenn frá Úkraínu á Írlandi, Sama í Svíþjóð og eldra fólk í dreifbýli á Íslandi.

Þátttakendur eru: Region Västerbotten (SE), sem leiðir verkefnið, University of Limerick (IE) og Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.018 þús. evrur og íslenska hlutans 200 þús. evrur.

BGN -  Bauhaus Goes North

Verkefnið snýst um að innleiða hugmynda- og aðferðafræði New European Bauhaus (NEB) stefnunnar við hönnun bygginga, manngerðs umhverfis og skipulagsvinnu. Stefnan byggir á aðkomu ólíkra aðila með sjálfbærni og eflingu hringrásarhagkerfisins að leiðarljósi. Aðlögun að mismunandi aðstæðum á áætlunarsvæðinu með tilraunaverkefnum til  að skilgreina bestu aðferðir sem auðvelt er að yfirfæra milli staða. 

Þátttakendur eru: University College Cork (IE), sem leiðir verkefnið, OULU University of Applied Science (FI), UIT The Arctic University of Norway (NO), City of Bodø (NO), Umeå University (SE), Cork County Council (IE) og Grænni byggð.  Heildarkostnaður verkefnisins er 1.633 þús. evrur og íslenska hlutans 191 þús. evrur.

THREADs - Textile and Habiliment Reuse for the Environment and NPA Area Development

Í verkefninu er horft heildstætt á lífsferil textílsins, þ.e. allt frá hönnun, í gegnum framleiðslu, notkun og svo söfnun og endurnýtingu. Verkefnið byggir á forverkefni þar sem unnið var með þær áskoranir á áætlunarsvæðinu sem felast í löngum flutningsvegalengdum, aukinni notkun á textíl og takmarkaðri endurvinnslu. Í því er horft til þess að nýta reynslu á milli landa hvað varðar tæknilausnir, fræðslu, aukna meðvitund og þekkingaryfirfærslu.

Þátttakendur eru: Kajaani University of Applied Sciences (FI), sem leiðir verkefnið, The municipality of Kittilä (FI), Kiertokaari Ltd (FI), Remiks Husholdning AS (NO), Western Development Commission (IE), University of Boras (SE), Technological University of the Shannon (IE), Lulea Miljoresurs AB (SE) og Textílmiðstöð Íslands. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.505 þús. evrur og íslenska hlutans 129 þús. evrur.

ArcticSewlutions - Sewage management in cold and sparsely populated regions: solutions for the Arctic in view of a changing climate and emerging contaminants

Verkefnið snýst um að afla og safna saman upplýsingum um virkni mismunandi aðferða við meðhöndlun á fráveituvatni á köldum og dreifbýlum svæðum. Jafnframt að afla upplýsinga um  þau aðskotaefni sem er að finna í viðtökum nærri byggðum á norðurslóðum. Markmiðið er að efla yfirfærslu þekkingar og reynslu á milli svæða þannig að hægt sé að leggja mat á virkni mismunandi aðferða og beita þeim sem best virka við tilteknar aðstæður. Þannig megi bæta meðhöndlun fráveituvatns á tímum loftslagsbreytinga við mismunandi aðstæður og styrkja  þannig seiglu og heilbrigði viðkomandi samfélaga. 

Þátttakendur eru: University of Oulu (FI), sem leiðir verkefnið, Luleå University of Technology (SE), Technical University of Denmark (GL), Lumire (SE) og EFLA. Heildarkostnaður verkefnisins er 1.455 þús. evrur og íslenska hlutans 130 þús. evrur.

CAP-SHARE - Building Bridges of Shared Capacity between Scientists, Policymakers, and Communities

Í verkefninu er leitast við að brúa það bil sem oft er á milli almennings/einstakra samfélaga, vísindamanna og stjórnmála sem býr til áskoranir þegar kemur að verndun líffræðilegs fjölbreytileika og aðlögunaraðgerðum gagnvart loftslagsbreytingum. Sérstaklega á þetta við á dreifbýlum svæðum þar sem fólk finnur fyrir þessum umhverfisþáttum en upplifir takmörkuð tækifæri til viðbragða og að vera ekki með í ráðum. Ætlunin er að þróa og innleiða aðferðafræði sem eflir þekkingu og skilning milli þessara hópa á því hvernig takast má á við verndun líffræðilegs fjölbreytileika og sjálfbæra nýtingu náttúrunnar útfrá hagsmunum nærsamfélagsins.

Þátttakendur eru: Náttúruminjasafn Íslands, sem leiðir verkefnið,  Arctic Frontiers (NO), University of Lapland (FI). Samstarfsaðilar eru einnig Selasetur Íslands, Húnaklúbburinn og Húnaþing vestra. Heildarkostnaður verkefnisins er 794 þús. evrur og íslenska hlutans 313 þús. evrur.

NAMRO - Arctic and North Atlantic Mass Rescue Operation Guidelines

Verkefnið snýr að samhæfingu viðbragðsaðila yfir landamæri til að bæta viðbragð þeirra og getu til að takast á við  verkefni sem hverjum aðila um sig væru ofvaxin. Er þar ekki síst horft til stærri skemmtiferðaskipa sem fara um hafið á starfssvæði áætlunarinnar. Þróuð verður handbók með viðkomandi viðbragðsaðilum til að takast á við stóra, flókna og sjaldgæfa atburði með samhæfðum viðmiðum og stöðluðum aðgerðum þegar kemur að því að þiggja og/eða veita alþjóðlega aðstoð. Með vinnslu handbókarinnar eru viðbragsaðilar einnig aðstoðaðir við að greina hvaða bjargir eru til staðar, hvað upp á kann að vanta og tryggja allar boðleiðir.

Þátttakendur eru: Joint Rescue Coordination Centre Norway (NO), sem leiðir verkefnið, Munster Technological University (IE) og Landhelgisgæslan. Heildarkostnaður verkefnisins er 207 þús. evrur og íslenska hlutans 74 þús. evrur.

Yfirlit um heildarúthlutunina í þessu fjórða kalli er að finna hér. Frekari upplýsingar um þau verkefni sem samþykkt hafa verið er svo að finna hér á heimsíðu Norðurslóðaáætlunarinnar.

 

Norðurslóðaáætlunin (Northern Periphery and Arctic Programme) er samstarfsvettvangur Evrópusambandsríkjanna Írlands,  Svíþjóðar og Finnlands og svo Noregs, Íslands, Grænlands og Færeyja. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að samstarfsverkefnum milli landanna sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum áskorunum á sviði atvinnu- og byggðaþróunar og er núgildandi áætlunartímabil 2021-2027.

 


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389