Fara í efni  

Spurt og svarað

Hver er tilgangurinn með Aflamarki Byggðastofnunar?

Margar minni sjávarbyggðir hafa glímt við erfiðleika vegna kvótasamdráttar síðustu ár og áratugi.  Til þess að mæta þeim vanda hafa stjórnvöld ákveðið að hluti þeirra aflaheimilda sem úthlutað er árlega skuli renna til byggðarlaga í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Á hvaða grunni byggir Aflamark Byggðastofnunar?

Það byggir á 10.gr. a í lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og reglugerð nr. 643/2016.

Hvaða byggðarlög koma til greina?

Í reglugerð koma fram skilyrði um hvaða byggðarlög koma til greina. Þau eru:

  • Að það hafi átt í alvarlegum eða bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi eða ætla megi að samdráttur í greininni myndi skapa slíkan vanda.
  • Störf við veiðar og vinnslu séu eða hafi verið verulegur hluti starfa í byggðarlaginu sl. 10 ár.
  • Íbúar séu færri en 450.
  • Íbúaþróun hafi verið undir landsmeðaltali sl. 10 ár.
  • Meira en 20 km. í næsta byggðakjarna með meira en 1.000 íbúa.
  • Sé á vinnusóknarsvæði með undir 10.000 íbúum.
  • Að úthlutun skipti verulegu máli fyrir framtíð byggðarlagsins að mati stjórnar Byggðastofnunar.

Hvernig eru samningsaðilar valdir?

Auglýst er eftir umsóknum og samið við aðila á grundvelli þeirra að undangengnu samráði við sveitarstjórnir viðeigandi byggðalaga. Þau atriði sem horft er til eru skv. reglugerð:

  • Trúverðug áform um útgerð, vinnslu sjávarafurða og aðra starfsemi.
  • Fjöldi heilsársstarfa sem skapast eða verður viðhaldið.
  • Sem bestri nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu.
  • Öflug starfsemi sem dregur úr óvissu um framtíðina.
  • Jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélag.
  • Traust rekstrarsaga forsvarsmanna umsækjenda.

Hvernig eru samningar um Aflamark Byggðastofnunar?

Allir samningar eru birtir á heimasíðu Byggðastofnunar og í þeim er m.a. kveðið á um gildistíma, magn aflamarks sem stofnunin lætur í té, mótframlag samningsaðila í formi veiðiheimilda og öðru, t.d. afla úr strandveiði, árlegt vinnslumagn og fjölda starfa sem skapast og/eða er viðhaldið með starfsemi samningsaðila.

Geta erlendir aðilar fengið úthlutun af Aflamarki Byggðastofnunar?

Nei og ef breyting verður á eignarhaldi er tilkynningarskylda hjá stjórnendum fyrirtækja og eftirlitsskylda hjá ráðuneyti.

Í einu tilviki hefur eignarhald farið tímabundið yfir þau mörk sem skilgreind eru í lögum nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Stofnunin gerði athugasemdir um leið og henni barst vitneskja um málið og var það leiðrétt í kjölfarið. Verklag vegna þessa hefur verið uppfært.

Er löndunarskylda á Aflamarki Byggðarstofnunar í viðkomandi byggðarlögum?

Engin ákvæði eru um löndunarskyldu í lögum, reglugerðum eða samningum. Hins vegar eru ákvæði um vinnsluskyldu og fylgst er með því að það magn sem samið er um skili sér til vinnslu.

Hvað gerist þegar eigendaskipti verða á samningsaðilum?

Í samningum eru skyldur um tiltekna starfsemi sem haldast óbreyttar þrátt fyrir breytt eignarhald á fyrirtækjum sem eiga aðild að samningum um Aflamark Byggðastofnunar.

Má framselja Aflamark Byggðastofnunar?

Nei óheimilt er að framselja Aflamark Byggðastofnunar. Hins vegar má skipta á tegundum en þau skipti þurfa að vera jöfn í þorskígildum talið. Hægt er að gera vistunarsamninga við stærri útgerðir til þess að skipta út tegundum sem erfitt er fyrir minni aðila að veiða og vinna.

Hvers vegna er ekki samið til árs í senn og þar með einfaldað fyrir nýliðun?

Lögin heimila samninga til allt að sex ára og megin rökin fyrir samningum til lengri tíma er að auka fyrirsjáanleika fyrir samningsaðila sem þá geta tekið ákvarðanir um fjárfestingar og aðra uppbygginu sem erfitt væri að gera ef aðeins væri samið til eins árs. Það stuðlar einnig að fyrirsjáanleika fyrir starfsfólk viðkomandi fyrirtækja og stuðlar því að stöðugleika í viðkomandi byggðarlögum umfram það sem samningar til árs í senn myndu gera.  Ekki er sjálfgefið að samningar til árs í senn myndu einfalda nýliðun því hún krefst ekki síður fyrirsjáanleika en rekstur rótgróinna fyrirtækja. Vænlegast er fyrir þá sem hyggjast hasla sér völl á þessu sviði að ná samningum við samningshafa stofnunarinnar um aðild að því aflamarki sem um er samið.

Er eitthvað eftirlit viðhaft með samningsaðilum?

Já eftirlit með samningunum er í höndum Byggðastofnunar og felst í árlegum skilagreinum samningsaðila um framkvæmd samninga þar sem gera þarf grein fyrir veiðum og vinnslumagni, fjölda starfa og fleiri þáttum. Þessar upplýsingar eru svo sannreyndar með samanburði við löndunar- og vinnslutölur úr gagngrunni Fiskistofu skv. sérstakri heimild. Einnig eru starfsstöðvar samningsaðila heimsóttar eftir því sem þurfa þykir, bæði í boðuðum og óboðuðum heimsóknum. Þá er einnig eftir atvikum leitað álits viðkomandi sveitarstjórna og stéttarfélaga starfsmanna á framkvæmd samninga.

Hvað gerist ef samningsaðilar uppfylla ekki ákvæði samninganna?

Komi fram frávik í framkvæmd samnings er ávallt leitað skýringa hjá samningsaðilum og úthlutun aflamarks stöðvuð tímabundið. Séu  frávik minniháttar og/eða skýringar metnar lögmætar eru gerðar formlegar athugasemdir og úthlutun aflamarks heimiluð að nýju. Við alvarlegum brotum er stofnuninni skv. reglugerð heimilt að rifta samningi og eru dæmi um að til þess hafi komið.

Hvað hefur miklu aflamarki Byggðastofnunar verið úthlutað?

 Staður 2013-14 2014-15 2015-16 2016-17 2017-18 2018-19 2019-20 2020-21 2021-22 2022-23 2023-24 Samtals
Suðureyri 400 400 400 500 500 500 500 500 500 500 500 5.200
Drangsnes 150 150 150 150 250 250 250 250 250 250 250 2.350
Raufarhöfn 400 400 400 500 500 500 500 500 500 500 500 5.200
Flateyri 300 300 300 499 400 400 400 400 400 400 400 4.199
Þingeyri   400 400 500 500 500 500 500 500 500 500 4.800
Hrísey   150 250 250 350 350 350 350 350 350 350 3.100
Breiðdalsvík   150 300 400 400 400 400 400 400 400 400 3.650
Djúpivogur   400 800 800 800 800 800 800 800 800 800 7.600
Tálkn./Patr.fj. 400 400 400 400 400 400 400 400 400 400 400 4.400
Bakkafjörður 150 150 150 150 250 250 400 400 400 400 400 3.100
Grímsey     400 400 400 400 520 460 460 460 460 3.960
Hólmavík                     500 500
Samtals 1.800 2.900 3.950 4.549 4.750 4.750 5.020 4.960 4.960 4.960 5.460 48.059
Frá fyrra ári   25 514 851 1.002 1.392 698 771 740 643    
Til ráðstöfunar 1.800 2.925 4.464 5.400 5.752 6.142 5.718 5.731 5.700 5.603 5.460 48.059

 

.

 

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389