Lögum samkvæmt leggur innviðaráðherra fram á Alþingi á hverju kjörtímabili tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til fimmtán ára og samhliða henni tillögu að aðgerðaáætlun til fimm ára. Gildandi byggðaáætlun sem var einróma samþykkt á Alþingi í júní 2022 og nær til ársins 2036 en aðgerðaáætlun hennar til ársloka 2026.
Íbúaþing undir merkjum Brothættra byggða var haldið í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi helgina 4. og 5. okt. sl. Húsnæðismál í víðum skilningi, bætt ásýnd og aukin nýting heita vatnsins, eru mikilvægustu viðfangsefni samfélagsins í Kaldrananeshreppi til að styrkja stöðu byggðarlagsins til framtíðar.
Árlegur íbúafundur verður haldinn í byggðaþróunarverkefninu DalaAuði miðvikudaginn 8. okt. nk. kl. 17:30 í félagsheimilinu Dalabúð í Búðardal. Nú eru liðin tæp fjögur ár frá því að verkefnið hóf göngu sína í samstarfi íbúa Dalabyggðar, sveitarfélagsins, Vestfjarðastofu og Byggðastofnunar.
Í dag eru 40 ár liðin frá því að Byggðastofnun var komið á legg með sérlögum. Það er óhætt að segja að stofnunin hafi komið að fjöldamörgum mikilvægum verkefnum fyrir landsbyggðirnar á þessum tíma og er hvergi nærri hætt á þeirri vegferð sinni að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu.
Íbúaþing verður haldið í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi dagana 4. og 5. október nk. Undanfarið hefur verkefnisstjórn nýs þátttökubyggðarlags í Brothættum byggðum í Kaldrananeshreppi undirbúið íbúaþingið sem standa mun yfir frá kl. 11:00-16:00 á laugardeginum og frá kl. 11:00-15:00 á sunnudeginum.
Tuttugu og fimm ára afmælisráðstefna Norðurslóðaáætlunarinnar sem fram fer í Bodø í Noregi verður í beinu streymi 1. og 2. október. Á ráðstefnunni sem ber heitið Punktarnir tengdir koma saman þátttakendur í verkefnum og fulltrúar samfélaga á starfssvæði áætlunarinnar ásamt umsjónaraðilum hennar.
Dagana 15.-18. september heimsóttu Arnar Már forstjóri og Sigríður Elín forstöðumaður þróunarsviðs fulltrúa sveitarfélaga í Grímsnes- og Grafningshreppi, í Hrunamannahreppi, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, í Bláskógabyggð, í Ölfusi, í Mýrdalshreppi og í Skaftárhreppi.