Skýrsla stjórnar Byggðastofnunar og forstjóra
Skv. 3. gr. laga um Byggðastofnun skipar ráðherra á ársfundi sjö menn í stjórn Byggðastofnunar til eins árs í
senn og sjö menn til vara. Á ársfundi stofnunarinnar 16. apríl 2020 skipaði samgöngu- og
sveitarstjórnarráðherra nýja stjórn sem sitja skal fram að næsta ársfundi en þó ekki lengur en til 1. júlí 2021. Í
stjórnina voru skipuð Magnús Björn Jónsson stjórnarformaður, Halldóra Kristín Hauksdóttir varaformaður,
Gunnar Þorgeirsson, Karl Björnsson, María Hjálmarsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Unnar Hermannsson. Á
sama tíma voru sjö varamenn skipaðir, þau Bergur Elías Ágústsson, Herdís Þórðardóttir, Þórey Edda
Elísdóttir, Lilja Björg Ágústsdóttir, Anna Guðrún Björnsdóttir, Friðjón Einarsson og Heiðbrá Ólafsdóttir. Þann
11. ágúst 2020 sagði Unnar Hermannsson sig frá setu í stjórn og tók Heiðbrá Ólafsdóttir sæti hans. Ráðherra
skipar formann og varaformann og ákveður þóknun stjórnar. Fjármálaeftirlit SÍ metur hæfi stjórnarmanna skv.
52. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Á árinu 2020 hélt stjórn Byggðastofnunar 15 stjórnarfundi. Fundir eru almennt haldnir á skrifstofu
stofnunarinnar á Sauðárkróki, en vegna áhrifa COVID-19 hélt stjórn fleiri fundi og voru flestir fundirnir fjarfundir.
Eru fundargerðir stjórnar birtar á heimasíðu stofnunarinnar.
Stjórn ber ábyrgð á skipun endurskoðunarnefndar og skal nefndin svara beint til stjórnar. Hún skal skipuð
þremur aðilum eigi síðar en mánuði eftir aðalfund. Nefndarmenn skulu vera óháðir endurskoðanda eða
endurskoðendum Byggðastofnunar og meirihluti nefndarmanna skal jafnframt vera óháður Byggðastofnun. Á
fundi stjórnar 22. maí 2020 voru Ragna Hjartardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Kristbjörg Kristbergsdóttir
skipuð í endurskoðunarnefnd Byggðastofnunar til eins árs og Halldóra Kristín Hauksdóttir til vara.
Stjórn skipar regluvörð samkvæmt erindisbréfi og kemur regluvörður að lágmarki einu sinni á ári fyrir stjórn og
kynnir skýrslu um þau málefni sem undir starfssvið hans heyra. Þá hefur stjórn einnig skipað
persónuverndarfulltrúa skv. erindisbréfi.
Á fundi stjórnar í maí 2020 samþykkti stjórn Byggðastofnunar stjórnarháttaryfirlýsingu Byggðastofnunar og er
hún birt á heimasíðu stofnunarinnar byggdastofnun.is.
Stjórn Byggðastofnunar leitast við að viðhalda góðum stjórnunarháttum og hefur sett sér reglur um störf
stjórnar auk siðareglna fyrir starfsfólk og stjórn. Þá hafa verið settar starfsreglur fyrir endurskoðunarnefnd og
stjórn hefur skilgreint hlutverk regluvarðar. Hjá stofnuninni starfar lánanefnd sem fjallar um allar lánsumsóknir,
sölu fullnustueigna auk þess að gera tillögu til stjórnar um sölu hlutabréfa og afgreiðslu lánamála yfir sínum
heimildamörkum. Þá eru til staðar hjá stofnuninni aflamarksnefnd, áhættumatsnefnd, og öryggisnefnd sem
settar hafa verið verklagsreglur um. Verklagsreglur um útlánastarfsemi, fjármála- og eignaumsýslu hafa verið
uppfærðar reglulega og í þeim er m.a. kveðið á um heimildir lánanefndar. Voru reglurnar síðast uppfærðar og
samþykktar af stjórn á fundi hennar 19. febrúar 2021.
Málefni byggðamála, og þar á meðal Byggðastofnunar heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Í 4. gr. laga um Byggðastofnun er nánar kveðið á um verkefni stjórnar. Stjórn hefur sett sér reglur um störf sín
og voru þær síðast endurskoðaðar 26. febrúar 2020.
Í umboði stjórnar starfar endurskoðunarnefnd sem hefur lögbundið eftirlitshlutverk með endurskoðun
stofnunarinnar. Endurskoðunarnefnd skal aðstoða stjórn við að uppfylla skyldur sínar með því að starfa sem
óháður og hlutlægur aðili sem hefur eftirlit með reikningsskilaferli stofnunarinnar og innra eftirliti hennar ásamt
störfum ytri og innri endurskoðenda stofnunarinnar eins og nánar er tilgreint í verklagsreglum hennar og í
samræmi við 108. gr. b. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Stjórn Byggðastofnunar staðfesti nýjar reglur um
störf endurskoðunarnefndar Byggðastofnunar á fundi 22. maí 2020.
Á árinu 2020 voru skráðar 160 beiðnir um greiðslufresti vegna áhrifa COVID-19. Kemur langmestur fjöldi
þeirra frá aðilum í ferðaþjónustu og öðrum þjónustuaðilum. Ljóst er að áhrifin eru enn að koma fram og
munu áfram hafa áhrif á sjóðstreymi stofnunarinnar. Stjórnvöld og Seðlabankinn hafa komið fram með
fjölmargar aðgerðir til að vinna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum faraldursins en mikil óvissa er enn
um þróun faraldursins og hvenær verður endanlega hægt að létta af öllum takmörkunum sem til komnar eru
vegna hans. Nánar er fjallað um þetta í skýringu 21.
________________________________________
Ársreikningur 2020
________________________________________
Byggðastofnun