Reglur Byggðastofnunar um regluvörslu, meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda
1. Inngangur
1.1. Markmið og gildissvið
Markmið reglna þessara er að tryggja að regluvarsla, meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda Byggðastofnunar séu í samræmi við lög og reglur sem um málaflokkinn gilda. Reglunum er ætlað að hindra að innherjaupplýsingar berist til óviðkomandi aðila ásamt því að stuðla að auknu jafnræði meðal fjárfesta og öðrum þáttum sem áhrif kunna að hafa á verð fjármálagerninga útgefnum af stofnuninni.
Reglur þessar gilda um regluvörslu, meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda hjá Byggðastofnun með fjármálagerninga útgefnum af stofnuninni sem teknir hafa verið til viðskipta, eða óskað hefur verið eftir að teknir verði til viðskipta, á viðskiptavettvangi hér á landi, á Evrópska efnahagssvæðinu eða á sambærilegum erlendum mörkuðum.
Reglur þessar eru settar á grundvelli laga um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021 sem veitir lagagildi ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 596/2014 (hér eftir sameiginlega nefnt „MAR“)
Reglur þessar taka gildi þegar í stað.
1.2. Skilgreiningar
a) Innherjaupplýsingar: nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða, beint eða óbeint, einn eða fleiri útgefendur eða einn eða fleiri fjármálagerninga og væru líklegar, yrðu þær gerðar opinberar, til að hafa marktæk áhrif á verð fjármálagerninganna eða verð tengdra afleiddra fjármálagerninga.
b) Aðili á innherjalista:
- aðili sem hefur aðgang að innherjaupplýsingum og starfar fyrir stofnunina samkvæmt ráðningarsamningi, eða hefur á annan hátt með höndum verkefni sem hann hefur aðgang að innherjaupplýsingum gegnum, s.s. ráðgjafi, endurskoðandi.
- Stjórnandi: Stjórnarmenn, forstjóri og lykilstarfsmenn skv. e- lið.
- Nákominn aðili:
- Maki eða samvistarmaki
- Barn á framfæri, kjörbörn og stjúpbörn
- Önnur skyldmenni sem hafa búið á sama heimili í a.m.k. ár á þeim degi sem viðkomandi viðskipti fara fram
- Lögaðili, sjóður eða sameignarfélag þar sem stjórnunarstörfum er gegnt af stjórnenda eða aðila sem talinn er upp í a-,b eða c lið hér að framan, eða er stjórnað beint eða óbeint af sömu aðilum
- annar lögaðili ef fjárhagslegir hagsmunir hans eru samtvinnaðir hagsmunum stjórnanda eða aðila sem talinn er nákominn honum sbr. hér að framan.
c) Regluvörður: Með hugtakinu regluvörður í reglum þessum er átt við regluvörð og staðgengil regluvarðar jöfnum höndum eftir því sem við á.
d) Viðskiptavettvangur: Hugtakið viðskiptavettvangur er notað í reglum þessum um skipulegan markað (kauphöll) markaðstorg fjármálagerninga (MTF) og skipulegt markaðstorg (OTF), sbr. lög um markaði fyrir fjármálagerninga.
e) Lykilstarfsmenn eru forstöðumenn sviða, yfirmaður áhættustýringar og regluvörður (ef annar en forstöðumaður lögfræðisviðs)
1.3. Staðfesting og endurskoðun
Reglur þessar eru samþykktar af stjórn Byggðastofnunar og skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Regluvörður ber ábyrgð á að tryggja að viðeigandi endurskoðun eigi sér stað.
2. Meðferð innherjaupplýsinga
2.1. Upplýsingaskylda og mat á upplýsingum
Starfsmenn, forstjóri og stjórnarmenn Byggðastofnunar skulu gera regluverði tímanlega grein fyrir upplýsingum sem hugsanlega geta talist til innherjaupplýsinga. Regluvörður skal gefa álit sitt á því hvort upplýsingar séu þess eðlis að þær teljist til innherjaupplýsinga.
2.2. Birting innherjaupplýsinga
Byggðastofnun skal birta, eins fljótt og auðið er, þær innherjaupplýsingar sem varða hana beint. Skal stofnunin tryggja að innherjaupplýsingar séu gerðar opinberar með þeim hætti sem gerir almenningi kleift að fá skjótan aðgang að upplýsingunum og leggja fullt, rétt og tímanlegt mat á þær.
Byggðastofnun skal birta og viðhalda á vefsíðu sinni, í a.m.k. fimm ár, öllum innherjaupplýsingum sem henni ber að birta opinberlega.
2.3. Lögmæt frestun birtingar innherjaupplýsinga
Byggðastofnun getur, á eigin ábyrgð, frestað opinberri birtingu innherjaupplýsinga, að því tilskildu að slíkt sé heimilt samkvæmt MAR, og skal upplýsa Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (hér eftir FME/SÍ) í samræmi við þær frestanir sem um ræðir.
Ákvörðun um frestun birtingar innherjaupplýsinga skal tekin af forstjóra í samráði við regluvörð. Hafi birtingu innherjaupplýsinga verið frestað og trúnaður þessara innherjaupplýsinga er ekki lengur tryggður skal stofnunin birta þær opinberlega eins fljótt og auðið er.
2.4. Ólögmæt miðlun innherjaupplýsinga
Það telst ólögmæt miðlun innherjaupplýsinga ef aðili býr yfir innherjaupplýsingum og miðlar þeim til annars aðila, nema miðlunin fari fram í eðlilegu sambandi við stöðu, starf eða skyldur.
Hafi innherjaupplýsingum verið miðlað áfram skal regluverði tilkynnt um það, án tafar.
3. Innherjalistar
3.1. Gerð innherjalista
Regluvörður skal viðhalda uppfærðum lista yfir alla aðila, sbr. b. lið kafla 1.2. reglna þessara, sem hafa aðgang að innherjaupplýsingum á hverjum tíma.
Að fenginni beiðni þar um, skal regluvörður afhenda FME/SÍ innherjalistann eins fljótt og auðið er. Skal listinn afhentur á því formi sem FME/SÍ óskar eftir.
Regluvörður skal varðveita innherjalistana í að minnsta kosti fimm ár eftir gerð hans eða uppfærslu.
3.2. Tilkynning um skyldur aðila sem eru á innherjalista
Regluvörður skal gera allar eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að allir aðilar á innherjalistanum viðurkenni skriflega þær skyldur samkvæmt lögum og reglum sem því fylgir og geri sér grein fyrir þeim viðurlögum sem gilda um innherjasvik og ólögmæta miðlun innherjaupplýsinga.
4. Viðskipti stjórnenda
Stjórnendum og aðilum þeim nákomnum er einungis heimilt að eiga viðskipti með fjármálagerninga útgefna af stofnuninni á opnu viðskiptatímabili sem er 30 dagar frá birtingu uppgjöra hennar.
Ef viðskipti stjórnanda með fjármálagerninga útgefna af stofnuninni nær fjárhæð sem nemur 5.000 evrum, í einum eða fleiri viðskiptum, innan almanaksárs, skal hann tilkynna um þau viðskipti sín til FME/SÍ og regluvarðar, eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 3 viðskiptadögum eftir að viðmiðunarfjárhæð er náð. Regluvörður sendir tilkynningu til birtingar í fréttakerfi viðeigandi kauphallar.
5. Hlutverk regluvarðar
Byggðastofnun ræður regluvörð og vararegluvörð til eins árs í senn og staðfestir ráðningu hans með erindisbréfi. Regluvörður hefur umsjón með að reglum þessum og ákvæðum MAR sé framfylgt innan stofnunarinnar.
Regluvörður skal gefa stjórn yfirlit yfir störf sín í tengslum við reglur þessar að minnsta kosti árlega.
Regluvörður skal halda skrá um samskipti sem fara fram á grundvelli reglna þessara. Regluvörður skal setja viðeigandi verklag um efni reglnanna þ.m.t. um gerð og viðhald innherjalista, birtingu/frestun birtingar innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda.
Regluverði er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum reglna þessara, sé það tryggt að undanþágan brjóti ekki í bága við gildandi lög og reglur, og skal senda skriflega umsókn þess efnist til regluvarðar á regluvordur@byggdastofnun.is.
Regluverði ber að tilkynna FME/SÍ um hugsanleg brot gegn ákvæðum reglnanna.
6. Fræðsla um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda
Stjórnarmenn, forstjóri og starfsmenn Byggðastofnunar skulu hafa þekkingu og aðgang að þeim lögum og reglum er gilda um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda.
Regluvörður skal sjá til þess að viðeigandi starfsmenn stofnunarinnar fái fræðslu um lög og reglur er gilda um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda.
Staðfest á fundi stjórnar Byggðastofnunar 20. janúar 2023